13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Magnús Torfason:

Hv. þm. Ak. var að senda mér tóninn. Ég veit ekki, hvort hann er hér. (GÍ: Jú). Ég hefi lítið við þennan hv. þm. að segja. Hann átti erfitt með að svara mér, það var auðséð, að hann skildi hvorki upp né niður í því, sem ég sagði. (SKr: Það gerði engin!). Ég hefi talið, að hann væri heldur skynugur maður, og ég trúi því vel, að hann sé það, en ég held, að þessi ræða hans sýni, að hann sé heldur seinn á sér að taka eftir hlutunum. Og ég skil ósköp vel, að það sé, þar sem það er heilt ísberg utan um kollinn á honum. Ég var því miður ekki við, þegar hæstv. fjmrh. talaði. Ég hafði ekki búizt við, að hann mundi tala fyrr en eftir kl. 7. Ég heyrði því ekki, hvað hann sagði, en ég hefi þó fengið dálítið ágrip af því frá öðrum hv. þm., og jafnvel honum sjálfum. Í ræðu minni lagði ég áherzlu á það, að skattaöflun fyrir bæjarsjóði og sveitarsjóði lægi fyrir utan tilgang þessa frv. Ég ætla að standa við það, og ég veit ekki til þess, að það hafi verið færð nein rök á móti því, og í öðru lagi var þessi fígúra alveg þarflaus. Í þriðja lagi tel ég, að tekjuskatturinn, og þá sérstaklega hátekjuskatturinn, sé öldungis ófallinn til þess að vera undirstaða undir tekjuöflun sveitarfélaga. Ég þekki engan skatt, sem er ófallnari til þess en sá skattur. Ég játa, að engin ein tekjuöflun sé til þess fallin, en ég býst við því, að ef það ætti að lögleiða einhverja hjálp til sveitarsjóða og ef hún ætti að verða samferða einhverjum tekjustofnum ríkisins, þá ætti að sameina þá öllum öðrum tekjustofnum en einmitt þessum. Ég þóttist tala fullskorinort um þetta í fyrri ræðu minni, en nú veit ég, að það verður ekki um villzt, hverju ég held fram í þessu máli.

Ég skal svo byrja með því, þegar ég sný orðum mínum til foringja Sjálfstfl., að ég á þar alls ekki við hann sem þm., og mundi ég láta mér það í léttu rúmi liggja, ef hann væri aðeins þm. En hann er í þessari virðingarmiklu stöðu, að vera form. stærsta þingflokksins hér á landi, og það er hvað það snertir, sem ég leyfi mér aðeins að koma að honum. Mér fannst nú, að það væri óþarfi fyrir hann að taka þetta illa upp, því að ég þóttist fara alveg sérstaklega vel að honum. Ég fór eins hægt að honum eins og maður mundi fara að styggri og hvumpinni ótemju. Á svari hans finnst mér nú, að ég muni hafa farið sæmilega að honum, eftir því sem unnt var, og ég skal játa það strax, að í þessari ræðu sýndi hann það, að þessi orð mín hafa fallið í allgóðan jarðveg, því að nú síðar fór hann betur að en hann mundi hafa farið áður en ræða mín var flutt. Ég skal því láta það eftir honum að lýsa því yfir, að ég býst við, að hann geti orðið sæmilegur form. síns flokks eftir 100 ár. (ÓTh: Það kalla ég mikla framför). Það eru 1000%. En ég vil láta hv. þm. vita, að það liggur dálítil alvara bak við þetta. Það er ekki eintómt grín. Ég get vel skilið það, að ég sé ekki óvilhallur dómari um verðleika hans sem flokksforingja, og því fremur get ég skilið það, að aðrir liti einnig svo á, enda treysti ég ekki á mína eigin skoðun í þessu efni, heldur fór ég eftir því, sem góðir flokksmenn hans hafa sagt við mig. (ÓTh: Hverjir?). Ég er aldrei vanur að nefna menn, sem eru utan þings, eða skýra í þingsalnum frá einkasamtölum, og það sízt í slíku tilfelli sem þessu. Það var kvöld eitt, að ég var staddur í húsi ásamt flokksmönnum hv. þm. G.