29.11.1935
Efri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (2785)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Skagf. er því miður ekki viðstaddur, en ég verð þó að svara honum nokkrum orðum í þeirri von, að hv. sessunautur hans (MJ) taki það upp, sem hv. 1. þm. Skagf. kynni að þykja ástæða til að gera aths. við.

Hann byrjaði á því að halda fram, eins og raunar hv. 1. þm. Reykv. gerði líka, að ég hefði eitthvað sérstaklega brugðizt loforðum, er ég hefði gefið í fyrra, þar sem lægi fyrir, að útgjöld fjárl. færu fram úr áætlun á þessu ári. Þeir halda fram, að í orðaskiptum á þinginu í fyrra hafi ég slegið föstu, að útgjöld fjárl. gætu ekki farið fram úr áætlun, þau væru svo há vegna þess, að þau væru áætluð eins hátt og þau gætu frekast farið, og út af því gæti ekki brugðið. Ég hélt fram, þegar fjárlfrv. var lagt fyrir, að útgjaldahliðin væri hærri en árið áður vegna þess, að þeir liðir, sem eru óbundnir, væru hærra áætlanir heldur en áður hefði verið. En mér datt vitanlega ekki í hug að taka ábyrgð á, að þessir liðir væru svo hátt áætlaðir, að ekki gæti farið fram úr því. Þessu vilja hv. þm. snúa út úr þannig, að ég hefði lofað, að gjöldin skyldu ekki fara fram úr áætlun. Til þess að taka af allan vafa um þetta vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp ummæli, er ég viðhafði, er fjárl. voru til 1. umr. Ég sagði m. a. um rétta atriði: „Kemur hér enn í ljós það, sem ég hefi drepið á fyrr í ræðu minni“ — en þar var ég að tala um, hvað útgjöldin hefðu reynzt undanfarin ár, samanborið við áætlun fjárl. —, „að bundin útgjöld hafa yfirleitt verið of lágt áætluð í fjárlögum. Með því að hafa áætlanir sínar lægri gat stj. vitanlega lagt fyrir þingið frv., sem sýndi lægri heildarútgjöld en frv. það, sem hér liggur fyrir. En stj. tók þann kost að áætla bundin útgjöld, sem hún ekki treystist til þess að breyta, svo nærri sanni sem unnt var, til þess að tryggja það sem bezt, að útgjöld færu ekki fram úr áætlun. Við það hækkuðu útgjöldin í frv., eins og rakið hefir verið, en jafnframt jukust líkurnar fyrir því“ — þetta eru nú loforðin — „að frv. stæðist í framkvæmd, og er slíkt fyrir miklu. Nái þetta frv. samþykki Alþingis og takist vel um framkvæmd þess, ættu endanleg útgjöld ársins 1935 sízt að verða hærri en útgjöld undanfarandi ára, þó þau séu hærri samkv. frv. en í fjárl. fyrir þessi ár.“ Hvort svo reynist, ætla ég, að verði nógur tími að tala um, þegar þar að kemur.

Í orðaskiptum við hv. þm. Skagf., þar sem hann kom með þetta sama, að ekki væri víst, að útgjöldin færu ekki fram úr áætlun, þó þau væru hærra áætluð en vant var að gera, sagði ég á þessa leið:

Hv. þm. spurði, hvort ég væri það barn að halda, að raunverulegar greiðslur ársins 1935 færu ekki fram úr áætlunum frv. Ég held, að þessi hv. þm. þurfi ekki að setja sig á háan hest yfir mér í þessu máli, hann hefir verið forystumaður flokks hér á þingi, sem afgr. fjárl. svo, að gjöldin hafa verið áætluð vísvitandi of lágt á mörgum liðum, og þegar svo er, getur ekki Alþingi horft fram á rétta mynd af fjármálunum.“ — Ég ætla, að þessi ummæli viðvíkjandi því, hvernig málið var lagt fram í fyrra, taki af öll tvímæli um það, að skraf þeirra sessunautanna (MG og MJ) um, að einhver loforð hafi verið gefin um, að útgjöld ríkissjóðs skyldu ekki fara fram úr áætlun, er gersamlega út í bláinn. Það, sem hér kemur til með að skipta máli, er það, hvort tilraun stj. til þess að minnka mismuninn milli fjárl. og landsreiknings ber árangur eða ekki. En um það er ekki fyllilega hægt að segja fyrr en LR. liggur fyrir.

