23.03.1935
Efri deild: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (2748)

73. mál, fangelsi

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Það er náttúrlega af eðlilegum ástæðum af því, að hér er blandað saman þremur óskyldum stofnunum, að þegar ég tala í austri, þá svara þeir í vestri hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. Skagf. Ég neita því ekki, að ástæða geti verið til að koma upp í stærri kaupstöðunum geymsluplássi fyrir menn, sem geyma þarf um stundarsakir, t. d. vegna ölæðis, eða þá brjálsemi. En ég álít það hlutverk hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarfélaga, og ég veit ekki betur en svo sé álitið í öðrum löndum, að það sé þeirra hlutverk að koma upp „detentionslokölum“. Ég sé ekki ástæðu til að hjálpa sveitarfélögunum til að koma upp slíkum húsum, þar sem það er í þeirra verkahring. En það tel ég óþarft að koma upp hegningarhúsum í öllum stærri kaupstöðum og kauptúnum, og óþarfa fjáreyðslu úr ríkissjóði.

Það getur vitanlega verið fullkomin ástæða til að setja menn í gæzluvarðhald um stundarsakir vegna þess að grunur leikur á um, að þeir hafi framið afbrot. En mér þykir ólíklegt, að ríkisstj. geti ekki komizt að samkomulagi við bæjar- eða sveitarfélögin um að taka slíka menn til geymslu um stundarsakir gegn hæfilegri þóknun. Mætti semja um vissa greiðslu fyrir slíka fanga eða gera samning til eins árs í senn. En eins og ég hefi tekið fram, tel ég nægilega séð fyrir fangahúsum hér á landi eins og nú er.

Út af því, sem hæstv. forsrh. sagði um 8. gr. frv., vil ég aðeins segja það, að ég tel eðlilegt, að sveitar- og bæjarfélög greiði kostnað þann, sem leiðir af fangageymslu um stundarsakir, en hitt tel ég óeðlilegt, að þau greiði kostnað fyrir gæzlu til að afplána stærri sektir eða refsingar vegna afbrota gegn ríkisvaldinu, sem er réttur og skylda ríkisstj. eða ríkisvalds að framkvæma gegn þeim borgurum, sem brotlegir gerast við landslög.

Hæstv. forsrh. lét það í ljós við mig áðan í „prívat“ samtali, að því færi ekki fjarri, að kostnaður við geymslu fanga um stundarsakir og úttekt refsinga stæðist á. Þetta getur vel verið rétt - ég veit það ekki -, en þó er það svo, að ef tíðkast að láta menn taka út refsingu fyrir almenn smærri brot, þá trúi ég ekki öðru en sá kostnaður verði meiri en við einangrun. Ég hefi haldið, að það muni ekki vera algengir viðburðir í kauptúnum með 700—1000 íbúa að taka menn fasta, þó að það geti komið fyrir, að taka þurfi ölóða menn nótt og nótt. Virðist mér, að það mundi verða ódýrara fyrir slíka staði að leigja 1 eða 2 herbergi í þessu skyni en að byggja og reka stór fangahús til að geyma í einn og einn mann stöku nótt. Ég verð að segja það - og ég held, að svo muni flestir álíta -, að ekki þurfi að vanda slíka klefa svo mjög eða hafa skrautleg híbýli handa ölóðum mönnum nætursakir, og mætti vel komast af með ekki merkilega kompu til slíkra hluta.

Ég hefi ekki heyrt nein rök, hvorki frá hæstv. forsrh.hv. frsm., sem liggja til þess eða gera mér ljósa nauðsyn þess að leggja í þann kostnað, sem frv. fer fram á.