13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (2833)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Magnús Torfason:

Eins og mönnum er kunnugt, þá hefi ég fylgt þeim umbótum, sem þessu frv. er ætlað að útvega fé til að framkvæma. Ég hefi getað fylgt þeim umbótum að flestu leyti, en af því leiðir aftur, að ég tel það skyldu mína að hjálpa stj. til að ná inn fénu, sem til þess þarf. Ég ætla mér ekki á neinn hátt að skorast undan þeirri skyldu, en sé ekki betur en að í þessu frv. sé farið lengra heldur en skyldan býður og þörf er á. Verð ég þó að vera á þeirri skoðun, að álögur á þessa þjóð séu orðnar það miklar, að það sé a. m. k. óþarfi að fara lengra í því efni en þörf krefur. M. ö. o., menn láti hverjum degi nægja sína þjáningu. Ég á við það, að í lok 2. gr. er sagt, að þessum tekjuauka, sem fæst með þessu frv., eigi að skipta í tvo jafna hluta: helmingurinn eigi að renna til ríkissjóðs og helmingurinn til bæjar- og sveitarfélaga. Það er þetta, sem hneykslar mig, því að ég sé ekki annað en að það, að vera að innheimta tekjuskatt handa einstökum sveitarfélögum, sé blátt áfram að taka að sér hlutverk niðurjöfnunarnefndar á hverjum stað. Niðurjöfnunarnefnd á hverjum stað getur gert þetta, og ég sé ekki heldur, að þetta hafi í sjálfu sér neina þýðingu, því að vitanlega verður við niðurjöfnun að taka tillit til þess, hvað þessi aukaskattur rýrir tekjur manna. Hinsvegar er líka að gætandi, að það er annað ákvæði í niðurlagi þessarar gr., sem gerir það að verkum, að þessi tekjuöflun sveitarsjóða kemur áreiðanlega skakkt niður. Það er gert ráð fyrir því, að helmingurinn af skattaukanum eigi að ganga til sveitarsjóða. Þá er það víst að því er mitt umdæmi snertir, að þessi skattalög snerta það afarlítið. Eftir því, sem ég veit bezt, er það aðeins einn einstaklingur og eitt einasta félag, sem kemur til með þar að súpa seyðið af þessari skattaálagningu. Báðir þessir aðilar eru búsettir í ríkustu sveit sýslunnar, og það þýðir, að ríkasta sveitin í sýslunni verður þessa aðnjótandi, sem sízt þurfti þess við. Ég sé ekki betur en að þessu leyti sé frv. skakkt byggt upp. Það hefði verið miklu réttara að láta þetta fé renna beint í sýslusjóð, því að hann myndi geta miðlað því þannig, að það rynni til þeirra hreppsfélaga, beint eða óbeint, sem mesta hafa þörfina fyrir það. Í sambandi við þetta vildi ég taka það fram, að mér virðist satt að segja þessi hátekjuskattur byrja nokkuð lágt, og samkv. þessu frv. kemur skatturinn sérstaklega illa niður á þeim, sem hafa föst laun, og þá vitanlega ekki síður embættismönnum heldur en öðrum. En með því að færa upp þetta lágmark tekjuskattsaukans, þá myndi verða sýnt nokkuð fyrir að auka byrðar slíkra manna. Ég tel, að réttara hefði verið að láta þennan skattauka ekki koma niður á öðrum en þeim, sem hafa minnst 8000 kr. tekjur. Þá væru bæði vel flestir embættismenn og aðrir þeir, sem hafa sæmileg föst laun, undanþegnir þessu. Ég hefði því óskað þess, að þessi ákvæði um skiptingu þessa skattauka hefðu verið látin niður falla úr l. og fjmrh. hefði látið sér nægja að afla þessa fjár, sem hann með þarf til að mæta útgjöldum ríkissjóðs, á þennan hátt. — Ég þarf svo ekki í sjálfu sér að tala meira um þetta mál. Ég get lýst því yfir, að ég mun ekki koma sem