13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (2847)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Það er í raun og veru margt, sem ég þurfti að segja, en af því að þetta er í þriðja skiptið, sem ég tek til máls, þá verð ég að fella talsvert mikið niður af því, sem ég vildi hafa sagt.

Það er sérstaklega eitt atriði, sem ég tel mér skylt að svara, sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. og er mjög villandi, endurtekning, leiðinlegur og villandi rógur um fjármálastjórn Reykjavíkur. Ég hefi heyrt þetta svo oft, að mér er farið að leiðast það, að Reykjavík sé stjórnað svo illa, hvað hún standi sig illa fjárhagslega og hvað það sé óforsvaranlegt, hvað útgjöldin til bæjarins fari stöðugt hækkandi. Alltaf heyrist þetta úr sömu átt, þ. e. frá þeim flokkum, sem styðja núv. stjórn. Fyrst þetta er nú komið fram í sambandi við það tekjuöflunarfrv., sem ber liggur fyrir, þá sé ég mér ekki annað fært en að mótmæla því með nokkrum orðum.

Það er í fyrsta lagi mjög blekkjandi að bera saman tekjuöflun ríkissjóðs með beinum tekjustofnum og tekjuöflun bæjarsjóða, þar sem það er vitanlegt öllum mönnum, að bæjarfélögin hafa í raun og veru enga aðra tekjustofna heldur en tekju- og eignarskattinn, sem kallaður er útsvar. En ríkissjóður leggur fjölda skatta og tolla á landsfólkið, og þetta er ekki nema einn af öllum þeim fjölda. En ég vildi svo í þessu sambandi, úr því að þetta mál er komið inn á Alþingi, sem annars hefir venjulega verið haldið utan þings og verið flutt fyrir fólkið út um byggðir landsins, geta um það hér, hver framkoma stjórnarfl. í bæjarstjórn Rvíkur hefir verið, þegar um eyðslu bæjarins er að ræða. Ég hefi kynnt mér, ekki aðeins reikninga bæjarins, sem nú hafa verið sendir þm., heldur einnig fjárhagsáætlanir bæjarins frá bæjarráði og allar brtt. við þær, sem komið hafa fram frá flokkunum. Það kemur dálítið einkennilega út, að við fjárhagsáætlunina í fyrra — en brtt. við þá síðustu hefi ég ekki séð — komu ekki núv. stjórnarfl. í bæjarstjórn með neina lækkunartill. nema sósíalistar, þeir komu með 30 þús. kr. lækkun á fátækrastyrk. Þeir hafa ekkert haft við þessa eyðslu að athuga, sem þeir eru alltaf að ámæla meiri hl. bæjarstjórnar Reykjavíkur fyrir og heimfæra upp á Sjálfstfl. í heild. Þeir hafa ekki haft við neitt að athuga nema þessa einu áætlunartill., fátækraframfærið, sem alltaf er lægra áætlað en það reynist að vera. — En aftur á móti komu stjórnarfl. með hækkunartill. upp á 3 millj. króna.

Finnst þessum mönnum von til þess, að maður geti þagað við svona augljósum ósannindum, að sjálfstæðismenn séu með óhóflegt fjárbruðl í bæjarstj. Rvíkur og að þeim farist ekki að tala um frv. eins og hér liggur fyrir?

Ég held, að úr því að hér á þingi eru saman komnir menn, sem sæti eiga í bæjarstj. fyrir hina ráðandi flokka, að þeir ættu ekki að láta sína samherja vaða uppi með aðra eins fjarstæðu, því að það getur ekki orðið til annars en þess, að maður neyðist til þess að hirta þá fyrir þessar álygar, blekkingar, ósannindi og rógburð. Annars skal ég víkja að því nokkrum orðum, hversu það er óforsvaranlegt í alla staði að koma með svona tolla- og skattafrv. í þinglok. Þetta þing kom saman 15. febrúar í fyrravetur og hefði því gefizt nægur tími til þess að athuga, hvort fjárlagafrv. gæti staðizt. Og svo er því frestað til þess að gera athugun á því, hvort fjárlfrv. geti staðizt, og loks þegar framhaldsþingið er búið að standa í hálfan annan mánuð, eða fram í nóvemberlok, kemur til 1. umr. í fyrri d. frv., sem hefir í för með sér nýjar álögur upp á aðra millj. kr. Svo eru flm. þessa frv. með allskonar skæting og hníflastungur til þeirra manna, sem eru með fáum orðum og hógværum að finna að þessum risaálögum á síðustu dögum þingsins, og frekjan er svo mikil, að það fæst ekki einu sinni að athuga þetta í n., fjhn. þessarar d. fær ekki einu sinni að athuga málið í friði.

Hæstv. fjmrh. sagði hér til afsökunar því, að hann áætlar hér 950 þús. kr. tekjur til þess að standast útgjöld, sem hann sjálfur áætlar 550 þús. kr., að það væri halli á fjárl. eins og þau væru nú, og þessi mismunur væri ætlaður til að standast hann. Hvernig getur nú hæstv. ráðh. andmælt því harðlega, að þetta fé, sem ætlunin er að afla með þessu frv., eigi að vera til þess að mæta halla á fjárl., eins og ég lagði til í minni till., að það væri látið heita. Hæstv. ráðh. mótmælti því harðlega og sagði, að það væri að fara með fals. Svo kemur hann með þá afsökun. þegar bent er á þennan mikla mismun á tekjuöflununni og áætlun þeirra útgjalda, sem hún er sérstaklega talin eiga að mæta, að hann eigi að vera til þess að standast halla á fjárl. Þetta er nú að fara allharkalega í gegnum sjálfan sig af sjálfum fjmrh.

Ég skal svo, af því ég sé, að hæstv. forseti er orðinn óstilltur, bæði af því honum þykir ég taka of langan tíma og að þetta er náttúrlega ekkert þægilegt fyrir hæstv. stj. og stjórnarflokka, fella þetta af. En ég vil að lokum taka fram, að hæstv. ráðh. hefir ekki, og enginn af hans stuðningsmönnum, ennþá með einu einasta orði reynt að verja það, sem ég deildi hér á stj. fyrir áðan, að hún hefði farið algerlega með rangt mál og blekkingar í því, að þessar tekjur ættu að verða til þess að styðja atvinnuvegina, vegna þess að þær hljóta að verða teknar af atvinnuvegunum, og þar sem það, sem þær eru atlaðar til að greiða, verður á engan hátt til þess að styðja atvinnuvegina, heldur hið gagnstæða. Hæstv. fjmrh. svaraði þessu engu. (Fjmrh.: Það hafa margir svarað því). Ekki einu einasta orði, og ég tek það svo, að á þetta sé fallizt.