17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (2874)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Þessi nýi benzínskattur, sem nú á að fara að leggja á, mun eiga að ganga í sérstakan sjóð, og hann á svo að ganga til ákveðinna framkvæmda. Það er búið að lýsa yfir, ég held af öllum, sem hafa talað úr stjórnarliðinu, að þessum peningum eigi að halda sér, og að þeim eigi að verja til vegalagninga víðsvegar um land og til malbikunar á veginum frá Reykjavík að Elliðaám. Ég hirði ekki að telja upp, hvað mikið á að ganga til hvers vegar, en brtt. á þskj. 824 hér það með sér. Ég ætla ekki heldur að fara til í þær deilur, sem hér hafa staðið um það, hvort menn hafi verið með eða móti benzínskattinum áður. Ég skal lýsa því yfir, að ég er yfirleitt á móti því að hækka þennan skatt. En ég þykist skilja af þeim bægslagangi, sem sérstaklega hv. 2. þm. Reykv. hefir gengið hér, að þetta sé alveg ráðið og verði ekki um þokað, að þessi skattauki eigi að ganga fram. Og þegar það er svo, að það er ákveðið af stjórnarliðinu, að þessi skattur skuli lagður á, hvað sem andstæðingar þeirra segja, og ennfremur þegar það er ákveðið og margyfirlýst, að þessir peningar eigi að ganga til ákveðinna framkvæmda á meginlandinu, Þá vil ég benda á þá sérstöðu, sem mitt kjördæmi hefir í þessu efni. Ég get ekki gengið framhjá því að minna á, að vegabætur og annað slíkt, sem unnið er hér á meginlandinu fyrir þetta fé, það kemur okkur Vestmannaeyingum og bílaeigendum þar að engu gagni. Hinsvegar er þar fjöldi bíla, og eftir því sem benzínsalan hefir verið þar síðasta ár, þá mun þessi viðauki á benzínskattinum, nema 5-6 þús. kr. Ég álít þess vegna, að ég fari með fulla sanngirniskröfu á hendur þeim stjórnarvöldum, sem að þessari skattaukningu standa, þegar ég fer fram á, að bílaeigendur í Vestmannaeyjum fái að njóta þeirrar skattaukningar, sem þeir greiða, alveg eins og bílaeigendur á meginlandinu. Ég mun fara fram á það við hæstv. forseta að fá að koma með skrifl. brtt. í þessa átt; sést þá, hvað réttlætið gengur langt hjá stjórnarliðinu í garð Vestmannaeyja. Ég hefi sýnt fram á, að þessi aukning á benzínskattinum í Vestmannaeyjum nemi um 5-6 þús. kr. Sé svo, að þessu eigi að verja til þess að bæta vegina hér og gera bílunum léttara fyrir, finnst mér ómögulegt móti því að mæla, að þetta sé gert líka í því kjördæmi, sem hefir sérstöðu í málinu. Ég vil spyrja hv. frsm. meiri hl. að því, hvort honum finnist ekki sanngjarnt, að þessi skattauki komi að notum á þeim stað, sem hann er greiddur.

Ég skal svo víkja að brtt., sem ég á hér, viðvíkjandi ávöxtum og grænmeti. Ég vil í því sambandi minna á, að við 2. umr. þessa máls bar ég fram brtt. þess efnis, að ávextir og grænmeti yrði ekki skattlagt með þessum nýja 25% skatti. Þessi brtt. var felld og út úr henni spunnust nokkrar umr. milli mín og hæstv. fjmrh. Hann hélt því fram, að þeir væru ekki svo nauðsynlegir, að nokkuð væri gerandi til þess að undanþiggja þá þessum nýja tolli. Hæstv. ráðh. hélt því fram, að vel mætti komast af án þessara hluta. Síðan þessar umr. fóru fram hafa hinu háa Alþingi borizt áskoranir frá Læknafélagi Reykjavíkur, sem snertir einmitt þessa deilu, sem ég lýsti milli mín og hæstv. ráðh. Ég skal þó taka fram, að ég á engan beinan þátt í því, að þessi áskorun hefir borizt þinginu. Hitt má vera, að þessar umr. um þessa framkomnu till. mína hafi vakið athygli læknanna. Ég skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þessa áskorun, sem hljóðar svo: „Á fundi Læknafélags Reykjavíkur 9. des. 1935 var eftirfarandi till. samþykkt: Fundurinn mótmælir eindregið, að lagðir verði nýir skattar á grænmetistegundir og ávexti, en skorar hinsvegar á þing og stj. að sjá um, að tollum verði létt af þeim og innflutningur gefinn sem frjálsastur, svo að öllum almenningi verði kleift að njóta þessara fjörefnaríku og heilnæmu fæðutegunda“.

