18.12.1935
Efri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (2706)

40. mál, iðnaðarnám

Frsm. meiri hl. (Guðrún Lárusdóttir):

Það eru aðeins örfá orð til hv. þm. S.-Þ., frsm. minni hl., sem ég ætla að segja. Hann var að spyrja um það, hvað stúlkurnar ættu að starfa. ég skal svara því, að þær þurfa ekki endilega að moka mold. Það er kvartað yfir kvenfólksleysi í öllum sveitum. Það er ekki endilega bundið við það, að þær vinni í opinberri vinnu, heldur gætu þær unnið bara venjuleg heimaverk. (JJ:Á að leigja þær út?). Það er algengt, að stúlkur vinni hjá öðrum, þó það sé ekki algengt að kalla, að þær séu leigðar. Ég sé ekkert á móti því, þó þær vinni þörf störf á heimilum og taki fyrir það út sína skólaveru. Svo var hv. þm. að tala um ógurlegan kostnað fyrir ríkissjóð. Ég skal benda honum á það, sem stendur í þriðju línu í 3. gr., að fé skuli veitt úr ríkissjóði til bygginga þessara aðeins í fjárl. Nú sem stendur er þessi hv. m. sjálfur form. fjvn., og ég býst við, að hann hugsi sér að verða það framvegis. Ég býst því við, að hann reyni að passa dyrnar á ríkissjóðnum. En hvort sem hann eða aðrir verða í þessu sæti í framtíðinni, þá þarf þó alltaf samþykki Alþingis, svo ég fæ ekki séð, að hér sé sérleg hætta á ferðum.

Þá var hv. þm. að spyrja um, hvað ríkissjóður ætti að gera, þegar búið væri að byggja skóla og enginn vildi í hann fara. (JJ: Já, ef). Já, ef, - þá á héraðið að endurgreiða ríkissjóði á vissu árabili það, sem ríkissjóður hefir lagt fram. Ég sé því ekki, að hér sé um stóra hættu að ræða. Mér skildist á hv. þm., að hann héldi, að hér ætti að lögbjóða þessa skóla í kaupstöðum og héruðum, en það þarf miklu meira til. Mikill meiri hl. í héruðunum þarf að samþ. þetta, svo hér er ekkert að óttast. Mér finnst broslegt að vera að binda þessi lög við eitt sýslufélag. Því ekki, ef þetta er þarft og gott mál, að leyfa fleiri héruðum að reyna það, og þó ekki hafi komið óskir um þetta nema úr einni sýslu, þá sannar það ekkert.