18.12.1935
Efri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (2705)

40. mál, iðnaðarnám

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Eins og hv. frsm. meiri hl. menntmn. hefir tekið fram, þá var lítilsháttar meiningarmunur um þetta frv. í n., þó ekki um það, hvort það ætti að ganga fram eða ekki, heldur var það svo, að minni hl. taldi rétt að binda ákvæði frv. við það hérað, þar sem mestur áhugi hefir verið á þessu máli. Brtt. mínar eru á þskj. 786, og eru þær nærri orði til orðs endurprentun á till., sem núv. hv. 1. þm. Reykv. flutti á Alþ. 1929, og þess vegna verða mín rök að mestu leyti hin sömu og hans.

Ég vil benda á, að það er engin ástæða til þess, að þetta frv. sé látið ná til nema Rangárvallasýslu, því sú nýung, sem frv. fer fram á, hefir hvergi gert vart við sig nema í þessu eina héraði, og því er ekki sanngjarnt að lögfesta þetta fyrir hin önnur héruð, sem eru annars búin að sjá fyrir þörf sinni í þessum efnum, eða þannig er ástatt um, að þetta á ekki við hjá þeim. Það má t. d. benda á, að í frv. er gert ráð fyrir. því formi, að þetta fyrirkomulag geti átt við í kaupstöðunum. Nú sjá allir, að Reykjavík og Hafnarfjörður hafa ekki þessa vinnuþörf á sama stigi og þá, sem sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu fann til, að væri fyrir hendi þar. Það er í raun og veru misskilningur hjá aðalhöfundi þessa frv. og fullhæpið hjá flm. þess, að það er beinlínis gert ráð fyrir því, að bæjarfélögin noti þetta fyrirkomulag, og að það eigi við hjá þeim, en það er í rauninni eins fjarstætt og það, að byggður væri unglingaskóli í Reykjavík með heimavist í miðjum bænum. En slíkt hefir aftur á móti verið gert í ýmsum héruðum landsins. Það eru býsna mörg héruð, sem eru búin að sjá fyrir skólaþörf sinni. Ég vil benda á Austfirði, sem hafa Eiðaskóla og gagnfræðaskólann á Norðfirði. Það eru því ekki líkur til þess, að Austfirðingar hafi neitt með þessa heimild að gera. Þingeyjarsýslur hafa einn skóla, Eyjafjarðarsýsla hefir ekki beinlínis neinn héraðsskóla, en það eru tveir almennir skólar á Akureyri. Skagafjörður hefir Hólaskóla, Húnavatnssýslur hafa tvo skóla og Vestfirðir hafa sína skóla. Borgarfjarðarsýsla og Árnessýsla hafa sína héraðsskóla. Frá skynsamlegu sjónarmiði er því till. hv. 1. þm. Reykv. frá 1929 eðlilegt svar í þessu máli. Þó að Rangarvallasýsla, sem engan héraðsskóla hefir, vilji fá þessa heimild, þá er engin þörf á því að binda hana við önnur héruð landsins. Ég furða mig á því, að hv. meiri hl. hefir ekki viljað ganga inn á það, að svara þeim áhuga, sem komið hefir fram í Rangárvallasýslu á þessu máli, með því að veita þeirri sýslu einni þetta leyfi.

