09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Thor Thors:

Mér þykir ekki ólíklegt, að hæstv. fjmrh. verði, hvort sem valdaferill hans verður lengri eða skemmri, lengi minnzt með þjóðinni. Það er löngu orðið ljóst, þrátt fyrir það, að hæstv. fjmrh. er yngstur maður, sem með slík völd hefir farið hér á landi, þá er hann stórtækastur allra, sem með fjármálin hafa farið, að því leyti, að hann er óskammfeilnastur að seilast eftir nýjum tollum og sköttum í vasa almennings.

Á því 11/2 ári, sem hann hefir farið með fjármál landsins, á ábyrgð Framsfl. og sósíalista, hefir hann hækkað álögur skattborgaranna um 3 millj. og 200 þús. kr. Það er býsna vel að verið á einu og hálfu ári.

Á fyrsta þinginu, sem þeir voru við völd. haustþinginu 1934, fannst þessum flokki hlýða að leggja nýjar álögur á þjóðina, allt að 2 millj. kr. Þá var tekjuskattur stórkostlega hækkaður, áætlað að hann gæti gefið 900 þús. kr. meira en áður. Þá voru aukatekjur ríkisins nokkuð hækkaðar, skellt var á nýju stimpilgjaldi, sem áætlað var 150 þús. kr. Tollur á tóbaki var stórlega hækkaður og ennfremur var verðtollur hækkaður. Allar þessar álögur áttu að gefa ríkissjóði samtals um 2 millj. kr. Nú hlýtur hæstv. ráðh. að vita, svo oft hefir honum verið bent á það á þessum árum, að þjóðin getur ekki risið undir þessum gjöldum. Þó virðast þessar bendingar hafa farið framhjá hæstv. ráðh., því að hann hefir ekki tekið afleiðingum af þeim, heldur hefir hann stigið nýtt spor í sömu átt og áður. Nú eru það hvorki meira né minna en 1 millj. og 200 þús. kr. í nýjum álögum, eða samtals á þessu 11/2 ári 3 millj. og 200 þús. kr.

Það er athyglisvert, ef tekið er til samanburðar, að á fyrstu fjárlögum hins fullvalda íslenzka ríkis, 1918 og 1914, námu tekjurnar 2 millj. og 490 þús. kr. og útgjöldin 2 millj. og 400 þús. kr., þ. e. a. s. miklu minni upphæð en hinar nýju skattaaukningar þessa unga fjmrh. á 11/2 ári. (GG: Voru þetta hin endanlegu útgjöld?). Það er rétt, að gjöldin reyndust nokkuð hærri, en fjáraukalögin nema þá ekki nema um einni millj., eða útgjöldin urðu samtals 3600000, það er örlítið hærra en hin nýju Skattaukalög ríkisstj.

Þegar athugaðar eru ástæður ríkisins, þá er vafasamt, hvort fjárhagur þjóðarinnar hefir batnað síðan 1918 og hvort gjaldgetan er meiri en þá. En þá hljóta allir að sjá, hvað viðsjárverða og hættulega stefnu hér er um að ræða, og ég álít að reynslan muni skera úr þessum deilumálum, og þjóðin muni lengi gjalda afhroð af slíkri fjármálastjórn sem þessari.

Sú skattaaukning, sem ég gat um og samtals nemur á þessum fjárl. 1200000 kr., er að lang verulegustu leyti tekin með tollum. Tekju- og eignarskattur hefir þó verið verulega hækkaður, og er þessi hækkun á tekjuskattinum áætluð samtals 380 þús. kr.

Þá er einnig eftirtektarvert, ef maður ber saman fyrstu fjárlög hins íslenzka ríkis og fjárl. nú, að 1918 og 1919 gaf tekju- og eignarskattur 50 þús. En á síðasta fjárlagafrv. er þessi skattstöfn hækkaður um 950 þús., og nú á ný um allt að 400 þús. Þessar tölur tala nokkuð greinilega sínu máli. Það er svo komið, að tekju- og eignarskattur er hærri hér en nokkursstaðar annarsstaðar, og hærri en þar, sem sósíalistar hafa meiri ráð, ef miðað er við styrkleika flokkanna innan þingsins hér.

