17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (2868)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. frsm. málsins hefir gert grein fyrir ástæðunni til þess, að brtt. þessi kom fram við frv. á þskj. 841, og ætla ég ekki að fara frekar út í það. En út af því, að hv. þm. G.-K. sagði áðan, að það væri óviðkunnanleg aðferð að koma með stórar till. í sambandi við frv., sem komin eru langt áleiðis í þinginu, ætla ég að segja nokkur orð.

Hv. þm. kannast að sjálfsögðu við það, að þetta á ekki að koma þingheimi eins á óvart og hv. þm. vill láta í veðri vaka, því að hv. fjvn. hefir byggt sínar till. við fjárl. á því, að samþ. yrði á þessu þingi einhver viðbót við benzínskattinn, og í nál. er sagt á einum stað, að n. búist við, að benzínskatturinn verði hækkaður. Ég skal játa, að æskilegt væri, að stórar og umfangsmiklar till. gætu gengið á venjulegan hátt í gegnum allar umr., en við vitum það vel, að meðferð mála hér á þinginu er og hefir alltaf verið þannig, að það hefir borið á því meira og minna, að brtt. hafa komið fram við mál á ýmsum stigum málsmeðferðarinnar. Til þess að sýna fram á, að það, sem hér hefir verið gert, er ekkert einsdæmi, skal ég taka eitt dæmi, sem er svipað þessu. Árið 1933 var flutt af hálfu ríkisstj. frv. um framlengingu á gengisviðauka á ýmsum tollum. Þegar málið var búið að ganga gegnum Ed. og komið til 3. umr. í Nd., þá var fyrir tilmæli þáv. fjmrh. flutt brtt. við frv., og hafði hún í sér fólgna tekjuöflun til ríkissjóðs, sem nam milli 600 og 700 þús. króna, sem sumpart var falið í viðauka á kaffi- og sykurtolli og sumpart í 40% viðauka á tekju- og eignarskatti. Af þessu sést, að það sem hér er verið að gera, er ekkert sérstakt í sinni röð, enda þótt það væri vitanlega æskilegt, að allar till. gætu komið fram sem fyrst á þinginu og fengið venjulega meðferð.

Um málið sjálft vil ég segja það, eins og hv. frsm. n. sýndi greinilega fram á, að benzínskatturinn er miklu lægri hér en í nokkru öðru landi, sem vegamálastjóri hefir fengið upplýsingar um, og munar þetta svo miklu, að það mun láta nærri, að hann sé aðeins rúmlega 1/3 hér á landi af því, sem hann er lægstur annarsstaðar. Og það sjá allir, að hér á landi er sennilega meiri kostnaður við vegi en í mörgum þessara landa, vegna fámennis þjóðarinnar. Þegar á þetta er litið, þá sé ég ekki ástæðu til þess að rjúka upp á nef sér, þótt farið sé fram á hækkun á þessum tolli, þegar því er slegið föstu, að allur viðaukinn gangi til þess að gera betri vegi. Eins og fjárhag ríkissjós nú er háttað, er ómögulegt að búast við, að unnt sé að sinna miklum vegabótum, eins og nauðsyn rekur til, nema með því móti að afla ríkissjóði tekna á þann hátt, sem hér er farið fram á. Og þó menn mæli á móti þessu, sem ég er ekki hissa á, að hv. stj.andstæðingar geri, þá álít ég, að ef menn líta á alla málavexti, þá ættu þeir að geta sannfærzt um, að þessi hækkun á skattinum er ekkert óeðlileg, og ég verð að segja, að mér finnst það sæta undrun, hversu lengi þessum skatti hefir verið haldið eins lágum og hann er nú lögum samkvæmt, með tilliti til þeirra örðugleika, sem á steðja.