09.12.1935
Sameinað þing: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

1. mál, fjárlög 1936

Einar Árnason [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér, ásamt hv. samþm. mínum, að flytja brtt. við 22. gr. frv. Till. er þess efnis, að hæstv. stj. sé heimilað að ábyrgjast fyrir tunnuverksmiðju Siglufjarðar 200 þús. kr. rekstrarlán, gegn þeim tryggingum, er hæstv. stj. metur gildar, og í öðru lagi gegn því, að tryggt sé, að lánið verði greitt fyrir áramót. Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. sé kunnugt um, að á Siglufirði hefir verið byggð tunnuverksmiðja með nýtízkutækjum, sem getur framleitt allmikið af þeim síldartunnum, sem nota þarf í landinu, en það er svo með þetta fyrirtæki, að það er fjárvana og þarf því á aðstoð ríkisins að halda til þess að geta útvegað sér rekstrarfé, en svo sem kunnugt er, þurfa þessar tunnuverksmiðjur mikið rekstrarfé; þær þurfa að kaupa efnivið í tunnur og náttúrlega að greiða að einhverju leyti þeim mönnum kaup, sem starfa við tunnuverksmiðjuna, en þær geta hinsvegar ekki selt tunnur, fyrr en líður nokkuð á árið, þegar síldveiðin hefst. Ég sé að hv. fjvn. hefir lagt til í brtt. sínum við fjárlfrv., að hæstv. stj. verði heimilað að ábyrgjast til Akureyrarkaupstaðar sömu upphæð og þessa til rekstrar tunnuverksmiðjunni, sem þar er. Þó að báðar þessar verksmiðjur starfi nú síðari hluta vetrar og fram á vor, þá munu þær ekki einn sinni fullnægja þeirri tunnuþörf sem líklegt er, að verði á næsta sumri. Nú er það svo, ef þessi ábyrgð fæst ekki, þá er útilokað, að þessi tunnuverksmiðja á Siglufirði geti útvegað sér nokkurt rekstrarlán, og þá yrði verksmiðjan að standa óhreyfð, og allir þeir menn, og þeir eru margir, sem þar fá atvinnu, mundu ganga atvinnulausir nú í vetur og fram á vor og hafa vitanlega ekki annað sér til framfæris en það, sem það opinbera leggur fram úr ríkissjóði og bæjarsjóðum til atvinnubóta. Það liggur í augum uppi, að það væri stórkostleg óhagsýni að láta þessa verksmiðju standa aðgerðalausa, en kaupa hinsvegar inn í landið tilbúnar tunnur og kaupa með því vinnu af öðrum þjóðum. Ég hefi flutt þessa till. að nokkru leyti með ráði hæstv. fjmrh. Ég hygg, að hann sé henni meðmæltur, og ég vona, að hv. fjvn. vilji líta með velvild til till., því að hún er í rauninni hliðstæð því, sem hv. n. hefir sjálf lagt til um Akureyrarkaupstað.

Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Ég þykist viss um, að hv. þm. sjái þá þörf, sem hér um ræðir, og ég held, að mér sé óhætt að segja, að svo framarlega sem síldarútvegurinn verður á komandi tímum nokkuð svipað því, sem hann hefir verið, þá sé full trygging fyrir því, að slíkt rekstrarlan sem þetta greiðist næsta haust með því andvirði, sem fæst fyrir tunnur, svo að þessu leyti ætti ekki að vera áhætta fyrir ríkissjóð að ganga í þessa ábyrgð.