Þá var hv. 1. þm. Skagf. að tala um, að allir nýir fjmrh. segðu á Alþingi það sama og ég, að þeir ætluðu gjöldin svo hátt til þess, að þau færu ekki fram úr áætlun. Þetta er ekki rétt. Það hafa margir fjmrh. ekki lagt neina verulega vinnu í að áætla gjöldin eins hátt og líkindi eru til, að þau geti orðið. Þvert á móti hafa margir áætlað tekjur og gjöld mikils til of lágt, jafnvel vísvitandi. En það gefur vitanlega rangari hugmynd um, hvað stjórnirnar ætla fyrir sér í fjármálunum, heldur en sú leið, sem núv. stj. er að reyna að fika sig eftir.

Þá kvartaði sami hv. þm. undan því, að lítið væri gert úr starfi fjvn. með frv. því, sem fyrir liggur. Þetta er byggt á herfilegum misskilningi. Ég hélt, að ég hefði gert nægilega skýra grein fyrir því í fyrstu ræðu minni, að þó farið verði eftir þeim till., sem fjvn. hefir nú orðið sammála um, sem sé að færa niður útgjaldahlið fjárlfrv. um nálægt eina millj. kr. frá því, sem útgjöldin virðast ætla að reynast yfirstandandi ár, þá nema útgjöldin, sem gert er ráð fyrir í frv., með þeirri leiðréttingu, á móti þeim tekjuvonum, sem ég vil áætla fyrir næsta ár. Niðurfærslur fjvn. geta þannig ekki gefið rúm þeim framlögum, sem talað er um í grg. þess frv., er hér liggur fyrir. Þær fara allar til þess að mæta þeim hækkunum á útgjaldahlið fjárl., sem óhjákvæmilegar eru til þess að auka líkurnar fyrir því, að áætlanir þeirra standist í framkvæmdinni.

Hv. 1. þm. Skagf. og hv. 1. þm. Reykv. undrast mjög yfir því, að frv. Það, sem hér er borið fram, miðar aðeins að því að afla tekna til eins árs. Ég er hissa á þessum látalátum þeirra. Eru þeir nokkuð óvanir því, að bornar séu fram till. hér á Alþingi um tekjuöflun eitt ár í senn? Þetta er mjög venjulegt, þegar þröngt er um öll viðskipti og tekjustofnar ríkissjóðs dragast saman, að gripið er til þess að afla tekna til bráðabirgða með öðru móti og gert ráð fyrir, að þegar viðskiptin færast aftur í betra horf, þá falli það niður. Hitt er annað mál, að ef útlitið yrði þannig þegar gengið verður frá fjárl. fyrir árið 1937, að ekki mætti búast við, að tekjurnar dygðu, þá yrði vitanlega annaðhvort að hverfa að því ráði að framlengja þessa tekjuauka á næsta þingi, eða finna í staðinn aðra leið til tekjuöflunar, ef það þætti betur henta. Vegna þess, hvað óvíst er um öll viðskipti og að menn hafa alltaf ástæðu til að vona, að úr rætist, er ekki slegið föstu, að tekjuöflunin skuli gilda nema fyrir næsta ár. Tel ég það skynsamlegt og ekki beina ástæðu til að heimila á þessu þingi sömu tekjuöflun t. d. fyrir árið 1937; til þess er nógur tími á næsta þingi, ef þá lítur út fyrir, að hjá því verði ekki komizt.

