04.12.1935
Efri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (2793)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Um nýbýlamálið hefi ég nokkuð aðra skoðun en ýmsir hv. þdm., þar á meðal ýmsir flokksbr. mínir. Framsókn flaggar með, að framkvæmd þessa máls létti undir með smáatvinnurekendunum, þ. e. smábændum. Ég er þar á annari skoðun og skal í sem fæstum orðum rökstyðja hana. Þegar frv. um það mál kemur hér til d., skal ég gera betri skil. Í fyrsta lagi er stefnt til stóraukinnar framleiðslu með nýbýlastofnun í stórum stíl. Öllum er kunnugt um það, að við erum langt frá því samkeppnisfærir á heimsmarkaðinum með okkar landbúnaðarafurðir, og þó allra sízt með mjólkurafurðir, en það er sú framleiðsla, sem nýbýlamenn munu einkum stunda. Innanlandsmarkaðurinn er meira en yfirfullur af þessari voru, einkum meðan verðlagið og framleiðslukostnaðurinn er jafnhátt og nú er, en horfur á getu til niðurfærslu engar. Af þessu leiðir, að nýbýlamenn verða að keppa við bændur þá, sem nú eru, um hinn allt of takmarkaða innlenda markað. Í öðru lagi mun framleiðsla nýbýlamanna verða þeim mun ódýrari en bændanna, vegna hinna stórfelldu styrkja, sem nýbýlamenn njóta frá ríkissjóði umfram bændur, en af því leiðir, að þeir standa mun betur að vigi með sölu á hinum yfirfyllta markaði. Í þriðja lagi hlýtur nýbýlastofnun á þeim grundvelli, sem lagður er með frv., óhjákvæmilega að verðfella þau býli, sem nú eru fyrir, því að flestir munu kjósa að stofna nýbýli fremur en kaupa eða taka til ábúðar þær jarðir, sem nú eru í byggingu. Þegar á þetta er litið, tel ég, að ekki sé rétt að stofna til nýbýla í stórum stíl með því fyrirkomulagi, sem ráð er gert fyrir, þó með því verði skipulagðir afkomumöguleikar fyrir nokkrar fjölskyldur á ári. Eins og nú er, er fyllsta þörf fyrir miklu fleira fólk til vinnu í sveitum landsins. Bændurnir verða að vinna nálega sem ófrjálsir menn vegna þess, að þeir fá ekki fólk til að vinna fyrir það kaup, sem framleiðsla þeirra getur goldið. Af þessum ástæðum er margt vanrækt á sveitaheimilum, sem gæti gefið búunum arð, svo sem garðræktin. Tel ég skynsamlegra að veita styrk til kaupbætis fólki, sem vinna vill að sveitastörfum, og hjálpa með því bændum til sjálfsbjargar og létta undir með atvinnulausu fólki og þar með draga úr þörfinni fyrir atvinnubótastyrk. Stjórnarflokkarnir eru að reyna að bera á móti því, að hátollar og háskattar hnekki atvinnuvegunum og skapi þar með atvinnuleysi. Þetta er þeim um megn. Öllum er ljóst, að það fé, sem gengur til starfrækslu ríkisbúskaparins og ekki er notað til arðberandi framkvæmda, eyðist og kemur ekki að notum öðrum en þeim, sem taka laun úr ríkissjóði. Þetta fé hverfur úr umferðinni jafnskjótt og því er eytt. Hinsvegar er allt það fé, sem landsfólkið sparar, ýmist lagt beint í atvinnufyrirtæki eða þá lagt í peningastofnanirnar sem lánsfé, eða þá keypt fyrir það fasteignalánafé, og á þann hátt kemur það atvinnuvegunum til góða; t. d. kaup veðlánabréfa veitir fé til húsabygginga, jarðræktar eða annara starfa þjóðfélagsborgaranna. Spariféð lána bankarnir beint til atvinnuveganna. Til þess að atvinnuvegirnir hafi nóg veltufé, er fjársöfnun einstaklinganna nauðsynleg og eftir því sem ríkisvaldið er vægara í fjárkröfum til borgaranna, safnast meira fé. Þegar tollar og skattar eru lágir, eykst sparnaðarlöngun fólksins, því að þá sér það, að til einhvers er að vinna, en þegar tollar og skattar eru orðnir eins háir og hér hjá oss, þá þverr áhugi manna til sparnaðar. Það er líka margsannað, að opinber eyðslusemi leiðir af sér eyðslusemi hjá almenningi. Hver hefir verið krafa þjóðarinnar á undanförnum árum? Hún hefir verið og er sú, að fyllsta sparnaðar sé gætt í ríkisbúskipnum. Það mun langsamlega almennusta skoðunin, að fjárhagsleg viðreisn þjóðarinnar lánist því aðeins, að hins fyllsta sparnaðar sé gætt í fjárreiðum hins opinbera. Það er og upplýst, að fjvn. þingsins hefir verið að vinna að niðurfærslu útgjaldanna; hún virðist á sömu skoðun og allur almenningur um nauðsyn sparnaðar. Ríkisstj. ein og aðalstoðir hennar á þingi eru á annari skoðun. Hún heimtar stóraukna tolla og skatta, ekki til að safna í kornhlöður, enda er ekki slíkt árferði hjá atvinnuvegunum, að það sé forsvaranlegt eða fært. Hvað veldur? Þeir, sem bezt til þekkja segja, að mikið ósamkomulag hafi verið milli þeirra flokka, sem standa að ríkisstj., og til þess að brúa það ósamkomulag hafi orðið að grípa til þess að leggja milljóna bagga á þjóðina. Þessi stj., sem búin er að fá 3 millj. í auknum sköttum, tollum og öðrum tekjum hjá þinginu á einu ári, og á auk þess að fá milljón kr. niðurfærslu á útgjöldum ríkisins innan fárra vikna, hún heimtar nú 1 millj. í viðbót til þess að brúa með ósamkomulag stjórnarflokkanna. Hvílík óskammfeilni.

