28.11.1935
Efri deild: 81. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

181. mál, siglingalög

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og tekið hefir verið fram við 1. umr. þessa máls, þá er efni 1. gr. þessa frv. það, að rýmkaður sé réttur þeirra, sem hafa sjóveðskröfu fyrir kaupi í skipi, þannig að kröfurétturinn nái einnig til vátryggingarfjár, ef skip ferst. Sjútvn. hefir athugað þetta og telur sanngjarnt, að það verði samþ. En þar sem svo er ákveðið í greininni, að vátryggingarsala sé ekki heimilt að láta af hendi vátryggingarfé fyrr en eftir 3 mánuði, þá telur n. óþarft að hafa tímann svo langan, og telur, að frestur kröfuhafa sé nægilega langur, ef hann er 2 mánuðir, því 3 mánaða frestur geti verið bagalegur þeim, sem rétt hafa til vátryggingarfjárins. N. leggur því til, að hann sé styttur niður í tvo mánuði.

2. gr. kveður á um það, að fyrirfram gefið afsal skipshafnar eða einstakra skipverja á sjóveðrétti skuli vera ógilt. Meiri hl. n. þykir með þessu nokkuð langt gengið á samningafrelsi manna, og getur því ekki samþ. þetta. meiri hl. n. leggur því til, að þetta verði fellt úr frv.

Þá hefir n. borizt, eins og getið er um í nál., frv. til l. um breyt. á sömu l., og er gerð nokkur grein fyrir því í nál. Eru þær brtt. nokkuð annars eðlis. 1. brtt. var eins eða um það, að rýmkaður væri réttur kröfuhafa. En 2. brtt. fer í þá átt, að undanþiggja sjóveðskröfurétti úttekt til skipa, sem notuð eru til fiskiveiða hér við land, en hún nær ekki til skipa, sem sigla til annara landa. Ástæðan fyrir þessari brtt. er sú, að reynslan hefir sýnt, að með því að láta þennan sjóveðskröfurétt fylgja úttekt skipanna, þá er veðgildi þeirra það mikið rýrt, að það er lítt mögulegt að fá lán út á skipin. Það hlýtur að baka þeim mönnum, sem þurfa að fá lán út á skipin, mikla erfiðleika, hversu erfitt er að fá lánin gegn veði í skipunum. N. fellst því á, að þessi brtt. sé réttmæt. Hér innanlands eru ekki þeir erfiðleikar á að ná til útgerðarmanna, að af því þurfi að hljótast töf fyrir veiðar skipanna. Hinsvegar er rétt að taka það fram, að af þessari breyt. leiðir, að það er nokkrum meiri erfiðleikum bundið fyrir skipin að afla sér nauðsynja utan heimilis en áður hefir verið. N. játar, að það er í mörgum tilfellum kostur að geta fengið úttekt vara án allra vífilengja. En það er oft á kostnað þeirra aðilja, sem engan kost eiga þess að gæta sinna hagsmuna. Sérstaklega með tilliti til þess ástands, sem nú ríkir, að það er svo miklum erfiðleikum bundið að fá hæfileg lán út á skipin vegna sjóveðskröfuréttarins, þá hallast n. að því að gera þessa breyt. Eins og tekið er fram í fylgiskjalinu, sem fylgir nál. sjútvn. og var grg. með brtt. frá bönkunum, þá hafa Norðmenn fyrir allmörgum árum breytt sjóveðskröfuréttinum einmitt í þessa átt, og sennilega af sömu ástæðu, sem lá til grundvallar fyrir því, að þessi brtt. er flutt. - Ég þarf ekki að lýsa þessu nánar, því ég geri ráð fyrir, að margir af hv. dm. hafi haft kynni af verkun þessa ákvæðis á útgerðina, og sé því ljóst, að það er ekki ástæðulaust að breyta til. Því verður ekki neitað, að einhver óþægindi kunni að verða af þessari breyt. fyrir hina stærri útgerð hér á landi, sérstaklega síldarútveginn. En þegar á það er litið, að brtt. er fram komin til þess að koma meiri festu og öryggi í útveginn, þá hygg ég, að afstaða n. verði viðurkennd af hv. dm. að vera rétt. Ég vil benda á, að n. taldi nauðsynlegt að setja inn ákvæði, sem er undir stafl. s. um það, að ákvæði 2. og 3. gr. gildi ekki um kröfur, sem stofnaðar eru eingöngu vegna úttektar nauðsynja til heimferðar skips. N. lítur svo á, að þetta ákvæði sé ekki hættulegt, og að það sé í þágu veðhafa skipsins, að það komist heim.

Að endingu skal ég geta þess viðvíkjandi e-lið 3. brtt., að þar á að standa „vegna úttektar“, en ekki „vegna greiðslu“, og hefir n. orðið ásátt um að flytja skrifl. brtt. við þetta, svo að það verði fært til rétts máls. Mun ég svo afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt.