02.04.1935
Neðri deild: 43. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (2757)

73. mál, fangelsi

Jónas Guðmundsson [óyfirl.):

Þetta frv. var flutt í fyrra af fjvn. þingsins, en náði þá ekki afgreiðslu. Fyrir fjvn. liggja árlega beiðnir um styrk til byggingar fangahúsa. Engin ákvæði eru til í lögum um það, hvernig rekstri þeirra skuli hagað, en hingað til hefir það verið svo, að ríkissjóður ber kostnaðinn, og utan Rvíkur getur varla heitið, að til séu fangahús. - Þarf ég svo ekki að mæla frekar með frv. þessu. Held ég, að öllum hv. þdm. sé það kunnugt, hvílíka þörf kaupstaðirnir hafa fyrir slík hús, og er því gert ráð fyrir, að sveitar- og bæjarfélög greiði helming kostnaðar við byggingu og rekstur slíkra húsa móti ríkissjóði. Hér í Rvík hefir þetta ákvæði þá breyt. í för með sér, ef frv. þetta verður að lögum, að Rvíkurbær greiðir eftirleiðis helming kostnaðar við rekstur hegningarhússins hér, í stað þess að nú er hann greiddur að öllu leyti úr ríkissjóði. Er hér um tiltölulega lítil útgjöld að ræða, og er því smávægilegt atriði fyrir bæinn. Hv. Ed. hefir gengið frá frv. eins og það liggur hér fyrir. Vil ég mælast til þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn., og vænti þess, að það fái greiða og góða afgreiðslu á þinginu.