Einasta verðmæti, sem þjóðin hefir til að greiða með innfluttar vörur og afborganir og vexti af erlendum lánum, eru útflutningsvörurnar.

Það er því rétt að bera saman verðmæti útfl. vöru við hin beinu útgjöld ríkisins, eins og þetta hefir verið undanfarin ár. Það eru takmörk fyrir því. hversu miklum hluta útflutts verðmætis má verja til ríkisþarfa. Ef farið er of langt í því, verða ríkisútgjöldin of þungur baggi á framleiðslu landsmanna.

Rétt er að athuga, hver hlutföll hafa verið milli ríkisútgjalda og útflutnings síðustu tólf ár. Í ríkisútgjöldunum eru hér ekki teknar með afborganir lána. Þessi hlutfull líta þannig út:

Árið 1924 ............................ ca. 10%

— 1925 ............................... – 12 —

1926 ................................... – 21 —

1927 ................................... — 19 —

1928 ................................... — 16—

1929 ................................... — 21—

1930 ……………………….. – 36 —

1931 .................................. – 35 —

1932 .................................. – 25 —

1933 ................................... – 26 —

1934 .............................…. — 30 —

1935 áætlað ..................... — 32—

Það má telja alveg víst, að til þess að atvinnuvegunum sé ekki ofþyngt með útgjöldum til ríkisþarfa, þá megi þessi gjöld ekki fara yfir 20%.

Ég veit, að öllum er ljóst, að tollhækkanir valda vöruhækkun og þar með aukinni dýrtíð. Ég hygg, að verzlanir verði ekki skaðlausar af innheimtu tolla, vaxtatapi og vangreiðslum tollskyldra vara, ef þær leggja minna á tollinn en sem nemur 50% af tollfjárhæðinni. Tollvörur eru oft lánaðar og lánin greiðast oft illa; þess vegna hygg ég, að álagningin þurfi að vera svo há sem ég hefi nefnt, og er þá sjáanlegt, að tollhækkunin veldur verulegri verðhækkun.

