13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) (óyfirl.]:

Ég þarf ekki að halda langa ræðu, einkum af því, að það, sem komið hefir fram í svörum andmælenda minna í þessu máli er þess eðlis, að því er í raun og veru þegar svarað með minni frumræðu og öðrum ræðum, sem fluttar hafa verið þessu máli til andmælis af hv. flokksbræðrum mínum hér í þessari hv. d. við 1. umr. málsins. Einnig hefi ég andmælt þessu máli, bæði við þessa umr. og einnig í eldhúsdagsumr. Þó vil ég víkja að örfáum atriðum með nokkrum orðum.

Hv. frsm. meiri hl., 1. landsk., færði fram sjálfum sér og sínum flokki til afsökunar á því, að hann hefði ekki gengið nægilega langt í beitingu beinna skatta, að flokkur hans væri háður böndum og kvöðum, sem samvinna við annan flokk hér á þingi legði á hann. Um leið og ég vil vekja athygli á því, að stefna flokks hv. þm. í skattamálum er sú, að ná inn þeim tekjum, sem ríkissjóður þarfnast til sinna gjalda, annarsvegar með beinum sköttum og hinsvegar með ríkisverzlun — um leið og ég vek athygli á þessu, vil ég beina þeirri fyrirspurn til hv. 1. landsk., hvort hann telur kleift að ná inn nægum tekjum til ríkisþarfa með þessu móti. Ég held því fram, að slíkt sé í sjálfu sér algerlega ókleift, af ástæðum, sem ég skýrði frá í minni fyrri ræðu og endurtek því ekki nú.

Hv. þm. játaði, að eftir að búið væri að samþ. þessa nýju skattalöggjöf, hátekjuskattinn svo kallaða, þá hefðum við Íslendingar gengið lengra í beitingu beinna skatta heldur en nágrannaþjóðir okkar. Og þetta er rétt hjá hv. þm. En ef allur sannleikurinn er sagður, þá er hann sá, að áður en þessi hátekjuskattur kom til sögunnar, höfðum við gengið miklu lengra í þessu efni en nágrannaþjóðirnar, og það þó ekki sé tekið tillit til þess, að sami skattstigi liggur með margföldum þunga á skattborgurum hér hjá okkur, annarsvegar vegna fátæktar okkar og hinsvegar vegna ills árferðis.

Ummælum hv. 1. landsk. um það hvort þessir nýju skattar legðust á framleiðsluna í landinu, get ég svarað um leið og ég svara hæstv. fjmrh., sem einnig vék að hinu sama. Skal ég nú koma að því með örfáum orðum.