Hv. 1. þm. Skagf. sagðist ekki vita betur en fjvn. væri búin að ganga frá till, um tekjuhlið fjárl., þar sem gert væri ráð fyrir meira en 14 millj. kr. tekjuöflun, en þeirri upphæð vildi ég áætla, að tekjurnar mundu nema næsta ár. Hv. þm. veit vel, að þessar till., sem samdar voru snemma á starfstíma n., voru gerðar með þeim fyrirvara, að ekki þyrfti frekar að fara í niðurfærslu innflutnings á næsta ári en árinu, sem er að líða. Það var greinilega fram tekið, bæði af mér og fulltrúum stjórnarflokkanna í fjvn., að ef það kæmi fram við þá rannsókn á verzlunarmálunum, sem þá stóð yfir, að óhjákvæmilegt væri að færa innflutninginn lengra niður heldur en tekizt hefir í ár, þá yrði líka að breyta tekjuáætluninni. Og ég veit ekki annað en að fullt samkomulag sé um það, a. m. k. hjá fulltrúum stjórnarflokkanna í fjvn., að eins og útlitið er nú, sé ekki varlegt að áætla tekjurnar hærri en 14 millj. kr.

Þá kem ég að hv. 1. þm. Reykv. Hann talaði raunar svo vítt og breitt, eins og fyrri daginn, að hann kom lítið inn á frv. sjálft. Hann fór m. a. að tala um innflutningshömlur og reyndi að klóra í bakkann og halda fram, að með till., sem samþ. voru á kaupmannaþinginu, væri ekkert sagt um það út af fyrir sig, hvort innflutningshömlur væru réttmætar eða ekki. En það er þýðingarlaust fyrir hv. þm. að halda fast við þetta, því það kemur skýrt fram í þessum till., að það er gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut, að eins og viðskiptaörðugleikarnir eru nú, verði innflutningshömlurnar að haldast. Ég skil náttúrlega, að það er leiðinlegt fyrir þennan hv. þm. að verða að fá slíka viðurkenningu frá verzlunarstéttinni. Það er vitanlega verzlunarstéttinni til hróss að viðurkenna þetta, en þeim mun leiðinlegra er það fyrir hv. 1. þm. Reykv., sem hefir ímyndað sér, að hann væri í umboði hennar að berjast gegn öllum viðskiptahöftum hér á Alþingi, að fá þetta í bakseglin. En hann verður nú að sætta sig við það eins og hvert annað mótlæti, sem fyrir kemur á lífsleiðinni.

Hv. þm. vildi halda fram, að það hefði komið fram í ræðu minni, er ég vék að innflutningshöftunum og verzlunarmálum, að ég væri fús að beita hlutdrægni í úthlutun innflutningsleyfa. Mig furðar á þessu og óska, að hv. þm. tilfæri ummæli eftir mér, sem benda á þetta. (MJ: Ég gerði það). Hann tilnefndi, að ég hefði nefnt samvinnuverzlanirnar og ríkisverzlanirnar, en ekki kaupmannaverzlanir samhliða. Ég nefndi ekki þessar verzlanir vegna þess, að ég teldi, að aðrar verzlanir ættu engan rétt á sér. Ég sagði, að það væri stefna Framsfl. að viðhalda samvinnufélögunum og færa verzlunina sem mest í hendur þeirra. En ég sagði alls ekki, að flokkurinn ætlaði að vinna að þessari stefnu með því að beita hlutdrægni, þó hann hefði aðstöðu til þess. Hann hefir unnið að henni með samvinnufélögunum og ýmsum öðrum löglegum ráðstöfunum, sem ekki koma fram sem hlutdrægni gagnvart einum öðrum aðila. Ég mótmæli harðlega að það hafi verið beitt hlutdrægni í úthlutun innflutningsleyfa til framdráttar einum né neinum.

