13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (2846)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal vera stuttorður um þetta mál. Það er þegar búið að taka fram, að ég hygg, flest ef ekki allt, sem hægt er að segja, að mæli með því, og eins það, sem mælir gegn því.

Ég hygg nú að eftir þessa umr. og allt það, sem um málið hefir verið skrifað, sé öllum það ljóst, að það er mikil skattpíning, sem á að framkvæma, verði þetta frv. að lögum. Þessa skattpíningu á að framkvæma til þess að mæta útgjöldum, sem leiðir af hinum ýmsu lagafyirmælum, sem nú liggja fyrir til afgreiðslu. Ég held, að engum geti blandazt hugur um, að þetta er gert á kostnað atvinnuveganna, í stað þess, að nú hefði einmitt þurft að leggja fram alla krafta til þess að rétta við atvinnulífið, því það dylst engum og er játað af öllum stjórnmálafl., að fyrsta skilyrðið til þess, að þjóðin geti reist sig úr þeim vandræðum, sem hún nú er í, sé, að atvinnuvegirnir geti borið sig svo vel, að fólkið geti af þeim lifað. Þetta er mjög áberandi skoðun og kemur fram fra stjórnarliðinu sjálfu, þar sem þeir næstum keppast við hver um sig að lýsa því yfir, að sú stefna, sem þeir helzt hefðu kosið í þessum málum, hefði ekki náð fram að ganga, vegna þess að einn aðilinn hefði ekki getað á hana fallizt.

Í yfirlýsingu um sum af þessum samningsmálefnum milli stjórnarfl. er svo komizt að orði í Nýja dagbl. í dag, um atvinnuleysistryggingarnar, að 5. kaflinn í því frv. sé langhæpnastur. Úr því að svo er komizt að orði, að hann sé „hæpnastur“, þá er með því gefið í skyn, að hinir kaflarnir séu líka a. m. k. hæpnir.

Það er ekki nokkurt vafamál, að á þeim tímum, sem nú standa yfir, er verið að velja óheppilegasta tækifærið til þess að koma í framkvæmd málum, sem að mörgu leyti — a. m. k. einstakir liðir þeirra — hafa fullkominn rétt á sér.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. meira hvað þetta snertir, en ég vil aðeins biðja hæstv. forseta um leyfi til þess að fara nokkuð út fyrir efnið, af því að mér gafst sérstakt tilefni til þess í kvöld frá hv. 2. landsk. — Hv. 2. landsk. vék að afgr. mála hér um daginn í þessari hv. d., m. a. tryggingalöggjafarinnar. Í því sambandi sagði hann margt spaugilegt, sem ég ætla ekki að rifja hér upp, en það, sem mér skildist á hans ræðu, var það, að ég hefði orðið til þess að bjarga fimmta kafla tryggingarlöggjafarinnar, atvinnuleysistryggingunum. Hv. þm. nefndi að vísu ekki mitt nafn, en af því að grein um sama efni var búin að koma út í Tímadilknum — Nýja dagbl. —, þá þóttist ég vita, hvert hann sínum skeytum vildi beina, þó að kjarkurinn og djarfmennskan væri ekki meiri hjá þessum buxnahnappariddara en það, að hann vildi ekki tilgreina nafn mitt.

