13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (2843)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það er aðeins örstutt aths. Þegar hv. þm. G.-K. var að tala um hátekjuskattinn, greip ég fram í og henti honum á, að skattur og útsvar væri árlega dregið frá áður en skattskyldar tekjur væru fundnar. Vegna þessa er rangt hjá honum að draga 17—18 þús. kr. frá 30000 kr. skattskyldum tekjum nú, því það var árið áður dregið frá tekjunum áður en 30000 kr. voru fengnar. Það kemur því hér til greina, hvað skatturinn verður hærri eftir frumvarpi því, sem hér liggur fyrir, en hann áður var, og hvað hann þess vegna fær minni frádrátt eftir að frv. þetta verður að lögum en hann hafði áður. Og þá sýnir það sig, að það eru liðugar 4000 kr. Hafi því maðurinn, sem hafði 30000 kr. skattskyldar tekjur, sömu brúttótekjur áfram og sama tilkostnað, þá lækka skattskydu tekjurnar um 4000 kr. fullar, og þær skattskyldu verða tæpar 26000 kr. í stað 30000 áður.

Þetta er nú allur munurinn, og þetta sér hv. þm. G.-K., þegar hann aðgætir það, að vilji hann fá út sambærilegar tölur, má hann ekki í öðru tilfellinu draga skatta og tekjur frá brúttótekjunum, en í hinu frá skattskyldu tekjunum. Það er enginn samanburður og sæmir ekki hv. þm.

Hv. 6. þm. Reykv. flytur brtt. við frv., sem miðar í þá átt, að fellt verði úr frv., til hvaða fyrirtækis tekjunum skuli varið, svo að það sjáist ekki í l., til hvers þessar tekjur eigi að renna. Hann sagði í því sambandi, að stjórnarflokkarnir, sem að frv. stæðu, ættu að standa naktir frammi fyrir þjóðinni í þessu máli. Já, það er einmitt það, sem þeir eiga að vera. Þessvegna er í 1. gr. frv. tilgreind sú sérstaka útgjaldaþörf ríkisins, sem hinar áætluðu tekjur frv. eiga að mæta og fullnægja. Það er ekki verið að fela neitt eða dyljast með þessu frv. Og það er einmitt þetta, sem hv. andstæðingar frv. eru svo reiðir yfir. Það kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv. eins og hv. þm. G.-K., að þeir kunna ekki við, að það sjáist í l., hver þessi nauðsynlegu og vinsælu verkefni eru. Þeir vilja ekki nota hin réttu nöfn. Þessum hv. þdm. finnst það víst sæma betur að nota ýmiskonar rangnefni í ræðum sínum hér í þd. og uppnefna einstaka þdm. — Hv. þm. G.-K. talar nú sífellt um einhvern „ókjörinn“ eða „þingkjörinn“ þm. Ég held, að sú framkoma sé þessum hv. þm. til lítils sóma. Við, sem stöndum að þessu frv., viljum láta það sjást raunverulega, hvað meint er með því. Við kærum okkur ekkert um að dyljast fyrir þjóðinni, eða forðast að nefna hlutina sínum réttu nöfnum, eins og hv. andstæðingum þessa frv. er svo tamt, og hefir alltaf verið. — Þess vegna greiði ég atkv. gegn brtt. hv. 6. þm. Reykv. Ég vil vera, en ekki sýnast; hann vill sýnast og hylja sig fölskum flíkum, af ótta við minnkandi fylgi, ef sannleikurinn sest.