13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (2836)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að mig undrar sumt af því, sem gerzt hefir hér undir umr. Hv. 1. landsk., sem talaði hér fyrir skömmu, hafði þau orð um tekjuöflunarfrv. það, sem hér liggur fyrir, að skattahækkun sú, sem það gerir ráð fyrir, væri forsvaranleg að skoðun Alþfl. og einnig Framsfl. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo, að Alþfl. sé búinn að gleypa Framsfl. En hvenær sem það hefir orðið, mun því ekki fyrr hafa verið yfirlýst af Alþfl. sjálfum, þó Sjálfstfl. hafi oft fullyrt, að svona væri komið. Annað, sem mér þótti undarlegt, var, að hv. 2. landsk., fyrrv. bezti Bændaflokksmaðurinn að sjálfs hans sögn, tróð hér upp í ræðustól og hafði íhaldið fyrir samnefnara fyrir Sjálfstfl. og Bændafl. Þessi hv. þm. talaði eins og sá, sem vald hafði fyrir stjfl., þegar hann var að gera grein fyrir, hvað þeir vildu gera og hvað ekki, og að þeir vildu gjarnan hafa samvinnu við Sjálfstfl. um einstök mál. virðast þessi orð hv. þm. benda til þess, að hann njóti alveg einstaklega mikils gengis hjá stjfl., ef hann ræður einn, og mun þá vera ástæða til að taka meira mark á ræðum hans og gerðum en verið hefir.

Viðvíkjandi efni frv. þess, sem hér liggur fyrir, skal ég ekki vera fjölorður, því afstaða Sjálfstfl. til þess hefir áður verið rakin af ýmsum mönnum flokksins, og nú síðast af form. fl., hv. frsm. minni hl. fjhn., Ólafi Thors. Ég vil benda á og undirstrika, að ég tel 2. gr. frv. mjög hæpna með því orðalagi, að nefna þetta bráðabirgðatekjuöflun, þar sem á að afla teknanna til þess að standast útgjöld, sem vitanlega verða varanleg eftir að frv. er orðið að l. Sem sagt, með nýjum sérstökum l. eru þjóðinni sköpuð stórfelld útgjöld. Er þar brugðið snöru að hálsi hennar, án þess að gerð sé nokkur grein fyrir, hvað við tekur, ef þessi tekjuöflun á ekki að vera nema til bráðabirgða og, þeir tekjustofnar bregðast t. d. á næsta ári.

Með frv. tel ég djarft teflt á tvennan hátt, sérstaklega með 2. gr. frv. Er þar á áberandi hátt unnið gegn nauðsynjamáli þjóðarinnar um, að hér myndist auðsafn, eða a. m. k. vísir til þess, þar sem hún er svo fátæk, að hún þarf að leita til erlendra ríkja hvenær sem þarf á fé til framkvæmda að halda. Þessi skattur er svo hár, að hann hlýtur að draga úr viðleitni manna til þess að spara, en jafnframt halda mönnum að því að eya. Það er lítil ástæða til þess að vera að spara, ef ríki og bæjarfélög taka jafnóðum það, sem sparað er. Tel ég þetta svo alvarlega braut, að aldrei sé of oft varað við að ganga inn á hana.

Um 3. gr. skal ég ekki fjölyrða, en aðeins geta þess, að ég vil ekki liggja jafnaðarmönnum á hálsi fyrir að ganga inn á þá leið, fyrst þeir töldu sig til neydda að afla þessara tekna. Tel ég það benda á vaxandi þroska hjá fl., að afla teknanna með óbeinum sköttum, fyrst þeir geta þó viðurkennt, að ekki sé unnt að afla þeirra með einkasölum. Hv. 1. landsk. sagði í fyrstu ræðu sinni, þegar hann talaði fyrir frv., að auk hinna beinu skatta teldu jafnaðarmenn rétt að fara einkasöluleiðina til þess að afla tekna. Komst hv. þm. svo að orði, að á þann hátt væri teknanna aflað án þess að það kæmi við almenning. Mér þótti þetta einkennilegt, burtséð frá því, þó hann vilji ekki viðurkenna, að kaupmenn eða þeir, sem við verzlun fást, hafi tilverurétt, ef það kemur ekki þjóðinni við, ef vörur hækka í verði. Það hefir verið minnzt á, að tekjuskatturinn samkv. 2. gr. komi ekki til greina fyrr en skattskyldar tekjur eru komnar yfir 6 þús. kr., og að þá séu brúttótekjur yfirleitt komnar upp í 8—10 þús. kr. Ég skil þetta ekki til fulls, en býst við, að hér sé miðað við nettotekjur. Það er alltaf miðað við, að búið sé að draga frá mannahald og annan kostnað, ef um það er að ræða.

Ég vil sérstaklega benda á, hvernig þetta kemur við unga atvinnuvegi, t. d. iðnað, ekki sízt ef þetta væri miðað við brúttó. Er hér höggið mjög nærri iðnaðinum, því margir iðnaðarmenn komast undir þennan lið. Ég skal ekki fara lengra út í þetta að sinni. Ég hefi bent á það, sem ég tel mest athugavert við frv., og þarf ekki að taka fram, að ég er á móti, að það verði samþ., því mér þykir ekki sýnt, að það sé svo mikið nauðsynjamál, að það mætti ekki að ósekju bíða. Vil ég ásaka stj. fyrir að gera of lítinn mun á því, sem er æskilegt og því, sem er nauðynlegt. Auðvitað er margt æskilegt, en greinir á um, hvað er nauðsynlegast, og er í því fólginn höfuðágreiningur milli flokkanna.