Nú er bezt að líta á þetta mál, úr því að búið er að gera það að umræðuefni og blaðamáli, og rekja það nokkru nánar, til þess að vita, hvað mikill sannleikur muni felast í þessum dylgjum, sem hér eru á ferðinni. Þessi hv. þm. lét alldólgslega við afgreiðslu þessa máls, og það kom berlega í ljós, að hann hafði fyrzt við stjórnarfl. fyrir það, að þeir höfðu ekki talað sérstaklega um afgreiðslu þessa máls og álitið hann svo öruggan og tryggan og e. t. v. haldið, að hann þyrði ekki að hreyfa sig, og þess vegna látið niður falla að spjalla við hann. Hv. þm. gerði sér því til gamans að gera sig dálítið merkilegan og láta líta svo út, að hann mundi fella niður allan kafla frv. Þetta þótti mér ánægjulegt og ætlaði að veita honum mitt fylgi til þess að svo mætti verða, því að ég álít, eins og Nýja dagbl. heldur fram, að hann sé langhæpnastur og meira að segja stórskaðleg braut, sem þar ef farið inn á. Hv. þm. felldi 1. gr. þessa kafla, en áframhaldið varð ekki eftir því, því að næstu grein setti hann á alveg skilyrðislaust, svo að það var auðséð, að hann ætlaði að láta kaflann halda sér, þó að hann væri á móti einstökum greinum, til þess að sýna stjórnarliðinu, að betra væri að sýna sér fulla kurteisi og tala við sig eins og hvern annan þm., sem stjórninni vildi styðja. Þetta kom fljótt í ljós, en það var dálítið hæpin afstaða, þegar hann var að velja greinarnar, því að tvær þær greinar, sem hann ætlaði að ráðast á í frv. þegar hann var búinn að fella 1. gr., voru einmitt þær greinar, sem helzt eru til þess að draga úr þeim skaðlegu áhrifum, sem kaflinn kann að hafa. Það voru því þær greinar, sem hv. þm. réðst á, er helzt hefðu átt að verða eftir, ef eitthvað hefði á annað borð átt að vera eftir. Ég verð að játa það, að ég vildi ekki láta fella þessar greinar úr frv., því að ég álít þær nauðsynlegar og vildi gjarnan, að þær takmörkuðu meira en þær gera. Þegar borin var upp brtt. um að herða á þessum takmörkunum, greiddi ég atkv. með henni. Svo kom það greinilega í ljós, að hv. þm. (MT) var ekki alvara, heldur voru það aðeins látalæti. Ég vissi það fyrirfram, og enda búinn að segja, að hvað sem hv. þm. gerði við þessa umr., mundi hann éta það allt ofan í sig við seinni afgreiðslu málsins. Þetta kom líka í ljós, þegar búið var að hnýta upp í hann og þeir voru búnir að fá sér góðan reiðspöl á honum, þá fór hann að mýkjast og samþ. nú allt, sem hann var áður búinn að vera á móti. Svo gersamlega át hv. þm. þetta ofan í sig aftur, að það má segja, að greinarnar séu teknar upp aftur lið fyrir lið og orð fyrir orð, aðeins bætt við þessari setningu: „Atvmrh. hefir eftirlit með starfsemi sjóðanna“. Ef þetta hefir verið svona stórt atriði fyrir hv. þm., þá hefði hann átt að bera fram þessa litlu brtt. við frv. í upphafi og samþ. það svo. Ef hv. þm. hefði verið svona mikið áhugamál, sem ég trúi ekki, að spilla þessum kafla með því að fella niður þær takmarkanir, sem fólust í 67. og 68. gr., þá er ég ekki í nokkrum vafa um, að hann hefði getað fengið stjórnarliðið til þess að gera þar á einhverjar breyt., því að vitanlegt var, að þessi hv. þm. hafði þá aðstöðu að geta fellt niður allan þennan kafla strax í upphafi, ef svo hefði borið undir, og jafnvel frv. allt.

Ég vildi taka þetta fram sérstaklega, og vona ég, að hæstv. forseti verði ekki styggur við mig út af því, af því að þetta sérstaka tilefni gafst til þess hæði frá þessum hv. þm. og svo vegna blaðaskrifa um þetta í dag. — Ég skal svo aðeins nota tækifærið líka til þess að svara þeim dylgjum, sem komu fram í ræðu hv. 2. landsk. og í þessari ritgerð í Nýja dagbl. í dag, að það hafi farið fram einhverskonar verzlun milli mín og sósíalista og að ég hafi sezt á tali við Jón Baldvinsson, Harald Guðmundsson og jafnvel Héðin Valdimarsson. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurntíma lagt þann sið niður að tala við þessa þm., jafnvel ekki Héðinn Valdimarsson, hv. 2. þm. Reykv. Svo er það ekki ný bóla, þó að þm. talist við. Það er því einkennilegur hugsunarháttur hjá stjórnarliðinu, að það sé einhver stórmerkur viðburður, þó að þm. ræðist við. (Fjmrh.: Þegar það eru heilir flokkar!). Það ætti ekki að vera stjórnarfl. undrunarefni, þó að flokkar ræðist við, jafnvel þó að það séu andstöðuflokkar. — Um þá greiðslu, sem talað er um, að ég hafi fengið fyrir þetta — að halda þessum takmörkunum í frv. —, þá er því til að svara, að ég hygg, að það geti enginn þm. borið það á mig, að ég hafi talað um stuðning þeirra við fjárframlagið til Vesturhópsvegarins fyrr en eftir að ég hafði borið fram brtt. við fjárlagafrv. En þá var hitt málið orðið afgr. fyrir nokkru. Þeir ættu því a. m. k. að leiða fram einhverjar líkur fyrir því, þó að ekki séu heimtaðar sannanir, að ég hafi farið fram á þann stuðning áður en mín brtt. kom fram. Fyrir þessari fjárveitingu hefi ég talað á þingi áður, en kannske tekizt einna bezt nú, því að ég hygg, að menn hafi sannfærzt um það, að ekki er hægt að vera á móti jafnsanngjörnu fjárframlagi og þessu. Gæti ég bezt trúað, að sósíalistar hefðu beinlínis greitt þessu atkv. til þess að fullnægja kröfum frá flokksmönnum sínum norður þar, sem hafa þótzt vera mjög settir hjá að því er snertir vinnu við vegagerð í því héraði. En hvað það hefir verið, sem hefir valdið því, að framsóknarmenn greiddu atkv. móti þessu fjárframlagi, skal ég ekki segja um, en það sýnist hafa orðið þeim til mikillar gremju, að þessi litla fjárhæð var veitt til þessa litla vegar. Það er kannske af löngun til þess að gera íbúum V.- Húnavatnssýslu sem allra örðugast fyrir, af því að þeir hafa ekki kosið fulltrúa á þing eftir þeirra kokkabókum. En það væri hart, ef ætti að hegna Vestur-Húnvetningum fyrir það um alla framtið, því að það má þessi flokkur eiga víst, að hann fær aldrei kosinn fulltrúa í Vestur-Húnavatnssýslu.