18.12.1935
Efri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (2707)

40. mál, iðnaðarnám

Pétur Magnússon:

Ég vildi segja aðeins örfá orð um brtt. hv. þm. S.-Þ. Aðalbrtt. er sú, að láta heimildina til þess að stofna slíkan skóla, sem frv. gerir ráð fyrir, aðeins ná til Rangárvallasýslu. Þá till. rökstyður hv. þm. með því, að því er mér skildist, að í þeirri einu sýslu hefði komið fram einhver áhugi fyrir þessu máli. Það liggur ekkert fyrir, sem sýnir, að í Rangárvallasýslu sé meiri áhugi fyrir þessari hugmynd en annarsstaðar, þó sá maður, sem frumkvæði á að þessu máli, sé sýslumaður í þeirri sýslu. Það hefir að vísu verið leitað hófanna um undirtektir við þetta mál innan Rangárvallasýslu, og get ég upplýst það, að æðimargir áhrifamenn þar eru hugmyndinni fylgjandi, en slíkt mun ekki vera neitt einsdæmi um Rangárvallasýslu. Ýmsir menn víðsvegar á landinu eru hugmyndinni fylgjandi, og það er augljóst, ef hér er um að ræða breytingu til bóta á skólafyrirkomulaginu, að þá getur það vitanlega átt víðar við en í Rangárvallasýslu.

Það hefir vakað fyrir höfundi frv., að skylduvinna veiti ekki aðeins aðgang að skólavist, heldur yrði vinnan líka uppeldismeðal, sem þroskaði unglingana ekki aðeins líkamlega heldur og andlega. Náttúrlega fer slíkt mest eftir því, hvernig menn veljast til að veita þessu forstöðu, en ef til þess veljast góðir menn, orkar það ekki tvímlælis, að vinnan verður ekki ómerkilegur þáttur í uppeldi unglinganna.

Það er að vísu svo, að þegar eru komnir héraðsskólar í mörgum sýslum, og þarf ekki að búast við, að þær sýslur noti þetta fyrirkomulag, en hinar eru líka margar, sem engan skóla hafa, og hafa þær eins mikla ástæðu og Rangárvallasýsla til þess að vilja notfæra sér þetta frv., þegar það er orðið að lögum. Það er því hrein og bein fjarstæða að binda þetta frv. við Rangárvallasýslu eina, því ekkert bendir til þess, að sú sýsla byggi slíkan skóla á undan öðrum.

Hitt aðalatriðið í ræðu hv. þm. S.-Þ. var sú hætta, sem hann taldi á því, að þrátt fyrir það þó ríkissjóði yrðu bundnir óhæfilegir baggar með byggingu skólahúsanna, þá gæti farið svo, að skólarnir yrðu ekki starfræktir. Það má segja, að sú hætta sé samfara öllum skólum, því það er aldrei hægt að lofa því fyrirfram um einn skóla, að hann standi um aldur og æfi. Það má því segja, að ríkissjóður eigi alltaf nokkuð á hættu, er hann leggur fé í byggingu skóla, hvort sem fyrirkomulag hans er á þennan eða annan hátt. Hitt liggur í augum uppi, að, ekkert hérað leggur í þann kostnað að reisa skóla nema að það ætli sér líka að reka hann. Nú getur maður auðvitað gert ráð fyrir þeim möguleika, að fyrirkomulagið reyndist ekki vel, en þá eru þó mestar líkur fyrir því, að skólahúsið yrði notað áfram fyrir skóla með breyttu fyrirkomulagi. Mér sýnist sem sé, að það sé ekki meiri hætta á því, að hætt verði að nota þessi hús til skólahalds fremur en önnur skólahús. Auk þess er eins og hv. 5. landsk. tók fram, í 4. gr. frv. gert ráð fyrir því, að sýslu- eða bæjarfélag endurgreiði framlag ríkissjóðs á 40 árum, ef hætt er að nota skólann. Það má náttúrlega segja, að þetta ákvæði sé ekki mikils virði, því héruðunum mundi slík endurgreiðsla ofvaxin, en það mætti þá í raun og veru segja hið sama um aðra skóla.

Ég hefi þá minnzt á þessi tvo atriði, sem hv. þm. minntist á. Hann sagði, að ekki mundi verða hægt undir neinum kringumstæðum að framkvæma þetta skólafyrirkomulag í kaupstöðunum. Það hygg ég að sé mjög vafasöm staðhæfing. Ég hygg, að ekki muni frekar verða vandræði að finna verkefni fyrir unglinga í kaupstöðum enn í sveitum, svo margt er eftir ógert hér í þessu landi.