09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er að vísu svo, að í þessum ræðum andstæðinganna, sem hér hafa nú talað, hefir örlítið komið fram, sem ekki hefir komið fram áður í Ed. eða þeim umr., sem hér fóru fram á eldhúsdaginn í útvarpinu. Þess vegna er það svo, að ég hefi þegar svarið þeim ávítum eða gagnrýni, sem hefir komið fram hjá þessum hv. þm. En af því þessi gagnrýni, hefir komið hér fram við l. umr. málsins í þessari d., þá tel ég skylt og rétt að koma hér fram með nokkrar aths.

Hv. þm. Snæf. lagði áherzlu á það, að ég væri stórtækastur og óskammfeilnastur af öllum þeim mönnum, sem hafa farið með fjármálastjórn á þessu landi, í því að seilast niður í vasa borgaranna. Ég ætla, að hv. þm. verði að færa rök að þessu. Hann segir, að ég hafi hækkað gjöld til ríkissjóðs um 2 millj. kr. í fyrra og vilji hækka þau um 1 millj. nú. En ef hann athugar betur, þá hlýtur hann að sjá, að þrátt fyrir hækkun á ýmsum tollum og sköttum, þú er nú ekki tekin í ríkissjóð samtals hærri upphæð en að undan fornu. Þess vegna er það ekki svo, eins og hv. þm. vill vera láta og hvað eftir annað hefir verið haldið fram, að með þessu væri meira fé tekið úr vösum manna en áður hefir verið gert, heldur er verið að miða gjöldin við annað en áður hefir verið miðað við. (GÞ: vegna þess að menn geta ekki borgað lengur). vegna þess að það, sem hefir verið miðað við áður, sem er mest vöruinnflutningur, hefir dregizt saman. Það skaut einhver því fram, sem hefir verið mikið haldið fram, að þetta væri gert af því, að menn gætu ekki borgað, gjaldstofnarnir hafi rýrnað vegna af mikillar álagningar. Þetta er blekking, og af þeirri ástæðu, að lækkunin hefir aðallega orðið vegna samdráttar á innflutningi til landsins, en samdrátturinn hefir stafað af erfiðleikum í utanríkisverzluninni, en ekki af því, að menn vegna tolla hafi ekki getað keypt þær vörur, sem inn eru fluttar.

Þá var hv. þm. Snæf. að tala um útgjöldin 1918, og mér skildist á honum, að það væri eðlilegt, að fjárlög og landsreikningur væru jafnhá nú og 1918. Ég fer ekki langt út í að benda á, hver fjarstæða þetta er. Þeir, sem eitthvað þekkja til fjárl., geta ekki látið sér detta í hug, að hægt sé að færa svo mikið niður á fjárlfrv., að það verði eins og 1918. Ég hygg, að hv. þm. Snæf. mundi reynast slíkt erfitt, því að hann sé að kasta slíku fram hér í d.

Þá fór hv. þm. að loknum þessum inngangi að ræða þær leiðir, sem hér á að fara. Það er nú eins með það og það, sem hann sagði um málið almennt, að því hefir verið svarað áður, en ég vil þó svara því örfáum orðum.

Hann minntist fyrst á tekjuskattinn, vitnaði þar líka til 1918 og sagði, að þá hefði hann verið 50 000, en nú væri hann áætlaður 1940000 kr. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo, að honum hafi þótt ástandið æskilegt eins og það var 1918, sem sé að það væri æskilegast, að tekjur af þessum skatti væru ekki meiri en 50000 kr. Ég verð að segja, að ég get ekki annað en glaðzt yfir þessari yfirlýsingu hv. þm., því að þeir hafa þó annað slagið haldið því fram, að þeir væru ekki á móti beinum sköttum, en nú skaut því upp hjá honum, sennilega óvart, að hann vilji afnema þá, eins og gert væri með því að færa tekju- og eignarskattinn niður í það, sem hann var 1918.

Þá var hann að tala um, hvað þessi hækkun kæmi þungt niður á þeim, sem hefðu lágar tekjur. Ég var búinn að gefa upplýsingar í Ed., en ég veit ekki, hvort hv. þm. hefir fylgzt með því. Þessi hækkun nemur nú hvorki meira né minna en því, að sá maður, sem hefir 4000 kr. skattskyldar tekjur, á að borga eina krónu, og svarar það því, að hann hafi 6000 kr. laun. Þessi hækkun, sem er í raun og veru engin hækkun, er til komin af því, að þegar felldur var saman eldri skattstiginn við þá viðbót, sem er eftir sérstökum l., og hátekjuskatturinn, þá var þessi hækkun gerð líka, af tekniskum ástæðum. Mér finnst þessi gagnrýni hv. þm., að gera sér tal út úr þessari einu krónu, satt að segja heldur lítils virði.

