17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (2881)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að blanda mér í deilu þeirra hv. þm. G.-K. og fulltrúa Alþfl. hér í d. En ég kvaddi mér hljóðs út af brtt. hv. þm. Vestm., um að stj. fái heimild til að láta allskonar ávexti vera undanþegna þessu viðskiptagjaldi. Við 2. umr. lá fyrir till. frá hv. þm. um að ávextir og grænmeti skyldi fellt úr þessu frv. Mælti ég þá gegn till. og læt mér að mestu leyti nægja að vísa til þeirra raka. Ég benti þá á, að þó allhár innflutningstollur væri á ávöxtum, þá mætti fá hér vörur í þeirra stað innanlands, svo sem mjólk og ýmiskonar grænmeti. Þá benti ég líka á það, sem reynslan hefir sýnt, að þegar um regluleg gjaldeyrisvandræði hefir verið að ræða, þá hefir talsvert dregið úr innflutningi ávaxta, og sezt á því, að þeir þykja ekki eins nauðsynlegir og venjulegar neyzluvörur. En að innflutningur þeirra hefir ekki takmarkazt meira síðustu missirin, stafar af því, að það hefir þurft að beina viðskiptum þjóðarinnar meira til Miðjarðarhafslandanna en áður, vegna viðskiptasamninganna við þau. En þaðan eru ávextir fluttir inn. Ég geri því alls ekki ráð fyrir, að tollhækkunin hafi þau áhrif, að hætt verði við að flytja inn þessar vörutegundir, en hinsvegar getur ríkissjóður haft talsverðar tekjur af þeim. Hv. þm. Vestm. vísaði til umsagnar Læknafélagsins um nauðsyn og hollustu ávaxta og taldi, að samkv. því ætti að gefa innflutning á þeim alveg frjálsan. Það hefir nú í raun og veru mátt heita svo, að sá innflutningur hafi verið frjáls, vegna viðskiptasamninganna við Suðurlönd. En það hefir alltaf verið álit þeirra, sem fara með innflutningsmálin, að það ætti að draga úr innkaupum á þessum vörum, og þó að gjaldeyrisnefnd hafi verið treg til að veita innflutningsleyfi fyrir þeim, þá hefir samt ekki tekizt að minnka þann innflutning verulega, vegna samninganna við Suðurlönd. Nú er ekki farið fram á það, að bannaður verði innflutningur á þessum vörum, heldur einungis að nokkur hluti af verði þeirra gangi til ríkissjóðs. Ég vil annars benda hv. þm. Vestm. á, að ef hann hefir svo mikinn áhuga fyrir því að fá verðlækkun á ávöxtum og grænmeti, þá ætti hann að beina gagnrýni sinni í því efni gegn þeim, sem verzla með þessar vörur og leggja mikið á þær. Náttúrlega þarf álagningin að vera talsvert mikil vegna áhættu og rýrnunar á vörunni. En það vita líka allir, að álagningin er of mikil hjá þeim, sem verzla með ávexti, og meðfram af því, að þeir eru ein af þeim vörutegundum, sent ekki teljast með nauðsynjavörum. Ég hefi því fulla ástæðu til að ætla, að tollurinn á ávöxtum komi ekki allur niður á neytendum, heldur býst ég við hinu, að dregið verði úr álagningunni, eða að nokkur hluti hennar renni í ríkissjóð. En hygg, að ávaxtasalarnir vilja halda við innflutningnum og útsölunni á vörunni, enda þótt þeir verði að vinna það til að leggja minna á hana. Í umsögn þeirri, sem hér liggur fyrir frá Læknafélaginu, er aðeins talað um, að ávextirnir séu nauðsynleg vara, en ekkert farið inn á að benda á aðrar vörutegundir, sem gætu komið í þeirra stað. En ég vil benda á það, sem að vísu er öllum kunnugt, að í ýmsum landshlutum, og jafnvel mörgum héruðum, er engin aðstaða til þess að neyta ávaxta, af því að þeir flytjast ekki þangað. Og ég er í miklum vafa um, að fólkið í þessum héruðum sé nokkuð heilsutæpara en hitt, sem getur keypt sér ávexti í kaupstöðunum. Og það er vafalaust því að þakka, að fólkið í þessum héruðum neytir annara fæðutegunda, sem fullkomlega geta komið í staðinn fyrir ávexti. Ég vil því eindregið mæla á móti þessari brtt., því að þó að í henni felist aðeins heimild fyrir ríkisstj. til þess að veita undanþágu frá þessari tollálagningu á ávexti og grænmeti, þá verður sífelld ánauð um, að slík undanþága verði veitt, og beinlínis ætlazt til þess, að heimildin verði notuð.

Samkv. því, sem ég nú hefi sagt, get ég lýst því hér yfir, að ég mun ekki sjá mér fært að nota slíka undanþáguheimild, þó að Alþingi veiti hana.