Hæstv. fjmrh. vildi, að mér skildist, véfengja, að rétt væri hermt, þegar ég kvað ástæðu til að ætla, að þessi nýja skattalöggjöf mundi leggjast með nokkru meiri þunga á þjóðina heldur en hann gerði ráð fyrir í sinni greinargerð. Þessi ummæli mín hafði ég rökstutt með tilvitnun í skýrslu, sem hæstv. atvmrh. gaf í Alþýðublaðinu 28. nóv. síðastl. Hæstv. fjmrh. fann, að ósamræmi var á milli þessara orða, sem ég vitnaði í, og hans eigin skýrslugerðar, en vildi bera í bætifláka fyrir hæstv. atvmrh. með því að halda fram, að sá hæstv. ráðh. hefði reiknað verðtollinn út á öðrum grundvelli en fjmrh. gerði. Og hæstv. fjmrh. játaði jafnvel, að atvmrh. hefði byggt sinn útreikning á skökkum forsendum, þannig að hann hefði ekki farið rétt með tölur. En ég fæ ekki betur séð en að báðir hæstv. ráðh. byggi sína útreikninga á sömu tölum og miði við, að innflutningur á árinu 1936 verði um 38 millj kr. Hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir, að af þeim verði 17 millj. undanþegnar tolli, en 21 millj. falli undir toll. Þar af falli 14 millj. undir 2% toll. Séu þá 7 millj. kr. eftir, sem falli undir hærri toll; þar af 3,6 millj. undir 5% tollinn. Þessir tveir tollar gefi þá 460 þús. kr. í tekjur. Þá er ettir innflutningur að upphæð 3,4 millj., eftir áætlun hæstv. atvmrh., sem gefur 340 þús. kr. í toll, svo framarlega sem sá innflutningur fellur allur undir 10% toll, en meira, ef eitthvað af þeim innflutningi fellur undir 25% toll. Og þar sem ekkert innflutningsbann er á þeim vörum, sem heyra undir þá tollhækkun, þá má telja það rök fyrir því, að áætlun hæstv. fjmrh. um tekjuöflun af þeim tekjustofni sé skökk. Hæstv. ráðh. reikna báðir út frá sömu tölum um innflutning á næsta ári. Mismunurinn á útreikningi þeirra liggur í því, hve mikið af innflutningi þeim, sem hæstv. atvmrh. áætlar 3,4 millj., fellur undir 10% toll og hve mikið af honum fellur undir 20% toll. Ef sá innflutningur félli allur undir 25% toll, fengist af honum tekjur sem svaraði hálfri millj. kr. meira en ef hann félli allur undir 10% tollinn, eða m. ö. o. hálfri millj. kr. meira en hæstv. fjmrh. vildi láta skína í. En það getur vitanlega ekki komið til mála, að allar þessar vörur falli undir hærri tollinn. Ég geri ráð fyrir, að meiri hl. af þessum vörum, miðað við verð, falli undir 10% tollinn. En þrátt fyrir það er áætlun hæstv. fjmrh. ekki rétt. Og hann hefir að mínu áliti engan vegsauka af því að slá því fram, að hæstv. atvmrh. reikni með skökkum tölum, þegar hann gefur sínu blaði upplýsingar um þetta mál.

Hæstv. fjmrh. gaf svar við þeirri spurningu, hvert hann ætlaði að leita til þess að ná tekjum í ríkissjóð með skattahækkunum, þegar tekjustofnar samkv. núgildandi l. vegna aukinna innflutningshafta brygðist eftir svo sem eitt eða tvö ár. Sem svar við þeirri spurningu sagði hæstv. ráðh., að tekjustofnar eftir gildandi l. mundu í venjulegu árferði nægja til þess að standa undir gjöldum ríkissjóðs. En ég held nú samt, að hæstv. ráðh. hafi getið þess sjálfur, að hann gerði ráð fyrir, að nokkuð gæti þó skort á, að þetta „venjulega árferði“ mundi koma á næstu árum. Og hygg ég, að hann muni, því miður, geta hins rétta til í því efni, því að allir hv. þm. vita, hvernig horfurnar eru nú um afurðasölu landsmanna. Það er rétt, að þjóðin viti það, að ef ekki verður dregið eitthvað úr útgjaldaliðum fjárl., þá eru að mínu áliti litlar eða engar líkur fyrir því, að hægt verði að létta af þeim sköttum, sem þegar hafa verið lagðir á þjóðina, og enn á að bæta á þessar þungu klyfjar, sem þjóðin hefir nú að bera í skattamálum. Þetta hygg ég, að hæstv. fjmrh. viti, enda skildist mér á ræðu hans, að hann vildi viðurkenna, að svo væri. Þess vegna er það, að hæstv. ráðh. á ekki að gefa í skyn, bæði með fyrirsögn þessa frv. og ummælum í ræðum sínum um þetta mál, að einhverja linkind standi til að veita um þessar skattaálögur á næstu árum með afléttingu þeirra að einhverju leyti, því að um það mega menn ekki gera sér neinar vonir, með tilliti til stefnu hv. stjórnarflokka.

