13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það eru aðeins nokkrar aths., sem ég sé ástæðu til þess að gera við ræður þeirra hv. þm., sem talað hafa um frv. síðan ég hóf umr. Hv. þm. Ak., sem nú lauk máli sínu, sagðist í upphafi ræðu sinnar hafa höggið eftir, að ég teldi, að Alþfl. gæti eftir atvikum sætt sig við þetta gjald. En sérstaklega hneykslaðist hv. þm. á því, að ég hefði einnig bætt við, að það mundi Framsfl. einnig gera, og þótti undarlegt, að ég skyldi tala fyrir Framsfl. En hv. þm. gætti ekki að því, að ég talaði fyrir munn meiri hl. n., og að honum standa bæði framsóknar- og jafnaðarmenn. Það er ekki launungarmál, að Framsfl. telur þetta ekki æskilega leið til tekjuöflunar, að þurfa að gripa til þess að skattleggja sumar þær vörur, sem teknar eru upp í frv. Vitanlega telja stjfl. ekki gott að þurfa að leggja á aðflutningsgjald, þó nauðsyn þess að afla tekna gerði óhjákvæmilegt að fara inn á þá leið.

Þá hjó ég eftir, að hv. þm. hafði eftir mér, að ég hefði sagt í ræðu minni, að við jafnaðarmenn vildum afla tekna með einkasölum, vegna þess að það kæmi ekki við þegna þjóðfélagsins yfirleitt. Ég vil halda því fram, að meiri hl. af einkasölunum séu þannig, að það séu aðeins sárfáir menn, sem vegna stofnana þeirra bíða nokkurt fjárhagslegt afhroð, og að í stjórnmálum eigi að fylgja þeirri gullnu reglu, að hagur fárra einstaklinga eigi að víkja fyrir heill fjöldans. Einkasölur þær, sem nú skreyta fyrst og fremst tekjuliði fjárl., sem áætlað er að gefi 1,6 millj. kr. í tekjur á næsta ári, eru áfengisverzlunin og tóbakseinkasalan. Þessar einkasölur eru mjög eðlilegar tekjuöflunarleiðir. Alþfl. var þeirrar skoðunar, að enn mætti fara lengra á þeirri braut, að koma á fót einkasölum fyrir ríkið. En þar skildust vegir, þar sem Framsfl. treystist ekki til að fara lengra inn á þær brautir.

Í þriðja lagi minntist hv. þm. Ak. á, að þegar ég hefði verið að tala um tekjuskattinn, þá hefði ég talið 6 þús. kr. skattskyldar tekjur svara til atvinnutekna eða rekstrartekna frá 8 þús. og upp í 10—11 þús. Ég veit, að hv. þm. Ak. veit manna bezt, að hér er rétt frá skýrt, því að hann mun eiga sæti í yfirskattanefnd í Húnavatnssýslu og vita, að eftir skattal. á að draga frá fyrst og fremst persónufrádrátt og þar næst vexti af skuldum, iðgjöld fyrir vátryggingar og annað þess háttar, svo að 5 manna fjölskylda byrjar á að draga frá persónufrádrátt 3 þús. kr. Svarar þetta því til þess, að atvinnutekjur eða launatekjur séu 9 þús. kr., þegar skattskyldar tekjur eru 6 þús. kr. Ég held, að á því geti ekki verið nokkur vafi, að þeir menn, sem hafa slíkar tekjur, eigi frekar að bera byrðarnar, þegar seilast verður nokkuð djúpt niður í vasa gjaldenda, til þess að framkvæma nauðsynjamál á löggjafarsviðinu.