Ég vil nú spyrja hv. frsm. meiri hl. að það, hvernig beri að skilja þetta fyrirkomulag, sem fn. gerir ráð fyrir, þegar til framkvæmda kemur. Ég hefi nú bent á, að það er óeðlilegt að blanda kaupstöðunum inn í þetta mál, því fyrirkomulag það, sem frv. gerir ráð fyrir, á ekki við þar. Nú vil ég spyrja hv. frsm. að því, hvort ætlunin sé sú, að reistir séu sérskólar fyrir stúlkur. Og ef svo er, þá verður í hverju héraði að reisa tvo skóla, annan fyrir pilta, en hinn fyrir stúlkur. Það er að vísu sagt í frv., að fyrst eigi að reyna með piltaskólana, og ef þeir reynast vel, þá lítur út fyrir, að það eigi að reisa aðra skóla fyrir stúlkur. En þegar þar að kemur, hlýtur sú spurning að vakna, hvernig þær eigi að vinna fyrir skólavistinni. Í 1. gr. frv. segir: „Heimilt skal sýslunefndum og bæjarstjórnum að ákveða það lýðskólafyrirkomulag innan sýslu eða bæjarfélagsins, að allir ungir menn verkfærir á aldrinum 18 ára vinni kauplaust líkamleg störf í þarfir síns sýslu- eða bæjarfélags, þar sem þeir eiga heimili, 7 vikur að vorlagi, gegn ókeypis húsavist og kennslu við verklegt og bóklegt nám í skóla í 6 mánaða tíma næsta vetur eftir að vinnan hefir farið fram“. Nú vil ég fá að heyra það frá hv. frsm. meiri hl., hvaða líkamlega vinnu stúlkur myndu geta unnið fyrir hérað sitt fyrir skólavistina. Ég veit, að piltar geta t. d. unnið í vegavinnu. En ætlast hv. meiri hl. n. eða ætlast sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu til þess, að stúlkur séu látnar vinna í vegavinnu, eða kannske hlaða fyrir Markarfljót eða gera aðra slíka gagnlega hluti? Í frv. vantar ákvæði um þetta. Ég veit, að hv. frsm. meiri hl. sér, að það er nógu slæmt að lögleiða svona frv. fyrir eina sýslu, þó það sé ekki lögleitt fyrir allar sýslur, þar sem ríkissjóður á að kosta byggingu skólanna. Og þegar búið væri að byggja einhvern slíkan skóla, þá gæti svo farið, að héraðið vildi ekkert með hann hafa og mundi hann þá skella yfir á ríkissjóð. En þegar búið væri að byggja slíkan skóla, þá er ég viss um, að menn teldu það ekki viðeigandi að svipta þá skólavist, sem ekki vildu vinna. Í 3. og 4. gr. frv. er sagt, að þessa skóla eigi að byggja fyrir ríkisfé. Nú er komið það lag í kaupstöðunum og sveitunum, að þar er lagt fram mikið fé á móti því, sem ríkissjóður leggur fram. Það er t. d. svo um hinn nýja Flensborgarskóla, og þar leggur ríkið fram 2 hluta á móti 3 hlutum frá bænum. Framlagið frá kaupstöðunum og sveitunum á að vera trygging fyrir því, að slíkar byggingar séu ekki knúðar fram nema vilji héraðanna sé fyrir hendi. En þegar búið er að lögleiða þetta fyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir, þá getur Rangárvallasýsla samþ. Það, að hún vilji fá slíka skóla. Og þegar það er búið, þá skulum við segja, að sá flokkur, sem hv. frsm. meiri hl. telst til og fulltrúar Rangárvallasýslu og sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu tilheyra einnig, setti það á oddinn, þar sem hann hefir meiri hl. í sýslunni, að slíkur skóli væri byggður í Rangárvallasýslu. En svo þegar skólinn væri kominn, þá vildi unga fólkið kannske ekki sækja hann. Þá kæmi fram sama spurning eins og um spítalann á Eyrarbakka á sínum tíma: Hvað á að gera við bygginguna? Það má alveg búast við því, að unga fólkið vilji ekki gangast undir þetta, enda hefir mikið verið talað um þrældóm í sambandi við þetta mál. En ég vil nú ekki nota svo stórt orð um þetta. En ég vil benda á, að það væri hægt fyrir lagna sýslunefnd að nota þessi ákvæði, sem í frv. eru, til þess að koma upp skóla í sýslunni, þó að bak við það kynni að liggja sá tilgangur, að skólinn yrði starfræktur á nokkuð annan hátt en gert er ráð fyrir í frv. Það hefði verið hægt fyrir sýslunefnd Hafnarfjarðarkaupstaðar að viðhafa slíka aðferð með Flensborgarskólann, og heimta það af þm. kjördæmisins, að hann fengi þann þingmeirihl., sem hann tilheyrir, til þess að samþ. að veita fé til slíkrar byggingar. En þegar búið væri að byggja skólann, þá vildi fólkið ekki sækja hann, ef hann væri rekinn með þessu fyrirkomulagi, og yrði þá að starfrækja hann á annan hátt. Ég tek þetta fram til þess að sýna, að það getur orðið sama spursmálið eins og var með spítalann á Eyrarbakka, sem aðeins var búið að gera fokheldan, en svo varð að taka húsið og breyta því og nota það til annars, til þess að láta það ekki standa autt. Það er ómögulegt að neita því, að það er bæði skrítið fyrirkomulag á kennslunni samkv. þessu frv. og þessari skiptingu á piltum og stúlkum, og það gerir það sérstaklega óaðgengilegt að samþ. frv. sem landslög í heild.

Af kurteisi við höfund og flm. frv. höfum við ekki lagt til, að frv. verði fellt, heldur takmarkað þannig, að það nái ekki nema til eins héraðs, Rangárvallasýslu. Nú vildi ég óska, að hv. frsm. meiri hl. menntamn. eð hv. 2. þm. Rang. útskýrði, hvernig hægt er að hindra það, að ríkið yrði hreinlega að geta viðkomandi héraði það hús, sem ríkið væri þar búið að byggja, og hvers vegna þá ekki er réttara að gefa Rangárvallasýslu einni það leyfi, sem felst í frv., heldur en fara að leiða önnur héruð í þá gildru, sem lögð er með þessu frv. og sett er til þess að eyðileggja það skipulag, sem komið er í skólamálum alþýðu bæði í sveitum og kaupstöðum.