Hæstv. fjmrh. færði fram til afsökunar því, að sjálfstæðismenn hefðu ekki átt kost á því að kynna sér gögn í þessu máli, að þeir hefðu ekki mætt á fundi, sem haldinn hefði verið um þetta mál. Þessi fundur var haldinn í kaffihléi. Okkur var sagt, að það ætti að skjóta á einhverjum skyndifundi í kaffitíma um þetta. Ég skal viðurkenna, að ég lét þau orð falla við hv. form. n., að ég gerði mér enga von um, að þetta mál fengi neina athugun á þeim fundi, og teldi því einu gilda, hvort ég mætti þar á hálftíma fundi eða ekki, svo að hv. form. n. hefir að þessu leyti eðlilega aðstöðu til þess að afgr. málið, þó að ég væri þar ekki við. En það er út af fyrir sig ámælisvert, að n. skuli ekkert færi gefið til að athuga slíkt mál með því að bera það saman við gildandi lagaákvæði og skapa sér einhverja hugmynd um það, hverjar breyt. verði frá gildandi l. við svo örlagarík nýmæli. En fyrir það er ég ekki að ámæla hv. form. fjhn., því að það er ekki eingöngu í þessari n., sem þessi venja er höfð, heldur hefir þetta verið almenn venja hér á þingi nú á síðustu árum.

Hæstv. ráðh. færði fram þá afsökun — ég held, að honum hafi fundist það — gegn þessu álagi og því, sem hann sjálfur lagði á þjóðina í fyrra, að í sjálfu sér stæði ekki til að bæta á nýjum sköttum, heldur kæmi sú nýja aukning aðeins í staðinn fyrir aðra skattstofna, því að þjóðin, sem í fyrra hefði borgað 15 millj. í ríkissjóð, hún ætti nú ekki að borga nema 15 millj. Þetta eru undarleg rök og hvergi frambærileg, því að sú linun þjóðinni til handa á að koma fram í því, að þjóðin fái minna af vörum, þ. e. a. s. að það heimili, sem áður hefir notað svo og svo mörg kg. t. d. af sykri, þarf nú ekki að borga meira í hít hæstv. fjmrh., ef það notar þeim mun minna af sykri eða öðrum vörum, sem ráð þarf að nota, en það er lítil huggun fyrir skattþegnana, þó að við þá sé sagt: „Ykkur er það í sjálfsvald sett, hvort þið borgið í ríkissjóð minna en í fyrra, þið gerið það með því að nota minna af þeirri vöru, sem tollarnir eru lagðir á“.

Hæstv. ráðh. færði það nú fram í 1001. skiptið, að okkur sjálfstæðismönnum í Rvík færist ekki að tala um álögur ríkissjóðs, vegna þess að útsvörin í Rvík hefðu hækkað meira en ríkið vildi hækka sínar álögur. Hæstv. ráðh. veit það vel, að ein meginorsök þess, að Reykjavíkurbær þarf að hækka útsvör sín, er einmitt sá aðbúnaður, sem skattþegnar og atvinnurekendur sérstaklega hafa orðið að sæta af hendi stjórnarflokkanna undanfarin ár. Þetta er í raun og veru grundvallarástæðan fyrir því, að Rvík og svo að segja öll bæjar- og sveitarfélög verða að leggja þyngri gjöld á skattborgarana. Margir skattborgarar hafa gefizt upp, og þeirra uppgjöf lendir með auknum þunga á þeim, sem eftir verða. Og það er alveg vitanlegt, að það, sem mestu veldur, er hið aukna fátækraframfæri hér í Rvík. Hann verður líka að athuga það, að hér um bil öll fólksfjölgun þjóðarinnar lendir í Rvík. Það er því eðlilegt, að eftir því sem bærinn hröðum skrefum stækkar, þá vaxi hans útgjaldaþörf. Annars er þetta svo margrætt mál, að ég skal ekki fara lengra út í það.

Hæstv. ráðh. gerði tilraun til að véfengja þá umsögn mína, að þessi nýi viðauki á tekjuskattinn, og sérstaklega eins og ég hafði orðað það, að hann að viðbættum skattaálögunum í fyrra mundi á næsta ári koma fram í því formi, að ríkissjóður missti verulegra tekna af tekjuskattinum. Um þetta er náttúrlega á þessu stigi málsins ekki hægt að gera neinn heildarútreikning, en maður, sem hefir verið skattstjóri í Rvík, veit, að þetta er satt.