einstæðingur hér á þingi með brtt. í þessu efni. Ég lít svo á, að ef einhver miðlun á að fást í þessu, þá séu það stóru flokkarnir í þinginu, sem um það eiga að kljást. En út af því, sem fram hefir komið í sambandi við þessi stórmál — alþýðutryggingarnar og þetta mál, sem nú er á dagskrá — þá ætla ég með nokkrum orðum að skýra frá hvernig ég lít á mína aðstöðu í þinginu. Ég hefi heyrt utan að mér og því hefir verið lýst í ræðu og riti, að ég sé ráðandi maður í þinginu og hjálparhella stj. vitaskuld er ekki ástæða fyrir mig að ýfast við öðru eins og því, að menn séu að auka minn hróður, ef það gæti þá vegið dálítið upp á móti því sem kemur í hinn sarpinn. En samkv. stöðu minni hefi ég aldrei lagt í vana minn að ágirnast það, sem ég í raun réttri ekki á. Og ég á þetta ekki. Nú geri ég þetta ekki að umtalsefni mín vegna, heldur vegna vinnubræðranna hér í d. Mér skilst satt að segja, að hér ríki nokkur misskilningur um það, hve miklu þeir þm., sem ekki eru í stjórnarflokkunum, geti áorkað. Er þá fyrst að geta þess, að það er vitanlega hægt eins og stendur að fella mál hér í d., en þessi hv. d. getur ekki ráðið einstökum atriðum mála. Að því er þetta þing snertir, þá skal ég lýsa því yfir hreint og beint, að ég veit ekki til þess, að það hafi nokkurntíma fallið í mitt skaut að ráða niðurlögum máls. — Til þess þurfa allir þeir, sem ekki eru í stj.flokkunnm, að vinna saman sem einn maður, en það hefir, eins og menn vita, alls ekki átt sér stað, jafnvel ekki í hinum mikilvægustu málum. Þeir hafa tvístrazt í hverju einasta máli, og í einstökum atriðum er það vitanlegt, að menn hafa skotið sér undan að greiða atkv. Það kann að kosta eitthvað dálítið fyrir stj. flokkana, en 3000 silfurpeningar eru nú engin ósköp á þessum tímum. Ég tek það til dæmis; ég er ekki að sneiða neinn mann með þessu. Ég vil með þessu hafa sagt af mér þeirri ábyrgð, sem ég er talinn að hafa á framgangi mála. (GSv: Og yfir á hvern?). Á íhaldið. (GSv: Stóra eða litla?). Íhaldið. Ég lýsti því yfir á fundi nýlega, að það væri samnefnari minn fyrir Sjálfstfl. og Bændafl. Mín ábyrgð er því miklu minni en menn telja. Að því er sérstaklega snertir þetta mál, þá mætti e. t. v. með lagi fá nokkra bót á því, en til þess þarf vitanlega samvinnu, og þá fyrst og fremst samvinnu við stjórnarflokkana. Og ég skal lýsa því yfir, að ég er ekki í vafa um það, að stj.flokkarnir vilja talsvert til þess vinna að geta átt samvinnu við jafnstóran flokk og Sjálfstfl. um málefni. Og frá sjónarmiði íhaldsins er aldrei nema gott að draga úr helztu ágöllunum, sem þeim þykir á málunum. En aftur á móti gera þeir ekkert annað með því að þeir hafi engin áhrif í þinginu. Svo ætla ég nú að gera það, sem ég hefi aldrei gert fyrr, en það er að taka til athugunar orð, sem standa í dagblaði. Í skemmtilegri skopgrein í Alþýðublaðinu 7. desember, sem þó er sett í öndvegissæti, standa nokkur orð, sem ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp:

„Alþýðuflokkurinn hefir lagt svo mikla áherzlu á það, að frumvarpið um alþýðutryggingar óskert næði fram að ganga á þessu þingi, að hann mun ekki hika við að gera það að samvinnuslitum um ríkisstjórnina, ef frumvarpið yrði svo limlest, að heill kafli þess felli niður, og gildir það ekki sízt um atvinnuleysistryggingarnar“.

