18.12.1935
Efri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

40. mál, iðnaðarnám

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég skal taka það fram, að ég kvaddi mér hljóðs m. a. vegna þess, að mér finnst málið nokkuð reikult á milli flokka, og er þá gamall síður, að menn geri grein fyrir atkv. sínu, og vil ég nú gera grein fyrir atkv. mínu, en ég get huggað hv. þdm. með því, að það hefir aldrei verið mín tilætlun að hefja neitt málþóf. Það er sú aðferð, sem hvorki ég né mínir flokksmenn hafa við afgreiðslu mála, þótt þeim séu þau ógeðfelld.

Mín afstaða til þessa frv. er sú, að ég er því andvígur, og aðallega af þeirri ástæðu, að hér er ætlazt til þess, að komið sé á þegnskylduvinnu fyrir unglinga, og það um land allt, jafnt í sveitum og bæjum. Þessi stefna er ekki ný, en hversu mikið fylgi hún hefir í landinu. er ekki hægt að dæma um, en það er skoðun mín, að slíka löggjöf eigi ekki að setja nema atkvgr. hafi farið fram og skorið úr málinu.

Ég hygg jafnvel, að í þessu héraði, Rangárvallasýslu, hafi alls ekki verið leitað álits sýslubúa um þetta mál. (BSt: Jú, það var einu sinni gert). Ég hefi ekki heyrt þess getið. Og hvernig fór það? (BSt: Það var samþ.). Ég ætla ekki að rengja hv. 1. þm. Eyf. En mér skilst, að þetta mál hafi verið aðaláhugamál sýslumanns Rang., sem eitt sinn bauð sig fram til þingmennsku fyrir þetta hérað. Og þar sem hann féll við þær kosningar, hygg ég, að m. a. vegna þessa máls hafi fylgi hans ekki verið mikið. (BSt: Þetta mál kom ekkert þeim kosningum við). Ég álít, að þingið eigi ekki að samþ. slíka löggjöf sem þessa, fyrr en fullvíst er, að unga kynslóðin í landinu sé því fylgjandi, að þessi þegnskylda komist á í einhverri mynd.

Þar sem lýðræði er efst á baugi hjá þjóðunum, er þegnskylduvinnan skoðuð sem kvöð á þjóðinni. Að vísu geta svona skólar og þegnskylduvinnu haft nokkurt uppeldislegt gildi. En vitanlega fer slíkt eftir því, hvernig svona stofnunum er stjórnað. Á það hefir verið bent af hv. þm., að e. t. v. yrði svona skólafyrirkomulag til þess, að unglingar hrektust úr sveitum til kaupstaða, vegna þess að þeim fyndist þessi þegnskylda vera ok á hálsi þeirra.

Á það var bent hér af hv. 1. þm. N.-M., að sjálfsagt væri meiri vöntun á öðru en skólum í landinu. Þetta hygg ég, að rétt sé. Ef hér væri aðeins um verklegt nám að ræða og mál þetta væri flutt hér eftir vilja æskunnar í landinu, þá væri allt öðru máli að gegna.

Í 2. lið 1. gr. er ákvæði, sem mér virðist óviðfelldið í þessu frv. Þar eru undanþegnir þessari þegnskyldu unglingar, sem hafa haft efni á því að fara í skóla eftir fermingu, og nær þetta undanþáguákvæði þá til barna efnaðri munna. Það lítur út fyrir, að þegnskylduákvæði þessi séu eingöngu stíluð upp á börn fátækara fólksins. Þessi stefna frv. gerir það óalandi í mínum augum, að það er eins og verið sé með ákvæðum þess að tyfta fátæklingana fyrir það, að þeir geti ekki látið börn sín ganga í skóla. Það er þó nokkur bót á þessari ósniðsflík, að undanskilin þessum tyftunarákvæðum frv. eiga að vera bæjarfélög. Mun ég greiða því undanþáguákvæði atkv. mitt, en mun að lokum leggja mitt lið til að fella frv.