Þessi hv. þm. hélt því fram, að vel mætti bíða framkvæmd þeirrar löggjafar, sem gerir nauðsynlega þá tekjuöflun, sem hér er farið fram á með þessu frv., og þar átti hv. þm. sérstaklega við alþýðutryggingarnar og nýbýlin. En skoðun stjórnarflokkanna er sú, að þetta séu nauðsynjamál svo mikil, að ekki sé rétt að fresta framkvæmd þeirra. Höfum við nánar gert grein fyrir því undir umr. um þessi mál hér á þingi, og af þeim umr. hefir það berlega komið í ljós, að stjórnarflokkarnir telja með fullum sannindum að þessi mál séu hin mestu umbótamál og að því sé nauðsynlegt að þau nái fram að ganga, þó að hinsvegar vel kunni að vera, að stjórnarflokkarnir leggi nokkuð mismunandi áherzlu á þessi tvö mál, sem ég nú hefi nefnt. En það er í þessu samhandi algert aukaatriði.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að hv. frsm. minni hl. n., þm. G.-K. Hann gat um það í ræðu sinni, sem ég líka veit, að öllum mönnum er ljóst, að lögð eru með frv. þessu nokkur gjöld á einstaka nauðsynjavöru. Á kreppu- og vandræðatímum verður því miður ekki komizt hjá því í kapítalisku þjóðfélagi að leggja allþunga skatta á nauðsynjavörur. Í frumræðu minni færði ég rök að því, að ef von hefði verið á normal-innflutningi á erlendum vörum, þá hefði ekki þurft að grípa til þess að leggja á þetta vörugjald. En erfiðleikar nútímans gera það að verkum, að ekki verður komizt hjá að takmarka verulega innflutning. Verður því að leita inn á aðrar leiðir en jafnaðarmönnum eru geðþekkar. Í þessu sambandi vil ég minna á orð hv. þm. G.-K., þegar hann sagði, að ég hefði fært Alþfl. það til málsbóta, að skoðanabræður okkar jafnaðarmanna í nágrannalöndunum hefðu svikið stefnu sína í skattamálum. Það er alrangt að tala um svik í þessu sambandi. Jafnaðarmenn eru í minnihluta í þjóðþingum þessara landa. Og þar sem þeir geta ekki fyrir þá sök myndað meirihlutastjórn, hafa þeir samvinnu við meira eða minna frjálslynda borgaralega flokka, sem gerir það að verkum, að jafnaðarmönnum er ekki hægt að framkvæma ýms stefnumál sín. Þetta er augljóst mál. Og það er nú svo með jafnaðarmannaflokka, sem eru raunsæisflokkar, að þeir hika ekki við að starfa að þjóðfélagsmálum og koma á þeim endurbótum, sem þeim er unnt, jafnvel þó að þeir hafi ekki aðstöðu til að fullnægja kröfum sínum öllum. En þar sem að þeir starfa að stjórnmálum sem minnihlutaflokkar, geta þeir ekki í skattamálum né öðrum málum komið sínum vilja alveg fram. Af því leiðir, að þeir ná ekki sínu lokamarki í skattamálum á meðan svo standa sakir. Alþfl. hefir ekki aðstöðu til þess að ná þessu takmarki hér á þingi frekar en alþýðuflokkar annarsstaðar, sem þó hafa hlutfallslega meiri sterk á þingi heldur en Alþfl. hefir hér.