Þá kom hv. þm. inn á það, að ég hefði átt að dvelja við það í ræðu minni, í stað þess hvað áunnizt hefði í því að laga verzlunarjöfnuðinn, hvað árangurinn væri mikill, samanborið við áætlun innflutnings- og gjaldeyrisnefndar. því er nú fyrst til að svara, að hv. þm. hirðir ekki um að vita nánar um það, sem hann talar um, heldur en það, að hann sagði, að innflutningsnefndin hefði einhverntíma gefið út einhverja áætlun um, að hún vildi færa innflutninginn niður í 32 millj. kr. En það hefir aldrei komið fram nokkurt orð um það frá innflutningsnefnd, að færa ætti innflutninginn niður í 32 millj. Hitt var gerð nokkur áætlun um, hvernig koma ætti því fyrir, ef það þyrfti að færa innflutninginn niður í 37—38 millj. kr. Hvað því viðvíkur, að innflutningurinn verði meiri en þessari upphæð nemur, þá mun svo verða af ýmsum ástæðum, sem of langt yrði upp að telja. M. a. vegna þess, að þegar innflutningsnefndin úthlutaði meginhluta innflutningsleyfanna, þá hafði hún ástæðu til að líta bjartari augum á útflutnings- möguleikana heldur en jafnvel þegar hún gerði umrædda áætlun, og áreiðanlega heldur en nú eru ástæður til. Eins og ástandið var, þegar n. þurfti að ákveða um þessi mál í aðalatriðum. lá fyrir, að til þess að koma innflutningnum niður fyrir 40 millj. kr. þurfti að takmarka innflutning á byggingarefni, kaffi, sykri, hveiti og fleiri vörutegundum, sem ekki hefir ennþá verið farið í að takmarka. Eins og útlitið var þá, taldi n. ekki rétt að leggja út á þá braut. Hinsvegar er ekki útlit fyrir nú, að hægt verði að gera ráð fyrir öðru en þessi varningur hljóti að verða takmarkaður á næsta ári.

Það var einkennilegt, þegar hv. þm. fór að tala um, hver innflutningurinn mundi verða á þessu bri, og sýnir vel, á hvílíku hundavaði hann fer í ræðum sínum. Hann sagði, að sennilega færi innflutningurinn yfir 48 millj. kr., — jæja; svona 45 til 46 millj., skulum við segja, bætti hann svo við. Jafnóðum og hann sleppir orðunum tekur hann þau aftur og segir annað. Þetta er laglegur ræðumáti, þegar um mál eins og þessi er að ræða. Annars verð ég að segja það, að störf innflutningsnefndar eru þannig, að alltaf má um þau deila, og það er ómögulegt að inna þau þannig af hendi, að ekki megi að finna, jafnvel með einhverjum rökum. En eins og nú lítur út um árangurinn síðari hluta ársins, þá get ég ekki annað en verið með hann sæmilega ánægður. Innflutningurinn er að vísu of hár, miðað við það, sem útflutningurinn ætlar að reynast. En miðað við horfurnar, þegar meginhluti innflutningsins var ákveðinn, finnst mér ekki hægt að áfella innflutningsn. fyrir það, því þá hafði hún rökstuddar vonir um frekari gjaldeyrisöflun heldur en raun hefir orðið á. Ef það tekst á þessu ári að lækka innflutninginn um 6—7 millj„ eða 15% frá því, sem hann var í fyrra, þá verð ég að telja það mikið átak, og meira heldur en gert hefir verið nokkru sinni áður í þessum málum. Þó innflutningurinn færi einu sinni, árið 1932, niður fyrir 40 millj., þá þurfti ekki til þess eins mikið átak þá. Byggist það á því, að árin 1930 og 1931 voru svo miklar vörubirgðir í landinu, að hömlurnar 1932 komu miklu minna við almenning heldur en nú. Það er vitanlega mjög miklum erfiðleikum bundið að koma innflutningnum neðar, en þó er ekki fyrirsjáanlegt annað en að því verði að stefnu og að það verði að reikna með því, þegar áætlaðar eru tekjur ríkissjóðs, ef varlega á að fara.