Við skulum taka t. d. mann, sem árið 1935 hefir 30000 kr. tekjur. Hann mundi, eftir að þessi skattauki er genginn í gildi, greiða í útsvar — satt að segja hefi ég ekki gáð að því, en ég ætla að það muni verða sem næst 17—18000 kr. (Fjmrh.: Ég held, að hv. þm. viti lítið um það. Hann þarf að taka sér frí og athuga þetta betur). Ég þarf ekki að taka mér neitt frí til að athuga það. Af 30000 kr. tekjum mundi skattur og útsvar fara nálægt þessu, sem ég sagði, 17—18000 kr. (PZ: Já, það er nálægt því). Næsta ár hefir þessi maður svo 30000 kr. tekjur aftur, en þá er ekki hægt að leggja á hann eins mikið og árið áður, vegna þess að þá má hann draga frá tekjunum allt, sem hann hefir greitt í tekjuskatt og útsvar, áður en hans tekjur koma til skatts, en sá frádráttur verður vitanlega meiri, þegar skatturinn hefir verið hækkaður. Þessu getur hæstv. ráðh. ekki mótmælt, og þegar eins töluglöggur maður og hv. 2. þm. N.-M. hefir sagt, að þær tölur, sem ég nefndi, væru réttar, þá vona ég, að hæstv. fjmrh. hætti að hlæja; hann verður þá heldur að hlæja að hv. 2. þm. N.-M. í þetta skipti. Það er lúxus, sem ég hefi leyft mér, en ég kann ekki við, að hæstv. fjmrh. sé að því. — Já, það er hvorki meira né minna en að af 30000 kr. er tekjuskatturinn einn á 10. þús. kr., og þegar útsvarinu er bætt við, þá hygg ég, eins og ég sagði og hefi nú fengið prófvottorð fyrir, að er rétt, að það séu 17—18000, sem dragast frá. Hæstv. fjmrh. skilur vel, að á þessu er sá munur, að þessi maður, sem átti að greiða skatt af 30000 kr. á þessu ári, hann þarf ekki að greiða nema af 12000 kr. næsta ár. (PZ: Hann fær líka að draga frá á fyrra árinu. — Fjmrh.: Nú þarf hv. þm. að fá nýtt vottorð). Ég er búinn að fá það; þeir, sem bera sannleikanum vitni, fá það, og það er ekki amalegt, þegar maður getur fengið sannleiksvottorð frá framsóknarmönnum. Þá er maður nú farinn að fara snjöll og ágæt rök fyrir sínu máli. Annars veit hæstv. ráðh. það vel, að þessi mikla hækkun á tekju- og eignarskattinum lendir eftir eitt eða tvö ár á ríkissjóði á þann hátt, að gjaldstofnarnir bila ákaflega verulega. Hæstv. fjmrh. talaði með allmiklu meiri varfærni en hann hefir áður gert um það, hvort þessi skattur lenti á framleiðslunni. Hann játaði, að það væri rétt, að skatturinn lenti á framleiðslunni að svo miklu leyti, sem framleiðendurnir hefðu menn á framfærslu, bæði sjálfa sig og aðra, sem vinna að framleiðslunni. Það er svo með mjög marga framleiðslu, þar á meðal alla stórútgerð, að hún hefir hundruð manna, sem hún geldur hlut af kaupinu með því að fæða þá, og þegar skatturinn er lagður á neyzluvörur, þá lendir hann beint og krókalaust á framleiðslunni. En svo er hitt, sem er aðalatriðið, að allir skattar lenda fyrr eða síðar og fyrr en siðar á framleiðslu landsmanna. Og að þetta er svo einnig um hátekjuskatt, er, eins og ég hefi áður sagt, berast af því, að nú eru útsvörin að bresta svo mjög, að hvert bæjarfélagið á fætur öðru krefst þess að mega leggja vörugjald á notaþarfir framleiðslunnar og nauðsynjavörur almennings, svo að jafnvel sjálfur hátekjuskatturinn lendir svo að segja alveg krókalaust á bændum og öðrum almenningi í landinu og einnig á framleiðslunni. Undan þessu er ekki hægt að komast.