Framsóknarmenn hafa viljað kenna sjálfstæðismönnum í Reykjavík um dýrtíðina hér í bænum og vilja telja mönnum trú um, að vegna dýrtíðarinnar í þessum bæ verði verkalaun að vera há og önnur héruð landsins verði svo að fylgja að mestu kaupgjaldinu hér, og þess vegna séu erfiðleikar framleiðenda meiri en vera þyrfti. Þessir menn vita, að ásökun á hendur sjálfstæðismönnum í Rvík er alröng, en hitt er aftur á móti augljóst öllum, að með skatta- og tollahækkun þeirri, sem þeir ætla nú að samþ. og áður hafa í samvinnu við jafnaðarmenn fengið lögfesta, bæði 1928 og á tveim síðustu þingum, eru þeir að auka dýrtíðina í Reykjavík og annarsstaðar, og jafnframt að torvelda eða gera ómögulega skattheimtu bæjanna til eigin þarfa. Þeir eru því í félagi við jafnaðarmenn, nú og áður, að vinna þau óþurftarverk, sem þeir, með röngu, hafa kennt sjálfstæðismönnum um.

Allir vita, að erfiðleikar bæjarfélaganna til tekjuöflunar eru slíkir, að ekki er fyrirsjáanlegt, hvernig þau komast fram úr erfiðleikunum. Til þess að sýna fram á, hversu útsvörin eru orðin há og taka mikinn hluta aflatekna manna í bænum, skal aðeins tekið eitt dæmi, sem sýnir glöggt, að hér eru meir en litlir erfiðleikar á ferðum.

Árið 1933 var tekju- og eignarskattur til ríkissjóðs frá bæjarfélögunum, en þau eru þessi: Reykjavík, Ísafjörður, Siglufjörður, Akureyri, Seyðisfjörður, Neskaupstaður, Vestmannaeyjar og Hafnarfjörður: um 1 milljón 260 þús. kr.

Á sama tíma voru útsvörin hjá þessum sömu bæjarfélögum: um 3 millj. 650 þús. kr. eða um 290% hærri en tekju- og eignarskatturinn.

Í þremur þeirra, Ísaf., Seyðisf. og Neskaupstað, voru útsvörin um 8—900% hærri en tekju- og eignarskatturinn til ríkisjóðs.

Nú kemur öllum saman um, að hækkun tekjuskattsins komi harðast niður á bæjarfélögunum og torveldi þeim alveg sérstaklega að afla tekna með útsvörum. Sjá þá allir, að slík hækkun sem farið er fram á með frumv. þessu mun auka stórkostlega á vandræði bæjarfélaganna.

Ég vil enganveginn neita því, að ástæður geti verið til að leggja á hátekjuskatt eitt og eitt ár í bili, en eina ástæðan, sem getur heimilað slíkt er, að féð, sem inn kemur með slíkum skatti, sé notað til þess að leysa varanleg vandræði ríkissjóðs, svo sem til þess að borga af skuldum meira en gert er í venjulegum árum. Jafnframt verður að velja sæmilegt árferði til slíkrar aukaskattheimtu.

Flutningsmenn segja í greinargerð fyrir frumv., að tekjur þær, sem það færir ríkissjóði, eigi að nota í sérstökum tilgangi, þar á meðal þessa: Til skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda 160 þús., mjólkurbúa 55 þús., greiðslu vaxta af fasteignalánum bænda 15 þús., greiðslu vegna ofviðristjóna á Norðurlandi 60 þús., til iðnlánasjóðs 23 þús., frystihúsa 20 þús. og fóðurtrygginga 20 þús. krónur. Þetta er og í beinu sambandi við 1. gr. frumv. (skrumauglýsinguna).

Í þær var útbýtt í þinginu brtt. fjvn. við fjárlfrv. stj. fyrir árið 1936, og kemur þá í ljós, að nefndin hefir tekið allar þessar fjárhæðir í tillögur sínar. Hér er því um að ræða alveg einstæða og í mesta máta óskammfeilna blekkingartilraun frá hendi flm. frumv. Ef fjvn. hefði skilað fjárlfrv. með tekjuhalla, þá hefðu flm. haft tylliástæðu fyrir þessari staðhæfingu, en nú, þegar nefndin skilar fjárlfrumv. með um 130 þús. kr. tekjuafgangi, þá er ekki einu sinni tylliástæða fyrir þessari einstæðu blekkingartilraun.