-K., mönnum, sem þykir mjög vænt um hann. Þeir lýstu því skýrt og ákveðið yfir, að það, sem þeir teldu flokk sinn vanta mest af öllu, væri að fá hæfan foringja, og þetta sögðu þeir með grátkjökur í kverkunum. Og til þess nú að færa foringja Sjálfstfl. ennþá betur heim sanninn um, að það, sem ég segi um foringjahæfileika hans, sé ekki út í bláinn, vil ég leyfa mér að minna hann á nýársboðskap hans í fyrra, þegar hann setti soramark sitt á Bændafl., og skipaði honum fyrir verkum. Ég held, að það hafi ekki verið hægt að skaða þann flokk meira en gert var með þeirri hugvekju, og það jafnvel þó að borgaðir hefðu verið 3 þús. silfurpeningar fyrir. Ég býst við, að hv. þm. hafi gert þetta af ráðnum hug, a. m. k. þóttist ég sannfærður um það, þegar ég kom á þing í fyrra eftir áramótin, til hvers þetta hefði verið gert, því að þá gerði hv. þm. allt, sem hann gat, til þess að sundra þessum flokki, sem honum svo heppnaðist að lokum. Hversu vel það var ráðið, munu síðari tímar eiga eftir að leiða í ljós. Þá fór hv. þm. að setja ofan í við mig, og gat ekki fundið annað en gamlan og slitinn buxnahnapp, sem riðið hefir verið nokkrum sinnum, en mér er algerlega sama um. Þetta, að ég hafi farið utan til þess að læra mannasiði, er nú orðið nokkuð slitið. Annars játa ég fullkomlega, að ég er ekki svo siðaður, að ég þyrfti ekki einhverju þar um að bæta, og skammast mín því ekkert fyrir það, þó að ég hafi farið utan til þess að sjá mig um í heiminum og kynnast nýjum siðum. Slíkt gera fleiri og þykjast meiri menn af. Og það vil ég segja þessum hv. flokksforingja, að ég myndi glaður greiða atkv. með því að hann færi nú þegar utan sjálfur til þess að læra mannasiði, og fengi til þess ekki 3 þús. silfurs, heldur 30 þús. silfurs, því minna myndi honum ekki duga. Það myndi og hyggilegast, að hann dveldi utan 2—3 ár, fyrst og fremst til þess að læra hina venjulegu mannasiði, og í öðru lagi til þess að kynnast því, hvernig einn flokksforingi á að hegða sér. Gæti hv. þm. lært þetta hvorttveggja, þó að ekki væri nema að einhverju leyti, þá myndi enginn sjá eftir peningunum, sem til fararinnar væru veittir, og hvað mig snertir, þá myndi ég ekki telja, að þeim hefði á annan hátt verið betur varið. Þá var hv. þm. að tala um að ég hefði verið keyptur með umr. utanfararstyrk. Þessu er því að svara, að ég vissi ekki til, að ég gerði neitt það, sem færi í bág við skoðun mína eða stefnu þess flokks, sem ég hefi fylgt, svo þessi staðhæfing hv. þm. kemst ekki vel að. Annars var það svo, að ég bað engan um þetta fé. Ég tók það sem forseti Sþ. (ÓTh: Tók þm. það úr sjálfs síns hendi?). Nei, alls ekki, eða veit ekki hv. þm., að forsetar Alþingis mega sjálfir veita fé, og það hafa þeir oft gert, og því til sönnunar vil ég minna á dálítið tilfelli, sem fyrir kom í sambandi við smáfjárveitingu, sem forsetar höfðu veitt. Hinir umboðslegu endurskoðendur gerðu aths. við fjárveitingu þessa, töldu hana ekki eiga rétt á sér, en svarið við þeirri aths. var það, að forsetar Alþingis væru ekki háðir hinni umboðslegu endurskoðun. Að endingu skal ég svo lýsa því skýrt yfir, að ég var ekki með neinar dylgjur um, að þessi hv. þm. hefði látið kaupa sig; hinsvegar vita það allir, að hann er sá mesti kaupa-Héðinn, sem nokkru sinni hefir átt sæti hér á Alþingi.