Ég vil undirstrika þetta, sem hér stendur, að Alþfl. muni ekki hika við að gera þetta mál að samvinnuslitum. Nú standa þessi orð væntanlega á ábyrgð ritstjórans, og ég býst við, að það sé ekki svo ákaflega mikið að marka þau. Þetta er ungur maður, og ég býst við, að þessi „hrútur“ þeirra alþýðuflokksmanna sé hálfgerður „vatnshrútur“. En þetta hefir þó komið þarna fram, og sérstaklega ef annað frekar ætti að liggja á bak við, þá vil ég mótmæla öðru eins og þessu. Ég veit ekki til, að hæstv. atvmrh. hafi samþ. þetta a. m. k. ekki við mig. Hann hefir alls ekki tekið sér neitt slíkt í munn í minni áheyrn. Samt sem áður þótti mér rétt að athuga þetta dálítið, og þá datt mér í hug, hvaða ástæður gætu verið fyrir Alþfl. til að fara að slíta stj.samvinnunni, þó að einn kafli þessarar tryggingarlöggjafar næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Ég get ekki séð, að það hafi við neitt að styðjast. Ef við athugum, hverju jafnaðarmenn hafa fengið framgengt síðan þessi stj. komst til valda, þá er það vissulega mikið — svo mikið í ýmsum greinum, að þá hefir alls ekki sjálfa órað fyrir, að þeir fengju svo miklu framgengt. Og hvað þetta mál sérstaklega snertir, þá er það svo stór sigur fyrir þá, þó að atvinnuleysistryggingarnar hefðu ekki náð fram að ganga, að það hefði ekki einungis verið ósæmilegt, heldur blátt áfram heimskulegt að gera það að samvinnuslitum. Yfirleitt má segja, að það sé hreint og beint kraftaverk, að jafnaðarmenn, sem hafa 1/5 þm., skuli hafa komið svo miklu fram, enda hefi ég heyrt, að einn þeirra beztu manna hefði látið sér um munn fara á flokksfundi, að það væri síður en svo, að ástæða væri til að vera óánægður með stj., því að það væri hreint og beint kraftaverk, sem hún hefði til vegar komið. Nú verð ég að játa, að ég trúi ekki á kraftaverk, en þar fyrir, þó að þeir séu miklir menn fyrir sér og hyggnir menn að mörgu leyti, vil ég þó ekki, að þeir ofmetnist og haldi, að þetta sé allt þeirra dyggð að þakka. Nei, það er vissulega ekki þeirra dyggð einni að þakka. Þeir eiga sér liðsmann svo góðan, að hann er áreiðanlega eins mikils virði eins og þessir 10 menn Alþfl. til samans. Og þegar menn fara að athuga þetta, þá býst ég við, að mönnum fari að skiljast það, að það kunni að koma fyrir, að mönnum finnist, að Framsfl. verði undir í reipdrættinum, sem áreiðanlega á sér stað milli stjórnarflokkanna, jafnvel þó að hann sterki Hermann sé þar í flokki. (GSv: Er hann sterkur?). Þessi liðsmaður, sem Alþfl. á, það er formaður Sjálfstfl. Ég segi honum þetta ekki til lasts. Þvert á móti. Ég er sannfærður um, að á komandi árum muni þetta verða hans mesta hrós. Þetta kemur af því, að enn hefir hann ekki þá foringjahæfileika, sem nauðsynlegi eru til að gegna svo virðulegu starfi. Nú vil ég vera sanngjarn og játa, að honum hefir farið fram síðan hann varð formaður flokksins. Hann gerir sýnilega virðingarverðar tilraunir til að standa eins og vera ber í þessari stöðu. Þó verð ég hinsvegar að segja, að framfarir hans eru ekki hraðfara. En ég vil ekki taka frá honum móðinn. Ég vil að hann haldi áfram á þessari braut. því lýsi ég yfir því, að ég get hugsað, að hann verði með tímanum sæmilegur flokksforingi, til dæmis á því herrans ári 2935. (ÓTh: verður það í himnaríki?). Ætli það verði ekki einhversstaðar nálægt fordyri helvítis.