Hv. 1. þm. Reykv. var ennþá að endurtaka það, að ég hefði lofað að vera búinn að koma á greiðslujöfnuði í árslok 1935. Þetta er vitanlega sagt út í loftið, eins og ásakanir hans og sessunautar hans út af loforðum, sem þeir telja mig hafa gefið í sambandi við fjárlögin. Ég sagði, að stj. vildi vinna að því af fremsta megni að koma á greiðslujöfnuði við útlönd, alveg á sama hátt eins og hún vill vinna að greiðslujöfnuði ríkissjóðs. Hinu þýðir engum að halda fram, að nokkur fari að lofa, að þetta skuli vera komið í kring ákveðinn dag, því slíkt er ómögulegt að segja um fyrirfram. En ég get ekki annað en glaðzt yfir því, að hv. þm. taka upp á að halda þessu fram, því það sýnir, að þeir treysta sér ekki að halda fram, að lítið hafi unnizt í þessu efni, heldur grípa þetta hálmstrá, að minna hafi verið aðgert heldur en talað var um að gera ætti. Hv. 1. þm. Reykv. og sessunautur hans hafa verið að halda því fram í sambandi við þetta mál, að ég hafi getað svarað fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv. um það, hvenær greiðslujöfnuður skyldi verða kominn á, en ekki fyrirspurn hv. 1. þm. Skagf. um, hvenær yrði búið að rétta við fjárhag landsins. Vitanlega eru þessar spurningar báðar sama eðlis, og ég svaraði hvorugri beint, sem ekki er heldur hægt. Einmitt það, að ég tók fram, að ég gæti ekki svarað spurningu hv. 1. þm. Skagf. um, hvenær yrði búið að rétta við fjárhag landsins, var nægilegt til að sýna, að ég vildi ekkert um þetta segja, sem heldur ekki var von, því um slíkt getur enginn sagt fyrirfram. Óviðráðanleg atvik koma þar til greina, þó misjafnlega sé að þessum hlutum unnið af stjórnarvöldunum á hverjum tíma.

Mér finnst það skoplegt hjá 1. þm. Reykv., er hann sagði, að þeir flokkar, sem nú fara með völd, væru réttir til að fara með þau áfram. Það er ekki hægt að skilja öðruvísi en hv. þm. sé að gleðjast yfir hinum erfiðu tímum, gleðjast yfir því, hvað erfitt sé að fara með stjórnarvöld nú, bara til þess að fá tækifæri til að koma fram með árásir á stj. Það er ekki karlmannlegt af hv. þm. Og það felst í þessu yfirlýsing hjá honum um það, að það sé ekki meðfæri Sjálfstfl. að fara með völd nú. Þetta verður alls ekki skilið í annan veg en þann, að hann hrylli við að taka völdin vegna erfiðleika í landinu, þyki því auðveldast að vera í stjórnarandstöðu og skamma allt og alla. Þetta er ekki karlmannlegt, en það er ef til vill mannlegt, eins og hefir stundum verið sagt í svipuðum kringumstæðum.

Þá var hv. þm. að tafsa á því, að till. stjórnarflokkanna væru ekki annað en skattaaukningar. Hann gengur enn framhjá því, sem ég hefi skýrt áður, að hér er einmitt farin millileið, að jöfnu aflað nýrra tekna og skorið niður á útgjöldunum, — það er aflað nýrra tekna um 1 millj. og skorið niður um 1 millj. Hér er því farin millileið, en alls ekki verið að bæta við nýjum sköttum.

