17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (2869)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Mér datt í hug, að hv. þm. G.-K. myndi vilja minnast á „litla og ljóta“ frv. um benzínskatt við þetta tækifæri, en ég verð að segja, að það er ekki mikill samjöfnuður á milli þessara tveggja frv. Eins og málið lá fyrir, var í rauninni ekki um annað að ræða en það, að hv. þm. G.-K. vildi koma skattinum af einkabifreiðum og yfir á vöru- og fólksflutningabifreiðir. Annað vakti ekki fyrir hv. þm. Hann segir, að hann hafi ekki hugsað sér neina tekjuöflun með þessu. Alþfl. barðist á móti þessum skatti þá, og eins seinna, þegar átti að leggja á 4-aura gjaldið, sem varð að l. 1932, og sögðum við þá eins og nú, að það væri öðru máli að gegna í þessu efni, ef benzínskatturinn væri að svo og svo miklu leyti notaður til þess að gera þeim, sem stunda bílflutninga, auðveldara að stunda atvinnugrein sína. Nú í ár er öðru máli að gegna um þennan skatt heldur en undanfarin ár, og koma þar tvær ástæður til greina; í fyrsta lagi er fjárþröng ríkissjóðs mikil, og í öðru lagi eru horfur á miklu atvinnuleysi hjá landsmönnum. Af þessum horfum leiðir, frá sjónarmiði Alþfl., aukin hætta á því, að hinu opinbera takist ekki að halda uppi afkomu landsbúa á viðunandi hátt. Til þess að koma í veg fyrir þessa hættu, verður vitanlega að fara einhverja fjáröflunarleið, og fyrir utan þær, sem eru þegar farnar, hefir verið ráðizt í - til þess að auka atvinnu í landinu - að leggja á þennan sérstaka skatt, sem skýrt er tekið fram, í hvaða vegi á að ganga. Hv. þm. G.-K. ætti að lesa listann yfir þá vegi, sem skattaukinn rennur til, en hann á t. d. að ganga til Suðurlandsbrautar og Hafnarfjarðarvegar, Holtavörðuheiðarinnar, sem mestum óþægindum veldur fyrir ferðir milli landsfjórðunga, til vegar frá Reykjavík og inn að Elliðaám, til Geysisvegar frá Múla og loks til Austfjarðavega.

Þetta eru allt vegakaflar, sem mjög mikils er um vert, að fáist gerðir betri. Það er áreiðanlegt, að hvað sem benzínskattinum líður, þá er það án efa til mikilla hagsbóta fyrir þá sem stunda fólksflutninga, að þessar vegabætur og vegagerðir verða framkvæmdar, og þá er þetta ekki síður mikill hagnaður fyrir verkamennina, sem við vegagerðina vinna. Nú segir hv. þm. G.-K., að þessu sé aðeins lofað á meðan verið sé að koma þessum skatti á, en svo verði allt svikið á eftir. Hv. þm. getur spáð hverju sem honum þóknast í því efni; það gerir hvorki til né frá. En ég veit ekki, hvernig þessi hv. þm. og hans flokkur greiðir atkv. í framtíðinni; það getur vel verið, að þeir verði á móti því að leggja kostnað í vegi til mikilla hagsbóta fyrir flutninga. Við Alþfl.-menn höfum gert það að skilyrði, að þessi nýi skattur gangi til veganna og að hann nái aðeins til eins árs í senn, þannig að ef við fáum að ráða, þá verði það komið undir okkar samþykki, hvernig skattinum verður varið, ef halda á áfram á þessari braut. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að þær leiðir til bráðabirgðatekjuöflunar fyrir ríkissjóð, sem hv. þm. G.-K. hefir verið að fjargviðrast út af á þessu þingi, eru yfirleitt þær sömu, sem gerðar hafa verið af hans flokksmönnum. En Alþfl. vill nota þessa aukningu til þess að fullkomna vegina og til þess að auka jafnhliða atvinnu í landinu, en ekki til þess að hafa skattinn fyrir tekjustofn handa ríkissjóði.