Ég er viss um, að enginn þingnefnd hvað þá ríkisstjórn, í neinu hjáleigulandi, hvað þá ríki, sem hefði fjárhagslegt sjálfsforræði, annarsstaðar en hér á Íslandi, hefði gert sig seka um slíka pretti gagnvart löggjafarþingi. Með þessu er fallinn sá grundvöllur, sem flm. hafa byggt á tekjuaukaþörf frumv. að mestu leyti.

Ein af tilraunum frumvarpsflytjenda til þess að dylja, hversu þungbær tollahækkun frumv. er öllum almenningi í landinu og hversu dýrtíðin eykst við tollhækkunina, er sú, að þeir segja, að tollarnir verði þrátt fyrir hækkunina ekki meiri að hundraðshluta af tekjum ríkissjóðs en þeir hafi verið á undanförnum árum. Ég veit ekki, hvað þeir meina með þessu annað en það að fá fólk til að trúa því, að dýrtíðin aukizt ekki við tollhækkunina, eða að vöruverðið hækki ekkert við tollahækkanir.

Þetta er röksemd, sem engan getur blekkt. Allir vita, að verzlanirnar verða að leggja tollinn á vöruna og vexti af tollfjárhæðum og verzlunarkostnað, ekki einasta tollinn, heldur einnig um 50% álag á tollinn, til þess að vera skaðlaus af innheimtu hans og áhættu við að lána tollvöruna til viðskiptamanna.

Er þá rétt að athuga, hvað aðflutningstollarnir hafa numið miklu hundruðsgjaldi af innfluttum vörum síðan 1923, en þá var samþ. talsverð tollahækkun, sem á mestu árum, 1924—1927, var varið til þess að afborga ríkisskuldirnar og til þess að safna í sjóð til verri áranna, 1924 var því lofað af þeim flokkum, sem stóðu að tollahækkuninni, að tollarnir skyldu lækkaðir aftur þegar búið væri að koma fjárhag ríkissjóðs á réttan kjöl, en að tollhækkuninni 1924 stóðu núv. sjálfstæðismenn með aðstoð Framsfl.

Þegar kom fram á árið 1927 lækkuðu sjálfstæðismenn, sem þá fóru með völdin, tollana sem nam um 800 þús. kr. á ári, enda hafði verið bættur svo fjárhagur ríkissjóðs, að afborganir skulda og sjóðsöfnun nam um 9 millj. króna. Tollar á aðfluttum vörum höfðu fyrir 1924 numið um 6% af verðmæti innfl. vöru, en eftir tollahækkunina, sem að nokkru leyti kom á vörurnar 1924, væri hundraðshluti innflutningstollanna, þ. e. vörutolls, verðtolls, tóbakstolls, áfengistolls, kaffi- og sykurtolls, og annað aðflutningsgjald svo sem hér segir:

Árið 1924 .......................... um 7 %

— 1925 .......................... — 11 —

— 1926 .......................... — 10 —

— 1927 ............... .......... — 10,5-

— 1928 .......................... – 10 —

— 1929 .......................... — 11 —

— 1930 .......................... — 11 —

— 1931 .......................... — 13 —

— 1932 .......................... — I0 —

— 1933 .......................... — 13,5-

— 1934 .......................... — 19 —

Með þeim tollahækkunum, sem gert er ráð fyrir í frumv., er það sýnilegt, að á árinu 1936 verður þessi hundraðshluti milli 21 og 23%.

Bæti maður við tollinn álagningu verzlana, eins og að framan greinir, virðist auðsætt, að landsmenn verði að borga til jafnaðar 30 til 35% af andvirði allrar innfluttrar voru árið 1936 í toll og verzlunarkostnað af tolli. Ég býst við, að einhverjum komi til hugar að spyrja: Loftarðu þessu, Pétur? Loftar þjóðin þessum böggum?

Er ekki afkomu bæjarfélaganna og hreppsfélaganna stefnt í voða með svo freklegri skattheimtu, tolla og skatta til ríkissjóðs? Er mögulegt, að atvinnuvegirnir, sem beint og óbeint eiga að inna þessi gjöld af hendi til ríkisþarfa, og að auki við líka byrðar til bæjar- og sveitarfélaga, geti staðið undir þeim klyfjum?