Hv. þm. G.-R. var að tala um, að ég ætti að upplýsa um skattstofna í Svíþjóð og Noregi. Eftir að búið er að samþ. þetta frv. um hátekjuskatt, þá höfum við gengið lengra í beitingu beinna skatta heldur en hinar Norðurlandaþjóðirnar, þegar teknir eru til greina þeir kommúnölu skattar, sem felast í þessu frv. En sjálfsagt hefðu jafnaðarmenn í nágrannalöndum okkar gengið lengra í beitingu beinna skatta heldur en þeir hafa gert, ef þeir hefðu átt þess kost. En þeir hafa verið háðir þeim takmörkunum, sem leiðir af samvinnu við aðra nokkuð óskylda flokka, sem ekki hafa viljað ganga lengra inn á þær leiðir. En það er einmitt athyglisvert í sambandi við fjáröflun til alþýðutrygginga yfirleitt, að Svíar hafa nú endurbætt sínar alþýðutryggingar, sem varð til þess, að alþýðutryggingasjóðir þeirra verða fyrir meiri fjárútlátum til þeirra, sem tryggðir eru, heldur en áður. En til þess að framkvæma þessar endurbætur varð að afla aukinna tekna í ríkissjóð Svía. Alþýðufl. í Svíþjóð hefir bent á sem tekjuöflunarleið til þessara framkvæmda að taka einkasölu á kaffi og benzíni. Hafa þeir sett nefnd til að athuga, hve mikið þessir tekjustofnar geta gefið þeim. Þeir álíta, að ef ríkið tekur í sínar hendur heildsölu á benzíni, muni það gefa ríkinu 11 millj. kr. tekjur, og ef þeir legðu einnig smásölu þess undir ríkið, þá mundi það gefa 8 millj. kr. tekjur til viðbótar. Að vísu er ekkert afgert um það enn, hvort það er hægt að fara þessa leið, m. a. af þeirri ástæðu, að ekki er víst, hvort þeir flokkar; sem vilja vinna með þeim í stjórn, sem eru bændaflokkurinn og a. n. l. frjálslyndi flokkurinn, vilja vera með jafnaðarmönnum í því að koma á þessum einkasölum. Ef sænskir jafnaðarmenn fá þessu ekki framgengt, verða þeir að sætta sig við að fara inn á aðrar tekjuöflunarleiðir, og má þá vera, að þeir neyðist til að grípa til óbeinna skatta til þess að auka tekjur ríkisins í þessu skyni.

Hv. þm. G.-K. sagði, að ég og fleiri fylgjendur þessa frv. færum rangt með, þegar við héldum því fram, að aðflutningsgjaldið samkv. 3. gr. frv. legðist ekki á framleiðsluna. Ég sagði, að allar framleiðsluvörur til lands og sjávar væru undanþegnar þessu gjaldi. Undanþáguákvæði 3. gr. sýna þetta berlega.

Hv. þm. G.-K. vék að því í ræðu sinni, að það hefði verið nær að fresta alþýðutryggingunum og nýbýlamálinu heldur en að leggja þessa skatta á þjóðina. Ég hefi svarað þessu með því, sem ég svaraði ræðu hv. þm. Ak.

Þá vildi hv. þm. G.-K. halda því fram, að við Alþfl.menn mundum e. t. v. ekki uppskera það þakklæti, sem við reiknuðum með að við fengjum hjá þjóðinni fyrir samþykkt alþýðutrygginganna. Það má vel vera, að fyrst í stað heyrist óánægjuraddir út af alþýðutryggingunum frá mörgum. vitanlega má gera ráð fyrir því, að þessi tryggingarlöggjöf sé ekki fullkomin og að hún verði gagnrýnd af ýmsum Alþfl.mönnum. En menn verða að skilja, að ekki er unnt að fá strax í upphafi lögfest það allra hentugasta og bezta á þessu sviði, eins og við hefðum helzt kosið. En með þessari löggjöf er lagður góður grundvöllur, sem svo verður auðveldara að byggja ofan á. Þó að óánægja verði manna á meðal fyrst í stað út af því að þurfa að greiða iðgjöld til trygginganna, sem ég efa ekki, að komi fram, þá erum við Alþfl.menn þess fullvissir, að við höfum með samþykkt þeirra borið gott mál fram til sigurs og fært alþýðu manna kjörgrip með alþýðutryggingunum. Þau verða áreiðanlega mörg heimilin, þar sem sjúkdómar eða örorka ber að dyrum, sem þá munu finna, að þau eiga þar góðan hauk í horni, sem tryggingar þær eru, sem nú verða lögfestar. Við jafnaðarmenn leggjum því ótrauðir inn á þá braut að verja það og færa fyrir því fullkomin rök, að ekki hefði verið réttmætt, sanngjarnt né eðlilegt á neinn hátt að fresta framkvæmd alþýðutrygginganna, jafnvel þó að það kosti það að fara aðrar leiðir til tekjuöflunar en við erum fyllilega ánægðir með.