Það er látið svo í veðri vaka af stjórnarflokkunum, að þessi nýi skattur geri þjóðinni ekkert, hann komi bara niður á hinum breiðu bökum peningamannanna. En það sýnir sig, ef skattstiginn er athugaður, að hækkunin gerir strax vart við sig við 2 þús. kr. tekjur, en segir verulega til sín eftir að tekjurnar eru komnar upp í 6 þús. En það þekkja allir, að 6 þús. kr. skattskyldar tekjur eru engin ósköp til að lifa af fyrir fjölskyldu, t. d. hér í Reykjavík. Ég geri ráð fyrir, að a. m. k. ráðherrarnir, með 10 þús. kr. tekjur, hafi ekki fundið mjög mikinn afgang, ef þeir eiga að lifa eins og staðan útheimtir.

Þetta er vitanlega gott vígorð, að þeir ríku eigi að borga, en það stenzt ekki til lengdar, því að stórkostleg hækkun á skatti hlýtur að hafa í för með sér lækkandi tekjur. — Öllu þarf að vera í hóf stillt, og ef ríkisvaldið ætlar að hremma allt í ríkissjóð, þá hætta menn að keppast við tekjuöflun. Þegar þessi skattur hefir staðið í eitt ár, þá lækkar skattstofninn fyrir ríkissjóð eða rýrnar. Það er einkennilegt, að stjórnarflokkarnir skuli leyfa sér að leggja á nýja skatta eða bera slíkt frv. fram, eftir að bert er orðið, og meira að segja viðurkennt í ummælum sósíalista sjálfra hér á þingi, að sveitar- og bæjarfélögum verður ekki séður farborði nema með nýjum sköttum. Svo koma þeir hér, þessir menn, með ný viðskiptagjöld, þegar viðurkennt er, að sveitar- og bæjarfélögin fá ekki undir risið, og hafa engir fært fyrir því fyllri né gleggri rök en einstaka þm. sósíalista. Hv. 6. landsk. hefir sýnt með glöggum dæmum og rökum, hve brýn nauðsyn er til, að sveitar- og bæjarfélög fái nýja tekjustofna. Það er komið að því, sem við Sjálfstæðismenn spáðum og höfum hverju sinni varað við og bent á, þegar ríkisvaldið hefir verið með skattahækkunum að seilast æ lengra ofan í vasa borgaranna. Nú hefir það verið viðurkennt, að þessar spár okkar hafa verið réttmætar og eru að koma fram, og það er svo einkennilegt, að einmitt einstaka sósíalistar hafa undirstrikað réttmæti þeirra fyllilega.

En svo ég víki almennt að tekju- og eignarskatti eða beinum álögum, þá er það bersýnilegt, að mjög er varhugavert í þjóðfélagi, þar sem auðsöfnun er svo skammt á veg komin og hjá okkur, að teygja sig svo langt að draga alveg úr allri löngun manna til að spara, en það er almennt vitað og viðurkennt, að þungar beinar álögur verka þannig. Þetta er öðrum þjóðum fyrir löngu orðið ljóst, og þær reyna að haga álögum sínum þannig, að alltaf sé lifandi hvöt manna til að spara.

Andstæðingar okkar sjálfstæðismanna reyna alltaf að gera gys að okkur, þegar við erum að tala um sparnaðarþörf einstaklinga og ríkis. En ég bendi þeim á ummæli þess erlenda hagfræðings, sem stjórnarliðar — af því þeir treystu engum innlendum hagfræðingi — þurftu að sækja til Svíþjóðar til þess að kenna skipulagsnefnd atvinnumála sjálfri skipulagningarfræðin. Þessi serfræðingur hefir nýlega látið hafa eftir sér viðtal, sem birtist í Nýja dagbl., blaði hæstv. fjmrh. Er býsna eftirtektarvert, hvað hann leggur áherzlu á, að Íslandi beri að gera. Hann segir svo — með leyfi hæstv. forseta. — Fréttaritari blaðsins spyr:

„Hvað getum við þá gert annað til þess að auka innlendu framleiðsluna?“ Og sérfræðingur stj. svarar: „— versti örðugleikinn hér er féleysið, ef framleiðslan á að aukast fljótt. Íslendingar spara allt of lítið.“

Þetta er nú svo sem enginn sérstakur vísdómur, sem hagfræðingurinn segir. Það hefir margsinnis verið á þetta bent af okkur sjálfstæðismönnum; við höfum ætíð haldið því fram, að bein þjóðarnauðsyn bæri til að hvetja einstaklinginn til að spara, koma á auðsöfnun, og að við eigum að auka framleiðsluna. Þá háir féleysið okkur mest, segir sænski sérfræðingurinn.

Það hefir varla verið hleypt svo fyrirtæki af stokkunum, að ekki hafi verið leitað erlendra lána, og það sjá allir, hve þetta er háskaleg braut, sérstaklega gagnvart sjálfstæði landsins, því hvað hátt sem um það er galað, næst það aldrei í raunveruleikanum, nema við séum efnalega sjálfstæð þjóð. Það helzta, sem dugir, er að glæða hvötina til að spara, auka auðsöfnun í landinu, keppa að því, að öll fyrirtæki og stofnanir séu rekin fyrir innlent sparifé. Ég skal eftirláta hæstv. fjmrh. og öðrum stjórnarsinnum að geta sér til, hvort þessi áníðslustefna sé líkleg til að auka sparnaðinn, þann Sparnað,sem er nauðsynlegur til þess að auðsöfnun geti myndazt í þjóðfélaginu.

Það er eftirtektarvert, að þegar fer að rofa til í fjármálum Englendinga — undir ráðuneyti Chamberlain fjmrh. í þjóðstjórninni þá er þeirra fyrsta verk að grípa til þess að lækka tekju- og eignarskattinn, og orð fjmrh. féllu á þá lund, að þessir skattar væru óréttlátastir allra skatta og brýn nauðsyn væri að stilla þeim í höf. Jafnframt hefir enska þjóðstjórnin lagt áherzlu á að fá menn til að spara. Nú hefir líka farið svo, fyrir ötula baráttu þjóðstjórnarinnar, þó að stjórnarferill hennar sé ekki langur, að atvinnuleysingjum hefir fækkað um 864 þús., en fjölgað hefir mönnum í atvinnu um 1,4 millj. Síðan hefir þessi framkvæmd þjóðstjórnarinnar verið borin undir dóm ensku þjóðarinnar, sem hefir sýnt, að hún kann að meta gætilega fjármálastjórn. Úrslitin urðu þau, sem kunnugt er, að stjórnin fékk 250 þm. meiri hluta í neðri málstofunni.

Ef til vill má segja, að beinar álögur kæmu þjóðinni ekki á óvart frá hendi þeirra manna, sem fara með völdin. Þeir hafa haldið því fram í lýðskrumi sínu, af því það hefir þótt vænlegt til kjörfylgis, að það ætti að skatta hátekjumenn. En aðalþátturinn í þessari tekjuöflun er nú auknir tollar, og það hefir vissulega komið mörgum á óvart.

Sósíalistar hafa meðan þeir voru í minni hluta gasprað um það, að tollar væru ranglátir og þeir vildu leggja þá niður. Þetta atriði var letrað skýrum stofum í 4 ára áætluninni, og um kosningar, er þeir hafa verið að deila við andstæðinga sína, hafa þeir látið það hljóma hátt og snjallt, að þeir væru andvígir tollum og vildu afnema þá, en afla tekna með beinum sköttum. Þetta var einnig aðalatriðið í samningi stjórnarflokkanna, en framkvæmdin er nú þessi. En vissulega má þjóðinni ekkert koma á óvart frá þessum mönnum.