Þá skal ég víkja að því, sem hann minntist á, hvernig þessi skattur hittir þá menn, sem hafa þær tekjur, sem má telja nokkuð almennar meðal hátekjumanna í Reykjavík. Ætla ég svo hv. þdm. að dæma um það, hvort það sé með þessum skatti verið að íþyngja þeim, sem ætla má, að berjist í bökkum, eins og hv. þm. vill vera láta, Því að hann vildi láta skína í það, að þótt menn hefðu 9—10000 kr. tekjur, þá berðust menn í bökkum að komast af. Þetta er vitanlega rangt hjá honum, því að hver, sem hefir 3—10000 kr. laun og kemst ekki af með þau, hann hagar þá sínu lífi þannig, að til slíks er engin ástæða. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. ætlar þeim mönnum, sem hafa 2—3000 kr. laun, að lifa, ef hann heldur, að menn geti ekki lifað á 10000 kr. launum.

Ég skal nú taka nokkur dæmi til að sýna. hvernig skatturinn kemur niður hér í Rvík.

Sá maður, sem hefir 8000 kr., greiðir samtals í tekjuskatt samkv. þessum ákvæðum og útsvar samkv. gildandi útsvarsstiga hér í Reykjavík tæpar 600 kr., og er þar miðað við 5 manna fjölskyldu. Þetta byggist á því, að áður en skatturinn er lagður á manninn, fær hann frádrátt fyrir skatti og útsvari frá fyrra ári og persónufrádrátt 3000 kr. Ef maður hefir 12000 kr., þá verður hann að greiða í skatt og útsvar 1785 kr. M. ö. o., að maður, sem hefir slíkar tekjur, hefir afgangs rúmlega 10200 kr., eftir að hann hefir gert skil til ríkis og bæjar. (JakM: Þeir verða fyrir léttu útsvari). Útsvarið er reiknað eftir útsvarsstiganum hér í Reykjavík, og get ég lánað hv. þm. þetta ef hann vill. Sá maður, sem hefir 15000 kr. laun, greiðir 3000 kr. og hefir þá eftir 12000 kr. til eigin afnota. Sá, sem hefir 20000 kr. atvinnutekjur, borgar 5000 kr., og hefir þá eftir 15000 kr. til ráðstöfunar. Sá, sem hefir 25000 kr. laun, á að greiða 7200 kr., og hefir hann eftir 17800 kr. Þetta er nú allt það, sem mönnum er gert að greiða til bæjarins samkv. útsvarsstiganum í Reykjavík og hátekjuskattinum eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., og er miðað við, að frí laununum er fyrst dregið útsvar og tekjuskattur frá fyrra ári og svo persónufrádráttur. Þess vegna er það ekki annað en blekking, þegar verið er að taka út úr frv. lágmarksupphæð skattskyldra tekna, sem þar er ákveðin, og sagt, að 6000 kr. séu ekki meiri tekjur en svo, að þeir, sem hafi það í árslaun, geri ekki betur en að berjast í bökkum. Þessi umsögn getur nátturlega lítið vel út í augum þeirra manna, sem ekki gera sér grein fyrir og hafa ekki aðstöðu til að vita, hvað t. d. 6000 kr. skattskyldar tekjur samsvara háum nettótekjum eða árslaunum hjá skattgreiðanda.

Þá er því haldið fram af stjórnarandstæðingum, að með þessu frv. sé mjög gengið á hlut bæjar- og sveitarfélaga og tekjustofnar þeirra skertir. Ég skal ekki fara langt út í það atriði, en samkv. málamiðlun við Alþfl. var gengið inn á, að tekjuskatturinn skyldi skiptast að helmingi til bæjar og sveitarfélaga,þar sem skatturinn fellur.

Þá fer auðvitað mest til þeirra bæjar- og sveitarfélaga, sem hafa mestar skattakyldar tekjur, eða tekjuhæsta gjaldendur. — Þá sagði hv. þm. Snæf., að það mætti ekki skerða eða draga úr sparnaðarhvöt einstaklinga, með því að ganga of langt í skattaálögum gagnvart þeim, og get ég verið honum sammála um það. vitanlega er ekki sama, hversu langt er gengið í því efni. Hv. þm. kom inn á umsögn sænska hagfræðingsins, sem hér hefir dvalið um tíma á vegum skipulagsnefndarinnar í atvinnumálum, sem gaf bendingar um það, að einstaklingarnir þyrftu að spara. En hv. þm. dró ekki rétta ályktun af þeirri umsögn. Íslendingum hefir ekki verið hægt með of háum sköttum frá því að spara eða safna fé. En sparnaðarhneigð er tiltölulega lítil hjá Íslendingum; það er, því miður, inngróin lífsvenja hjá flestum að eyða jafnóðum því, sem þeir afla. Annars er svo stutt síðan almenningur hér á landi fór að hafa peninga undir höndum, að eigi verður með sunngirni um þetta dæmt; en það tekur alltaf nokkuð langan tíma fyrir flestum mönnum að læra þá list, að fara vel með peninga. Hv. þm. Snæf. sagði, að sjálfstæðismenn hefðu alltaf viljað sparnað í fjármálum. Það er að vísu rétt, að þeir hafa viljað spara á fjárl. ríkisins, sérstaklega framlög til verklegra framkvæmda. En ég hefi aldrei getað komið auga á, að sjálfstæðismenn væru nokkur fyrirmynd annara í því að spara tekjur sínar og leggja þær fyrir í sjóði, eða forðast eyðslu og óhóf í lifnaðarháttum. Þvert á móti. Í flokki þeirra og umhverfis þá hafa safnazt menn, sem hafa talið sér skylt að eyða öllu, sem þeir hafa aflað, og jafnvel meiru.

