13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er meira en hæpin fullyrðing hjá hv. 2. landsk., að þáv. forsrh., Tryggvi heitinn Þórhallsson, hafi fallizt á það, að hann færi utan. Allir flokksmenn hans á þeim tíma vissu, að hann fór á móti vilja ráðh. í stj. (MT: Það eru nú lifandi menn úr þeirri stj. enn). Það liggur í augum uppi, að hv. þm. fer með rangt mál, þegar hann kemur með þessa fullyrðingu. Hvað átti hann að gera utan? Hvers vegna telur hann ekki upp neitt af því? var hann ómegnugur þess, að gera nokkuð af því, sem hann átti að gera, og treysti hann sér ekki til þess að koma á alþingishátíðina af því? Hann segir, að sér hafi verið tjáð það 1929, að það væri ætlunin að láta forsetatignina ganga milli manna í flokknum. En svo segir hann, að hann hafi verið kosinn forseti hvert árið eftir annað. En hann var aldrei kosinn forseti eftir 1929. (MT: Þetta er misskilningur). Það er kannske misskilningur eins og allt annað, sem hv. þm. segir. Hann var kosinn forseti 1928 og 1929. Það var ekki Magnús Kristjánsson, sem kom honum í þessa stöðu. Það er ósannaður fréttaburður frá hv. þm. S.Þ., að Magnús Kristjánsson hafi sett nokkur skilyrði, þegar hann gekk í Framsfl. í kosningunum 1927. Hann hafði áreiðanlega ekki sett nein skilyrði um það, að þessi hv. þm. væri kosinn forseti. Sá þm., sem olli því, að hv. 2. landsk. var ekki kosinn forseti 1930, var þáv. hæstv. forseti. Og ég er ekki að álasa hæstv. núv. forseta, þó að ég segi, að hann hafi ekki komizt þangað, sem sá forseti komst á þeim þingum, sem hann var forseti á. Það er alls ekki sagt öðrum til hnjóðs, þó að sagt sé, að hann hafi verið sá skörulegasti forseti, sem við höfum haft um marga áratugi.

Um þennan fyrirlestur, sem ég á að hafa haldið honum til ófrægingar, er það að segja, að hann var þannig, að hv. þm. S.-Þing. gat ekki svarað neinu þeirri ádeilu, sem ég bar á hann, að hann hefði sagt rangt frá staðreyndum. Það er ekki ádeila á hv. 2. landsk., þó að sagt sé, að flokksmeun hans hafi ekki viljað hafa hann fyrir forseta 1930. Hann studdist aldrei nema við sáralítinn meiri hl. í þinginu, og munaði það víst ekki nema 1—2 atkv. 1928. Þetta hlýtur hv. 2. landsk. að muna, ef hann á annað borð vili muna það.

Þá vil ég spyrja hv. þm. að því, þar sem hann var að tala um, að það hefði ekki mátt fella niður 5. kaflann í tryggingarmálunum, hvort hann hefði ekki getað komizt að samningum við stjórnarflokkana um að orða kaflann upp. Ef hann hefði byrjað á því að fella hann alveg, þá hefði hann haft betri skilyrði til þess að fá hann orðaðan upp eftir sínu höfði. Þetta gerði hann ekki, og það var af því, að eftir að hann var búinn að halda sína ræðu, þá var hann settur í gapastokk. Hann var settur í gapastokk strax og hann kom á þing, og það hefir alltaf verið hert að honum þar, svo að hann er þegar pólitískt dauður, þó að hann hangi hér á þingi vegna rangrar ályktunar meiri hl. þings. — Ég get svo látið lokið máli mínu. Hv. þm. kemst aldrei utan um það, að hann hefir orðið að éta ofan í sig allt, sem hann sagði í upphafi árásarræðu sinnar.