17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (2883)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Bjarni Ásgeirsson:

Það var ekki meining mín að ræða um þær brtt., sem hér liggja fyrir um benzínskattinn, heldur um brtt., sem mig langar til að bera fram ásamt hv. þm. Hafnf. En þó vil ég segja aðeins nokkur orð út af till. hv. þm. Vestm., sem vill láta benzínskattinn í Eyjum renna til ræktunarvegar þar. Ég veit ekki betur en það sé á leiðinni fjárveitingartill. til þessa vegar, og veit ekki um, að nokkurt samband sé þar á milli og benzínskattsins. Undanfarin ár hefir verið veitt fé til þessa vegar í Vestmannaeyjum. (JJós: En til Holtavörðuheiðar?). Ég veit líka, að áður hefir verið veitt fé til vegar á Holtavörðuheiði, og samt er, þó tekið sé upp fé í fjárl. til Holtavörðuheiðar, ætlazt til, að bætt verði við af þessum tekjum, og það er af þeirri einföldu ástæðu, að fjvn. sá sér ekki fært að veita fé til Holtavörðuheiðar svo verulegu næmi, nema fá nýja skatta. Alveg er eins með ræktunarveg í Vestmannaeyjum. Ég tel vafasamt, að til hans hefði verið veitt fé, ef ekki hefði verið aflað nýrra tekna, en nú verður hægt að veita þann styrk alveg eins og gert hefir verið með Holtavörðuheiðarveginn -, þannig að 5-6 þús. kr. vegafé geti komið í kjördæmi þessa hv. þm.

Þá vil ég aðeins leiðrétta það, sem kom fram hjá hv. 7. landsk., að þessi skattur yrði þungbærari á bændur fyrir norðan en annarsstaðar; þeir eyddu nú 200 kr. í bíla á ári, og mundi þetta hækka um 40-50 kr. Þessi hækkun er fjarstæða ein eins og við sjáum, ef við reiknum þetta út. Við skulum segja, að benzínskatturinn sé 5% hækkun á kostnað við rekstur bifreiða, og þó ég hafi ekki glögga reikninga, hvað þetta nemur miklu, tel ég vafalaust, að ekki muni meiru, þegar allt er tekið með. Þó maður reikni svo með, að öll þessi hækkun lendi á þeim, sem nota bílana, þá getur það ekki orðið meira en 5% hækkun á þessum útgjöldum. Eftir þessu verður sá bóndi, sem greiðir 40-50 kr. meira fyrir flutninga fólks og þungavöru með bílum - án þess að sá flutningur hafi aukizt -, að hafa áður, t. d. í ár, haft 1000 kr. útgjöld af þessum flutningi.

En þetta var nú útúrdúr. Ég vil leyfa mér ásamt hv. þm. frá hv. 2. þm. Reykv., um það, að fella niður úr tolli sjóklæði og verkamannafatnað. Þetta hefir verið tollfrítt, og er það heilbrigð stefna, að brýnustu lífsnauðsynjar þeirra vinnumanna, sem tekjuminnstir eru, séu undanþegnar, eins og t. d. þessi fatnaður. Svo er aðeins leiðrétting á orðinu viðskiptagjald, sem hvergi er talað um í frv. M. ö. o., ráðherra er heimila að fella niður eða gefa eftir toll af þessum vörum, og leyfi ég mér að afhenda forseta þessa tillögu.