Þá kom hv. þm. Snæf. að því, hversu mikið brot það væri á stefnuskrám stjórnarflokkanna í skattamálum að leggja aðflutningsgjöld á vörur. Ég ætla nú ekki að svara fyrir jafnaðarmenn í þessu efni, en f. h. framsóknarmanna vil ég svara því, að þegar þeim var það ljóst, að ekki var hægt að ganga lengra í skattaálögum með beinum sköttum — þ. e. hækkun tekju- og eignarskatts —, þá höfðu þeir um tvær leiðir að velja, annaðhvort að afla ríkissjóði tekna með ríkisverzlun á einstökum vörutegundum, eða með aðflutningsgjöldum af vörum. Og þeim hefir þótt bezt henta að nota báðar leiðirnar þannig, að taka einkasölu á þeim vörum, sem teljast ekki til brýnna nauðsynja, en eru heppilegar til þess að gefa ríflegar tekjur í ríkissjóð, og leggja aðflutningstolla á aðrar vörur, misjafnlega háa, eftir því hvers eðlis þær eru. Ég mun við 2. umr. víkja nánar að því, hvernig þetta viðskiptagjald kemur niður á hinar einstöku vörutegundir.

Þá sögðust þessir hv. þm. Sjálfstfl., þm. Snæf. og þm. vestm., að þeir gætu ekki verið með þessu tekjuaukafrv., af því að það væri nú gengið of langt út n þá braut að afla ríkissjóða tekna. Og hv. þm. Snæf. bætti því við, að það hefði þegar verið gengið of langt í því efni á síðasta þingi. Hv. þm. Vestm. gerði ennfremur þá kröfu f. h. sinna kjósenda, að það yrði nú þegar létt af gjöldum og tollum. Og hygg ég, að hann hafi þar haft í huga afnám útflutningsgjalds af sjávarafurðum. Nú er rétt að athuga, hvaða afleiðingar yrðu af þessari stefnu hv. Sjálfstfl.þm., ef þessum kröfum þeirra yrði fullnægt. Nú vilja þeir áætla, að fjárl. nemi ca. 15 millj. króna. Þeir segjast vera algerlega mótfallnir tekjulögum er samþ. voru á síðasta þingi, og þessu frv., sem áætlað er, að gefi 3 millj. kr. í ríkissjóð, og auk þess vilja þeir lækkun á tollum og gjöldum; við skulum segja t. d., að tveir vilji afnema útflutningsgjald af sjávarafurðum, um það hafa þeir flutt frv. á þinginn. Samkv. þessari stefnu eða kröfum hv. sjálfstm., ef þeim væri framfylgt, mætti búast við, að ríkissjóður hefði úr að moða á næsta ári ca. 11300 þús. kr., í stað 15 millj. kr., sem stjórnarflokkarnir gera ráð fyrir. Hvað þýðir nú þetta, ef slík umskipti yrðu gerð? Og ef þessar yfirlýsingar þm. Sjálfstfl. eiga að gilda, þá verður fyrst og fremst að færa niður útgjöldin í fjárlfrv. um 4 millj. kr., því að með öðru móti er ekki hægt að komast hjá því að bæta við einhverri tollahækkun.