Ég hygg, að það sé heldur tilgangslítið að karpa mikið um þetta mál frekar en orðið er, og sleppi ég þess vegna ýmsu úr ræðum andstæðinga minna, sem mér þætti þó þess vert að andmæla. Ég hefi áður tekið fram, að höfuðstefnumunur stjórnarflokkanna og Sjálfstfl. er sá, að stjórnarliðið, með hæstv. fjmrh. í fararbroddi, trúir eða læzt trúa, að ráðið til þess að mæta yfirvofandi atvinnuleysi sé að leggja nýja skatta á framleiðslu landsmanna, til þess með þeirri tekjuöflun að standa undir örðugleikum atvinnuleysisins á þann hátt, að ríkið komi í staðinn fyrir atvinnuvegina. En við sjálfstæðismenn erum alveg sannfærðir um hitt, að ein meginorsök atvinnuleysisins sé einmitt fyrst og fremst skattþunginn, sem hvílir á atvinnurekstrinum, og ráðið til þess að aflétta atvinnuleysinu sé að aflétta sköttunum.

Hæstv. fjmrh. hefir orðið var við, að skattstofnarnir séu að bresta, og hann svarar þeirri staðreynd með því að segja: „Ég veit að skattstofnarnir eru að bresta, og þá legg ég á nýja tekjustofna“. Afleiðingin af þessu verður áreiðlega sú, að fyrr eða síðar og fyrr en síðar hrynur hver skattstofninn á fætur öðrum.

Það er til gömul saga, — ég er ekki mikið fyrir að segja sögur, en ég held, að ég verði að segja þessa, það er víst í fyrsta eða annað skiptið ber á Alþingi, sem ég skemmti mönnum með því. — Það var einn sinni maður, við getum kallað hann lestamann. Hann lagði af stað með lest af klyfjuðum hestum. Hann hafði langa leið og örðuga að fara, og klyfjarnar voru þungar. Þegar hann var nokkuð áleiðis kominn, hné einn hestur niður undir klyfjunum. Þessi slyngi lestamaður leit á klyfjarnar. Hann var ágjarn eins og hæstv. fjmrh., og honum hugkvæmdist það snjallræði, að hann tók klyfjarnar, sem þessi dauði húðarjálkur hafði borið, og skipti þeim niður á hina hestana. Síðan fló hann skrokkinn, tók húðina og bætti henni ofan á. En þegar hann var kominn skamma leið, sligaðist næsti hestur. Hann greip til sama snjallræðisins, tók klyfjarnar og lagði á hina hestana, og húðina með. Svona fór koll af kolli. Hinn snjalli lestamaður deildi klyfjunum á jálkana, sem eftir stóðu, þar til allir voru dauðir. Hann stóð að lokum einn með klyfjarnar á eyðimörk.

Ég held, að þetta hafi verið einn af forfeðrum hæstv. fjmrh. Ef hann heldur áfram á sama hátt og hann gerir nú, þá endar hann með því að sliga alla þá jálka, sem bera þann skattþunga, sem á þá hefir verið lagður fyrir ríkissjóð. — Ég held, að ég þurfi þá ekki að svara hæstv. ráðh. fleiru.