Í lok ræðu sinnar talaði hv. þm. um það, sem ég sagði, að tekjuskatturinn kæmi ekki niður á framleiðendum, því þeir hefðu svo lágar tekjur. Hann spyr, hvort ég ímyndi mér, að þeir geti þá staðið undir 15 millj. kr. greiðslu í ríkissjóð. En ég vil biðja hv. þm. að kynna sér fjárlagafrv., hvert framlögin fara, hvað gert er ráð fyrir í frv. umfram beinan rekstur ríkissjóðs. Ég held, að mikill meiri hluti framlaganna fari til styrktar atvinnuvegunum. Ef ætti að fara eftir till. þessa hv. þm. og skera niður þessi framlög, þá er ekki framleiðendum gert léttara fyrir, heldur þvert á móti erfiðara. Þeir missa þá mikil framlög, sem framleiðsla þeirra byggist á nú. Vil ég þar nefna framlögin til landbúnaðarins og til sjávarútvegsins. Hin nýju, auknu framlög eftir till. stjórnarflokkanna eru einmitt framlög til atvinnuveganna, til framleiðenda að langmestu leyti.

Í ræðu sinni sagði hv. 1. þm. Reykv., að ég hefði gleymt að gera grein fyrir, hvað mikill hluti af þessum 950 þús. færi til framleiðenda. Ég vil þá gera það nú. Af þeim tekjum, sem aflað er að nýju, renna 600—650 þús. beint til framleiðenda, allt nema það, sem fer í tryggingarnar, en tryggingarnar koma líka framleiðendum til góða, beint og óbeint, a. m. k. þeim smærri. Sannleikurinn er sá, að með því að leggja á gjöld eins og gert er með þessu frv., þá er verið að færa verðmætin frá öðrum stéttum til framleiðslustéttanna, tekið frá launamönnum og þeim, sem mest kaupa af erlendum vörum, og fært yfir til framleiðenda.

Hv. þm. virðist alltaf ganga út frá, að tekjur í ríkissjóð fari allar til almennrar eyðslu, sem ekki komi borgurum landsins að gagni. Þetta er þvert á móti, ef hv. þm. athugar, hvaða framlög þarf að fella niður til að lækka skattana, þá eru það framlög til atvinnuveganna.

Hv. þm. sagði í fyrri ræðu sinni, að boðskapur sá, sem ég flytti, væri nýstárlegur og þekktist ekki annarsstaðar: að létta á framleiðendum með því að leggja á skatta. En hann þarf ekki að fara langt til að sjá þetta. Það er bæði gert í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Englandi. Þetta er alstaðar það sama, sú stefna, að taka með skattaálagningu fé og verja því til styrktar framleiðslunni. Það er gert um öll þessi lönd, það sama og verið er að gera hér. Þetta er því engin ný kenning, heldur er það í anda þeirrar stefnu, sem uppi er í öllum þingræðislöndum: að reyna með aðstoð löggajafarvaldsins að færa þau verðmæti, sem lent hafa of mjög hjá launamönnum, kaupmönnum o. fl., yfir í vasa framleiðenda. Þetta er alveg sérstaklega gert hér, þessu beitir Framsfl. sér aðallega fyrir, einkum með tilliti til smáframleiðenda.

Ég er hissa á því, að sjálfstæðismenn skuli tala um þetta sem fjarstæðu, því að ég veit ekki betur en það rigni yfir till. frá þeim flokki (vegna ábyrgðarleysis þeirra, því að þeir hafa ekki stjórnaraðstöðu) um allskonar hjálp úr ríkissjóði til sjávarútvegsins o. fl. En þeir gera aldrei grein fyrir, hvernig á að afla fjárins.

Ég nenni svo ekki að stangast frekar við orð hv. þm. En eins og nú er um afstöðu framleiðenda og verkamanna og launamanna hinsvegar, þá er það réttmætt að færa fjármagnið yfir til smáframleiðenda og efla með því hag verklegra framkvæmda.