13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Ég veit ekki, að hve miklu leyti hæstv. forseti hefir beint til mín þessum ummælum sínum, og vildi ég því gjarnan fá að vita það nánara hjá hæstv. forseta. (Forseti: Ég vona, að tilheyrendur mínir hafi heyrt það, sem ég sagði, og skilið það, og læt ég hvern og einn um það, að hve miklu leyti hann tekur það til sín). Ég er frsm. í þessu máli og hefi því tekið hér oftar til máls, og vildi ég því vona, að hæstv. forseti kvæði skýrara á um, að hve miklu leyti ummæli hans eru meint til mín. Að ég hefi farið út fyrir efnið, er að gefnu tilefni frá einum hv. þm., og vil ég ekki liggja undir því og tel ekki ástæðu til, þar sem hæstv. forseti áleit svo miklu máli skipta að blanda sér í þetta atriði, að hann fór úr forsetastól til að tala í þessu deilumáli. En ég skal upplýsa það, að hann átti ekkert erindi; hann gaf engar upplýsingar í málinu og má því illa ávíta aðra þm. fyrir að minnast hér á þetta atriði. Hann upplýsti ekkert nema um samtöl við Tryggva sál. Þórhallsson, sem við vissum allt saman, af því Magnúis Torfason hefir upplýst það áður, — ég kalla hann með nafni, eins og hæstv. forseti gerði, og kann ekkert illa við það. — Þetta samtal veit annars enginn um eða hvort fyrrv. forsrh. hefir samþ. þennan styrk, sem ég kannast ekki við fyrir mitt leyti að hafa dregið hér inn í umr. En þarna hafa menn séð dregna fram eina mynd úr baktjaldamakki stjórnmálamanna. Það, sem skeði, var ekki annað en að þáv. forseti úthlutaði sjálfum sér styrk upp á eindæmi, og svo upplýsist, að hæstv. forsrh. þáv. hafi ekki séð sér annað fært en gefa jáyrði sitt við eftir á. Ef ennþá vakir nokkur réttlætiskennd meðal þm., þá hafa þeir gott af að heyra svona sögur.

Þá hefir fjarverandi maður verið dreginn hér inn í umr. á mjög ósmekklegan hátt. Það var gert af M. T., sem gat þess, að Ásgeiri Ásgeirssyni hefði verið potað upp í forsetastól af því að hann var mágur Tryggva sál. Þórhallssonar. Þetta var sannarlega ekki af því, að Ásg. Ásg. væri tengdur forsrh. þáv., heldur fyrst og fremst það, að hann var vitanlega hvergi nærri sambærilegur við M. T. um, hvað sá fyrrnefndi bar langt af, og Ásg. Ásg. hafði þá kosti til að bera, að þjóðin má því vel una, að hann var forseti Sþ. á 1000 ára afmæli Alþingis. Ég tel þetta með því bezta, sem hent hefir á slysaferli Framsóknar og sósíalista, að þeir skyldu velja svo virðulegan mann og Ásg. Ásg. til að vera fánabera fyrir alheimi, þegar mest reið á, því sannarlega var hann sá þeirra, sem bezt var til þess fallinn.