Það má minnast þess, þegar sósíalistar hafa hér á þingi barizt gegn tollaálögum, þá hafa þeir notað hin sterkustu orð. Ég man eftir því, að einu sinni heimtuðu þeir útvarpsumr. um, hvort framlengja atti verðtollinn. Aðalræðuskörungur þeirra sósíalista, núv. hæstv. atvmrh., átti þá ekki nógu sterk orð til að lýsa því, hversu þetta væri ranglátur tollur. En svo snýst þetta rækilega við, þegar þeir eru sjálfir komnir að völdum, að það er ekki aðeins, að framlengt sé verðtollinum, heldur er hann hækkaður stórkostlega, og nú með þessu frv. lítur út fyrir, að auka eigi þessar álögur á þjóðinni um 800 þús. kr.

Það er dálítið gaman að rifja upp ýms ummæli sósíalistanna á þingi áður. Þannig segir forseti flokksins og núv. forseti SÞ., Jón Baldvinsson, á þinginu 1933 — bls. 1076 í umr. um verðtollinn. Með leyfi hæstv. forseta: „Þessi verðtollur verður ekki til annars en að auka dýrtíðina í landinu og viðhalda erfiðleikum þeirra stétta, er nota vöruna, sem þessi tollur er lagður á.“ Og enn segir hann: „Það verður til þess að gera ennþá erfiðara þeim, sem nú eiga erfiðast. Ég og flokksbræður mínir greiða atkv. á móti frv. af principástæðum.“ Og á bls. 7094: „Þetta frv. gengur á móti þeirri stefnu, sem við viljum hafa um öflun tekna. — Það er svo mikið af nauðsynjavörum í frv., að við erum andvígir stefnu þess.“

Núv. hæstv. atvmrh. segir á sama þingi, bls. 1103: „Við Alþýðuflokksmenn munum greiða atkv. á móti frv. nú sem fyrr, og get ég látið mér nægja að vísa til þess, sem áður hefir fram komið í málinu um okkar afstöðu.“ Og enn verð ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp kafla úr umr. frá 1932, sem er í B-deild Alþt., bls. 836. Ég sé nú, að hv. þm. sósíalista eru að flýja burt úr deildinni, en ekki er ólíklegt, að hægt sé að rifja upp enn fleira úr ummælum þeirra. T. d. sagði núv. atvmrh.: — „Við Alþýðuflokksmenn erum andvígir þessu frv. og rök okkar gegn því marg kunn. Ég vil í þessu sambandi rifja upp fyrir deildinni, um hve háan toll er hér að ræða. Árið 1930 nam hann 2338 þús. kr., og þetta hvílir á vörum, sem tollaðar eru fyrir með vörutolli, sem gaf þetta sama ár 1950 þús. kr. Þessir tollar hafa því gefið h. u. b. 4 millj. og 300 þús kr., sem svarar til, auk álagningar á tollinn, 220 kr. á hvert 5 manna heimili. Eftir rannsókn skattanefndar hvílir ekki meira en 1/5 hluti tollanna á ónauðsynlegum vörum, en hitt á algengum fatnaði, búsáhöldum og þess háttar“.

Ég vil nú biðja menn að taka vel eftir, — „almennum fatnaði, búsáhöldum o. þ. h.“ Hér sjá menn, hvílíka andstyggð hæstv. ráðh. hafði á þessum tollum, og hann notaði hin sterkustu orð til að benda á þá hættu, sem af þeim stafaði. Nú er hann kominn í ríkisstj. og í valdaafstöðu. Nú nema þessir tollar um 6200 þús. kr., auk hagnaðs þess, sem ríkissjóður hefir af einkasölum. Nú á ekki að lækka tollana á fatnaði, búsáhöldum o. þ. h., sem hæstv. ráðh. talaði þá um, nú á að hækka þá um 800 þús. kr. Nú á að leggja 5% toll til viðbótar á búsáhöld og nú á að leggja 10% viðbótartoll á almennan fatnað, sem hæstv. ráðh. var að fárast um, þegar hann var í stjórnarandstöðu, að hækkaði verð á hverjum buxnahnapp.