Það er nú tæplega svaravert, sem þessi 1. þingkjörinn eða 1. ókjörinn, gamli maðurinn af Eyrarbakka, var að segja hér. Hann hélt hér eina af þessum alkunnu skemmtiræðum, sem menn leggja ekkert upp úr, þó að mönnum þyki gaman að hlusta á þær. Ég gerði mér til ánægju eins og fleiri að sitja og sjá, hvert gamli maðurinn ætlaði að komast, ég skildi ekkert upp né niður í því, sem hann sagði, og svo mun fleirum hafa farið en mér. Þó skildist mér, að það vekti fyrir honum, að hann bæri ekki einn ábyrgð á stj., hann vildi alveg koma sér undan því ámæli —, þessi gamli og góði Bændaflokksmaður stæði ekki einn fyrir þessum sköttum, sem þegar hefðu verið lagðir á þjóðina, og ekki heldur þeim álögum, sem nú væri verið að samþ. Hann sagði, að þetta væri því að kenna, að stjórnarandstæðingar — hann sagði „við stjórnarandstæðingar“ — gætu ekki staðið saman, og það er satt, ef hann vildi láta telja sig stjórnarandstæðing. Hann er nú sá 16. af 32 þm., því að einn stuðningsmann stj. vantar, en við stöndum aldrei saman, af því hann er alltaf með stj., svo að hann getur aldrei verið með okkur. En það er eins og hv. þm. Ak. tók fram, að það fer að verða hlægilegt, þegar þessi hv. þm., sem segist vera eini Bændaflokksmaðurinn og bezti Bændaflokksmaðurinn og aldrei hafa farið úr flokknum, lýsir því yfir um leið og hann segist vera frjálslyndur og sjálfstæður maður, að íhald sé sameiginlegt nafn fyrir Bændafl. og íhaldsflokkinn. Af því að það er verið að bendla Sjálfstfl. við íhaldsnafnið, þá vil ég mælast til þess, að þessi þingkjörni fyrrv. uppbótarþm. sé ekki að troða sér inn í þennan hóp. ég vildi mælast undan því, og að svo miklu leyti, sem ég réði þar um, þá vildi ég ekki, að hann fengi upptöku í okkar flokk. Ég mundi læra af því, sem Bændafl. er búinn að reyna, að það er varlegast að eiga ekki börn með þessum hv. þm. Það er ekki nema til vonbrigða fyrir þá, sem eitthvað leggja upp úr honum.

Hv. þm. fór að hæla mér, en sagði þó, að ég væri ekki eins fullkominn sem formaður Sjálfstfl. eins og ég ætti að vera. Enginn játar því fremur en ég. Það er mikil virðingarstaða að vera formaður stærsta stjórnmálaflokksins á landinu, og til þess að standa vel í þeirri stöðu þarf meiri hæfileikamann en ég er, ekki sízt til þess að standa í sporum þess manns, sem var form. flokksins næst áður en ég varð það. Mér þótti það því skjall, sem þessi þm. bar á mig, að mig vantaði ekki mikið og ég væri alltaf að batna. Mér skildist, að hann hefði það helzt út á mig að setja, að ég væri ekki nógu laginn að laða að mér þá um., sem væru á markaði, væru til leigu eins og í Þjóðabandalaginu. eða eins og stendur á gömlu skrani: „til sölu“, — honum finnist ég ólaginn að kaupa á fornsölu. Ég viðurkenni, að mig skortir ágirnd til að leita til hans. Ég veit ekki, hvort hann beindi því til mín, að ég hefði tekið mútur eða látið kaupa mig. Hann var að tala um, að einhver þm. hefði verið keyptur fyrir þúsund silfurpeninga. Ég veit ekkert um það, en mig rámar í, að einhver þm. fékk 3000 silfurpeninga. Hann var forseti og vildi vera forseti á hátið Alþingis. Hann fékk þessa þrjú þús. silfurpeninga til þess að læra mannasiði. Hann gat nú reyndar aldrei lært þá, en hann fékk að halda laununum. Þá var kveðið:

„Þrjátíu silfurs, segja menn,

svikara Júdas gerði,

en nú eru goldin þúsund þrenn,

þetta' er að hækka' í verði“.

Ég veit ekki, hvort þessu var beint til mín um kaup og sölu. En mér dettur ekki í hug, að þessi virðulegi, gamli fyrrv. þm. hafi í fyrra lífi, þ. e. a. s. meðan hann var á lífi á þingi, reynt að selja sig, þó að hann fengi þrjú þús. silfurpeninga til þess að læra mannasiði. Ég held því ekki fram, en hitt finnst mér, að honum farist ekki að brigzla mönnum um, að þeir gangi kaupum og sölum.

Mér skilst, að hann ætlist til, að ég verði orðinn fullkominn formaður íhaldsflokksins eftir þúsund ár. Ef hann ætlar að vera forseti þá, þá þarf hann meira en þúsund þrenn til þess að læra þá mannasiði, sem þar þarf að kunna.