Nú er af þessu sýnt, hvað læknarnir leggja til í þessu efni. Ég get bætt því við, að ég átti tal við einn lækni hér í bænum í gær, og hann lagði ríka áherzlu á að reyna að bægja sem mest öllum innflutningshömlum og tollaálögum frá þessari vörutegund. Ég ætla ekki að fara að metast við hæstv. fjmrh. eða deila á hann fyrir það, sem hann hélt hér fram við 2. umr. En ég vil benda hæstv. ráðh. á, að þegar Læknafélag Reykjavíkur finnur ástæðu til að senda Alþingi erindi eins og það, sem hér liggur fyrir, út af einni fæðutegund, þar sem lögð er áherzla á, að nauðsynlegt sé, að innflutningur þessarar vörutegundar sé sem frjálsastur og að hún sé sem minnst tolluð, sökum þess, hvað hún er fjörefnarík og heilnæm, þá er ástæða til að taka það til greina. Ég veit, að hæstv. ráðh. og hv. dm. munu vera sammála um það, að læknastéttin hér í bænum sé að menntun til atgervileg og standi fyllilega jafnfætis stéttarbræðrum þeirra í öðrum löndum. Og er engin ástæða til að ganga framhjá því, þegar þeir skipta sér af svona málum. Ég þykist vita, að hv. þm. séu sammála um, að full ástæða sé fyrir okkur leikmenn í þessum efnum að gefa því gætur, þegar læknafélag þessa bæjar mælist til og leggur til, að svo sé farið með þetta mat eins og segir í skjalinu. Nú fer ég ekki fram á það, að fullnægt sé kröfum Læknafélags Reykjavíkur, vegna þess að ekki er hægt að koma því við að öllu leyti. En sú till. var flutt fyrir skömmu að bægja 25% tollinum frá þessari vörutegund. Sú till. var felld, og er ekki hægt að bera hana fram aftur, en á hinn bóginn hefi ég hér flutt brtt. um það, að. ráðh. sé heimilt að undanþiggja grænmeti og ávexti - nýja og þurrkaða - þessu nýja viðskiptagjaldi. Ég geri þetta í þeirri trú, að hæstv. ráðh. muni eins og aðrir sansast á, að læknarnir muni hafa rétt fyrir sér. Ég tók eftir því hjá hv. frsm., að hann sagði eitthvað á þá leið, að n. væri ekki sammála þessari till. (SigfJ: Ég sagði ég persónulega). Það er náttúrlega ekki hægt fyrir mig að gefa þessum hv. þm. neina nýja sannfæringu en ég skýt því til hans, eins og ég beindi til hv. þm. yfirleitt áðan, hvort hann muni telja sig betur dómbæran í þessu efni heldur en alla lækna bæjarins. Sé svo, þá getur hann með góðri samvizku lagzt á móti þessari till. En ég vil benda honum á, að hún fer miklu skemmra en Læknafélag Reykjavíkur leggur til. Og að endingu, af því að ég er að tala við hv. frsm., vil ég ítreka tilmæli mín um, að hann láti í ljós skoðun sína um það, hvort hann er mér ekki sammála um, að hinn aukni benzínskattur í Vestmannaeyjum fari til sérstakra endurbóta á vegunum þar. Ég vil að endingu mælast til, á hv. þm. greiði þessum 2 till. mínum atkv. sín.