09.12.1935
Sameinað þing: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

1. mál, fjárlög 1936

Finnur Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil leyfa mér an gera aths. við brtt. hv. fjvn. við fjárl. viðvíkjandi upphæð, sem greiðist starfsmönnum landssímans, símtalauppbótinni. Það er gert ráð fyrir, að uppbótin verði greidd eftir fyrirmælum hv. fjvn. Ég býst ekki við, að það sé neinn ágreiningur um að greiða þessa upphæð, og ekki heldur um það, hversu há hún á að vera, en það stingur einkennilega í stúf við reglur, sem gilt hafa um slík tilfelli hér á þingi, að fyrirmali um þetta atriði skuli vera lögð í hendur hv. fjvn., sem starfar ekki nema meðan þingið situr, en tekin úr höndum hæstv. stj. og þess ráðh., sem þessi mál heyra undir. Ég vil leyfa mér að leggja fram brtt. í þá átt, að þessi þáttur málsins, sem ég gat um, verði lagður í hendur ráðh., að fengnum till. hv. fjvn. (Óska ég þess, að hæstv. forseti beri þessa till. undir atkv., svo að hægt verði að ræða hana ásamt öðrum atriðum þessa máls.

Ég hefi tekið eftir því, að hv. fjvn. hefir gert ráð fyrir því í brtt. sínum, að þingkostnaðurinn verði lækkaður niður í 185 þús. kr., úr 245 þús. kr. Væri í sjálfu sér ekki nema gott eitt við slíkum sparnaðarráðstöfunum að segja, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi, að gert er ráð fyrir að loka þinginu fyrir þjóðinni, nema þeim fáu mönnum, sem koma til þess að hlusta af áheyrendapöllunum. Hv. fjvn. segir í 9. gr. nál., að þessi sparnaður byggist á því, að hætt verði að skrifa ræður þm. og felld verði niður prentun á umræðuparti Alþingistíðindanna. Eins og ég drap á áðan, þá er þetta lokun á þinginu fyrir öðrum en þeim, sem geta hlustað á ræður þm. á áheyrendapöllunum. Ég held, að það megi teljast eins dæmi um þingsamkundur í lýðræðislöndum, að gert sé ráð fyrir slíkri lokun á þingi. Og það væri einkennilegt, ef Alþingi Íslendinga, sem stæra sig af því að eiga elztu löggjafarsamkundu heimsins, gengi á undan öðrum þjóðum í því að loka þinginu fyrir þjóðinni. Ef gert er ráð fyrir því, að þetta sé yfirleitt vilji meiri hl. hv. þm., þá verður a. m. k. að ganga á undan lagabreyt., því að í 52. gr. þingskapanna segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Umræður þingdeildanna og sameinaðs Alþingis, ásamt þingskjölum og atkvæðagreiðslum um þau, skulu prentaðar í Alþingistíðindunum“.

Nú er vitanlegt, að í fjárlfrv. er ekki hægt að koma með breyt. á almennum lögum, og till. um þetta efni, sem fram kom við fjárlagaumr. í fyrra, var úrskurðuð frá af hæstv. forseta.

Ég vil því skora á hæstv. forseta í samræmi við þann úrskurð, sem kveðinn var upp um þetta efni á Alþingi í fyrra, að taka til íhugunar, hvort ekki beri einnig að vísa þessari till. frá sem ólögmætri, þar sem hún brýtur í bága við gildandi lög án þess að fram komi lagabreyt. hér að lútandi. ég vil í þessu sambandi lýsa yfir því, að Alþfl. er eftir flokkssamþykkt og samkv. fyrri afstöðu sinni því elndregið mótfallinn, að prentun þingtíðindanna verði felld niður, og vil ég ítreka það við hæstv. forseta, að hann taki það til mjög ýtarlegrar athugunar áður en atkvgr. fer fram, hvort ekki beri að vísa till. frá, þar sem hún mun brjóta í bága við gildandi lög.