12.11.1935
Neðri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (2696)

40. mál, iðnaðarnám

Gísli Guðmundsson:

Ég hefi, ásamt hv. 9. landsk., flutt nokkrar brtt. á þskj. 502. Hv. 9. landsk. hefir nú skýrt frá viðhorfi okkar flm. og svo menntamn. við till. þessum, og eins og hv. dm. hafa tekið eftir, virðist meiri hl. menntamn. meðmæltur þessum till. okkar. Aðeins hv. 11. landsk. hefir lýst sig mótfallinn þeim, og hefir hann gert grein fyrir sinni afstöðu. En ég vona, að þar sem meiri hl. n. hefir veitt þeim samþ. sitt, þá muni þær einnig ná samþ. hér í hv. d.

Það vakti fyrir okkur hv. 9. landsk., að við vildum gera þessa löggjöf svo vel úr garði, að hún gæti orðið að raunverulegu liði. Því fórum við nánar út í sum atriði, sem frv. gerir litla grein fyrir. T. d. töldum við óhugsandi, að ríkið legði fram allan kostnað. Við álítum, að ef ríkinu væri gert að bera þennan kostnað, þá yrði aldrei neitt um framkvæmdir, því að í fjárl. myndi aldrei verða samþ. svo mikill kostnaður. Ég held að hv. 11. landsk. fari villur vegar, ef hann hyggur sig greiða fyrir málinu með því að berjast fyrir, að ríkið greiði allan kostnað. Við viljum hinsvegar láta skipta stofnkostnaði milli ríkis og héraða, og eins álítum við rétt, að ríkið beri nokkuð af rekstrarkostnaði.

Ég hefi höggið eftir því, að ýmsir hv. þm. hafa talað um þetta mál eins og það væri eingöngu mál sýslufélaga. En það gæti ekki síður komið til mála, að bæirnir notuðu sér þessa heimild. Þetta er því alveg eins þeirra mál.