Það er ákaflega auðvelt fyrir hv. stjórnarandstæðinga að segja: Við erum á móti öllum skattahækkunum, við erum á móti þessu og þessu, — en það er bara ekki nóg fyrir þá að segja þetta. Þeir verða líka að sýna fram á, hvað á að gera. Ef tekjuhlið fjárl. yrði nú færð niður um 4 millj. kr., þá hljóta vitanlega allar verklegar framkvæmdir að falla niður. Það er einmitt þetta, sem hér er verið, með þessu frv., að taka afstöðu um: Hvort það eigi heldur að lækka skatta og tolla, og fella þar af leiðandi niður verklegar framkvæmdir, eða hinsvegar að halda núv. tekjustofnum og auka heldur við þá, fyrir rýrnun, og reyna svo að halda uppi verklegum framkvæmdum og atvinnu í landinu, eins og stjórnarflokkarnir leggja til. Ég er ekki í vafa um það, að flestir muni í hjarta sínu fallast á að stefna stj. sé rétt. Og ég er viss um, að það rætast ekki spár þessara hv. þm. um, að almenningur áliti hið gagnstæða, ef málin eru lögð rétt fyrir og skýrð óhlutdrægt. En ef einn og einn maður yrði hinsvegar spurður að því, hvort hann vildi greiða einn og annan toll eða skatt, þá mundi hann eðlilega svara því neitandi. væri spurningin lögð fyrir á réttan hátt, þannig að kjósandinn ætti um það tvennt að velja, að verklegar framkvæmdir yrðu lagðar niður, svo fremi að hann eigi greiddi skatta til ríkissjóðs, þá er ég viss um, að hann mundi játa gjöldunum. — Ég efast ekki um, að við næstu kosningar muni hv. þm. Snæf. og félagar hans belgja sig út og tala um skattarán ríkisstj. o. s. frv.; en ég verð hinsvegar að lýsa því yfir, að ég hræðist ekki slíkt slagorð og hika ekki við að mæta á kosningafundunum. Ég vil bæta því við, að ef sjálfstm. hefðu kiknað á því að fella niður tekjuaukalögin frá 1934, eftir öll þau stóryrði, sem þeir höfðu þá um þau á þinginu, þá hefði ég ekki ofundað þá á kjósendafundum á eftir. En vitanlega mundu þeir ekki hafa lækkað skattana; þeir hefðu að vísu ekki innheimt þá af tekjum og eignum gjaldenda, né með einkasölum, heldur eingöngu með tollum. (TT: Hver er meginstofn þessa frv.?). Meginstofn þessa frv. er viðskiptagjaldið. En meginstofn tekjuaukalaganna á síðasta þingi voru beinu skattarnir, eða hækkun á tekju- og eignarskattinum.

Ég held, að ég þurfi þá ekki fleiru að svara hv. þm. Snæf. — En hv. þm. Vestm. sagði, að fjvn. hefði verið kölluð saman áður en þing var sett í haust, til þess að reyna að koma fram sparnaði á fjárl. næsta árs. Það er alveg rétt. Enda hefir árangurinn af því starfi hennar verið lagður fyrir þingið. Og hann er sá, að það hefir tekizt að spara ca. 1 millj. kr. á núv. gjaldaliðum ríkissjóðs. Hér hefir verið farinn meðalvegur, bæði sparað á gjöldum og tekjuliðir auknir. Það skorti 2 millj. kr. til þess að afgr. fjárl. fyrir næsta ár þannig, að vel væri við þau unandi. Önnur millj. fékkst með sparnaði á gjaldaliðum fjárl. og niðurfærslu á frv., en hin millj. á að fást samkv. þessu tekjuöflunarfrv.

Þá spurði hv. þm. Vestm., hvernig á því stæði, að þetta frv. væri kallað bráðabirgðatekjuöflunarfrv. og taldi, að mér væri skylt að gera grein fyrir því. Ég get sagt þessum hv. þm., að það eru ýmsar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi má vænta þess, að í venjulegu árferði geti hinir föstu tekjustofnanir ríkissjóðs staðið undir þeim gjöldum, sem nú verða á fjárl., þó að ég búist ekki við, að það megi vænta þess á næsta ári, og þess vegna verður að sjá ríkissjóði fyrir bráðabirgðatekjum, á meðan svo stendur. Í öðru lagi þykir rétt, að þessi lög komi af sjálfu sér til meðferðar á næsta þingi, þó að þess sé varla að vænta, að viðhorfið um tekjuöflun ríkissjóðs verði þá breytt til muna frá því, sem nú er. En á þinginu í vetur verður hægt að taka afstöðu til þess, hvort þessi bráðabirgðatekjuöflun á að standa áfram í gildi, og ég get búizt við, að það fari svo, a. m. k. að einhverju leyti.

Þá þótti hv. þm. Vestm. það allhart, að um leið og fjárframlög til ríkissjóðs væru aukin svo stórlega, þá skyldi vera dregið úr fjárframlögum ríkisins til síns kjördæmis. Hann var eitthvað að tala um það í ræðu sinni síðastl. laugardag, að hann hefði þá nýlega átt fund við ríkisstj., og að stj. hefði tekið vel málaleitunum hans fyrir kjördæmið. Ég skil ekki, hvers vegna þessi hv. þm. fer svo að blása sig hér upp í þd. á mánudag og brigzla stj. um, að nú vilji hún ekkert gera fyrir sitt kjördæmi. Mér er ekki kunnugt um, að að hafi neitt farið á milli stj. og hv. Þm. í þessum efnum síðan á laugardag.