Við sjálfstæðismenn höfum haldið því fram, að beinir skattar væru ekki einhlítir og að ýmsu leyti varhugaverðir vegna þeirrar þarfar, sem hér er fyrir auðsöfnun, sem er mjög skammt á veg komin. Og þess vegna væru tollar nauðsynleg tekjuöflun. Framsfl. hefir líka haldið þessu fram áður en hann komst í náin kynni við sósíalistana og samband við þá og tók upp þeirra vígorð. En afstaða okkar sjálfstæðismanna til þessarar nýju hækkunar er sú, að við teljum nóg komið af tollum, svo það sé bókstaflega ekki kleift að seilast lengra ofan í vasa fólksins. Við teljum einnig, og viljum benda á það nú, að þetta sé mjög varhugavert, þar sem nú er svo komið, að bersýnilegt er, að sinna verður kröfu sveitar- og bæjarfélaganna, og þá sennilega einna helzt veita þeim fjárhagsstuðning með vörugjöldum o. þ. h. verður viðskiptagjaldið því enn tilfinnanlegra fyrir allan almenning.

Ég hefi nokkuð bent á, hversu óhyggilegt er að ganga jafnlangt á skattabrautinni og hér er gengið. Út af ummælum blaða ríkisstj., sem þora ekki að nefna þessa nýju tolla réttu nafni, heldur kalla þá „viðskiptagjald“, vil ég leyfa mér að lesa upp nokkrar vörutegundir, sem þau telja, að ekki séu nauðsynjavörur, heldur lúxusvörur.

Í 3. gr. 1. lið er ákveðið, að stimpla skuli reikninga fyrir allar vörur, sem ekki eru tilgreindar í 2., 3. og 4. tölul. eða undanþegnar gjaldi, með 2%, og eru það allmargar nauðsynjavörur. Með 5% gjaldinu ber að stimpla búsáhöld, eldhúsáhöld. bifreiðar, glervarning, hreinlætisvörur, kaffi og sykur, og ýmsar fl. vörutegundir, sem almenningur álítur nauðsynjavörur. Og með 10% á að stimpla þessar nauðsynjavörur m. a.: Buxur fátæklinganna, sem hæstv. atvmrh. talaði mest um meðan hann var stjórnarandstæðingur, garn og vefnaðarvörur, skófatnað og vörur til fatnaðar. Af þessari upptalningu er alveg augljóst, að hér er tekinn tollur af mestu nauðsynjavöru, sem allur almenningur þarf að nota.

Ég hygg, að margir hafi glæpzt til að ljá stjórnarflokkunum atkv. sitt við síðustu kosningar vegna þess m. a., að þeir lofuðu að létta af sköttum og tollum. Þeir menn, sem þannig hafa látið glepjast, sjá nú, hvernig efndirnar eru. Stjórnarflokkarnir hafa ekki vílað fyrir sér að reiða skattasvipuna á loft á bak við þjóðina, bara til þess að geta sjálfir enn um stund setið rólegir á valdastólunum. Þeir hafa í þennan hátt tekið sér frest, sem ég er sannfærður um, að verður aðeins gálgafrestur.

Óánægja fólksins er þegar risin, og hún fer dagvaxandi, því eins og þeir hafa sáð, svo munu þeir og uppskera. Óánægjuöldurnar verða sterkar, og þeim verður ekki eins auðsætt í ráðherrastólunum og hingað til hefir verið.

Það er hægt að blekkja í bili — jafnvel heila þjóð —, en til lengdar er það ekki hægt.

Ég vil láta þess getið, að hins unga fjmrh. verður lengi minnzt, en aðeins sem einsdæmis. Hans verður minnzt aðeins fyrir það, að á skattabrautinni hefir hann farið hraðar en nokkur annar fyrirrennari hans, því hann hefir farið með 10 mílna hraða, þar sem aðrir hafa farið fetið.

Ég vona, að hann haldi þessu meti. Ég vona, að það verði enginn, sem komist með tærnar þar, sem þessi ungi fjmrh. hefir hælana. Ég óska stjórnarflokkunum til hamingju með nýja samninginn, en ég veit, að hæstv. ráðh. finnur ekki alstaðar sama fögnuðinn og meðal þm. og nánustu aðstandenda ríkisstjórnarinnar.