17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (2885)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hv. frsm. fjhn. var, að því er mér virtist, að mæla gegn till. minni um að heimila ráðh. að fella niður tollviðauka af grænmeti og ávöxtum, sömuleiðis hinni mjög svo sanngjörnu till. minni um benzínskattinn, um að það, sem tilfellur í Vestmannaeyjum, verði notað þar. Ég ætla mér ekki að eltast við hann, þó ég vildi fá hann til að segja það, sem honum er sagt að segja - enda er ekki anzandi þvílíkum barnaskap ólærðra manna, er þeir fara að tala um „vitamin“ eða fjörefni, og bera á móti því, sem læknar og vísindamenn segja í þessu efni, enda er líka vitað mál, að þessi þm. segir ekki annað en það, sem hann er ráðinn til og honum er sagt.

Hæstv. fjmrh. vildi ennþá halda því fram, að þetta væri óþarfavarningur. Þetta er sá mikli misskilningur, sem kemur fram hjá honum og fleirum, að þetta sé einhver lúxusvara. Það má náttúrlega segja, að aðrar vörur eru nauðsynlegri, en þetta er sorglegur vottur um það menningarstig, sem við Íslendingar stöndum á, að menn skuli leyfa sér að segja slíkt, að grænmeti og ávextir séu lúxusvara. Ég held það sé leit að æðstu samkundu nokkurrar þjóðar, þar sem fulltrúar þjóðarinnar leyfðu sér að halda slíku fram, nema bara hér. Eins og sýnir sig í frv. þá eru þessar vörur settar við hliðina á gullstássi og glingri.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði alltaf verið álitið af þeim mönnum, sem veita innflutningsleyfi, að þessar vörur tilheyrðu lúxusvarningi. Þetta getur vel verið, en það er jafnórétt fyrir því, og ef ætti að meta vörurnar eftir því, hvaða álit gjaldeyris- og innflutningsnefnd hefir, þá gæti ég hugsað, að fleiri vörur lentu í þessum flokki, sem ekki þætti alveg einhlítt, að ættu þar heima.

Hæstv. ráðh. talaði eins og grænmeti og ávextir væru tollfrjáls vara, en því er nú ekki að heilsa. Eins og ég sýndi fram á við 2. umr. þessa máls, þá er hér á landi sannarlega tollur á þessum vörum. T. d. er verðtollur á appelsínum allt að 25%, sem er ekkert annað en beinn vörutollur, og hér stendur til að leggja annan 25% verðtoll ofan á, og verður þá tollurinn 50%. Þá sagði ráðh., að hann hefði fyllstu ástæðu til að ætla, að kaupmenn legðu meira á þessar vörur en tollinum næmi, og þetta segir hann í sömu andrá og hann heldur því fram, að þessi nýi verðtollur eigi ekki að koma niður á kaupendum, heldur á verzluninni. Mér finnst þetta stangast dálítið á hjá honum við þau ummæli, hvað kaupmenn leggi mikið á ávexti. Vitanlega var allt, sem hæstv. ráðh. taldi sök í þessu máli, lokleysa ein og endileysa, þar sem allt stangaðist á, og það er ekkert undarlegt, þegar hann er að verja þann málstað sem ekki er hægt að verja. Hann streitist á móti því, að sú heimild verði samþ., sem ég fer fram á, um að hann megi veita undanþágu frá tollgreiðslu, og var því borið við, að þá myndi ráðh. fá svo margar beiðnir og kvabb út af þessu. Það væri nú leiðinlegt, ef það skyldi koma fyrir, að menn töluðu við hæstv. ráðh. En ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki gætt þess, að mörgum mönnum, ef ekki öllum sem eru veikir, er ráðlagt af læknum að borða ávexti og grænmeti, og þeir verða að neyta þessarar fæðu, hvað sem hún kostar. Sjúkrahúsin verða að kaupa - og hafa keypt - þessar vörur, hvert sem verðið er. Þannig hefir gengið til undanfarin ár, að þó innflytjendur hafi ekki fengið leyfi, þá hefir sjúkrahúsunum verið veitt það. Það sýnir og sannar bezt nauðsynina, að jafnvel gjaldeyris- og innflutningsnefnd veitir þó innflutningsleyfi á þessum vörum. Og ef þetta er ekki sönnun þess, að hér er ekki um neinn lúxus að ræða, þá get ég ekki vitað, hvað eru sannanir.

Hæstv. ráðh. trúir ekki Læknafél. Reykjavíkur, og sjálfur þykist hann ekki vita neitt og lokar augunum fyrir því, að sjúkrahús verða að nota þessar vörur. M. ö. o., hann stangast við staðreyndirnar.

Hv. þm. Mýr. var með eftirmála út af till. minni vegna benzíntolls í Vestmannaeyjum, þar sem ég legg til, að tilfallandi benzínskattauki í Eyjum renni til ræktunarvegar þar, og rökstyð með því, að vegna landfræðilegrar legu geti eyjarskeggjar ekki notið þess, sem gengur til vega annarsstaðar á landinu. Hann var að reyna að sanna, að af því að á undanförnum árum hefði verið veitt fé til þessa ræktunarvegar, þá væri þetta ekki réttlátt. Hv. þm. hefir e. t. v. fundið, eins og raunar fleiri, að hann var að verja rangt mál, en honum þýðir ekkert að halda því fram, að þó að þingið hafi veitt þetta fé á undanförnum árum og ætli nú að veita 5-6 þús. kr. - sem er alltof lítið -, þá sé mín till. óréttmæt. Enda er þetta ekki eingöngu gert fyrir Vestmannaeyinga, heldur til að gera ræktanlegt og arðmeira ríkissjóðs eigið land. Það hefir heldur aldrei verið vanþakkað, sem í þessu skyni hefir verið látið af hendi rakna, en þar fyrir finnst mér ekki ástæða til fyrir hv. þm. Mýr. að draga úr þessum fjárveitingum.

Það er búið að lýsa því af hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. Reykv., ef þeir þora að samþ. það, sem þeir segja, og heykjast ekki, að fé þetta eigi að ganga til nýrra framkvæmda, ákveðinna vega, sem tilgreindir eru í frv. Það geta því allir séð, að Vestmannaeyjar eiga að fá þetta til nýrra vegaframkvæmda, en ekki vega, sem ríkið hefir stutt. Hv. þm. Mýr. var alltaf að vitna í Holtavörðuheiðarveginn. Hann segir, að því er mér skilst, að af því hann hefir áður verið á fjárl., þá nýtur hann góðs af þessum tekjuauka, en svo hefir hann bersýnilega snúið þessari sömu röksemd við, þegar ræða skyldi um veginn í Vestmannaeyjum. En hvernig stendur á, að í frv. til fjárl. eru taldar upp 46 vegagerðir, og þar á meðal Holtavörðuheiðarvegur? Þetta dæmi sýnir, að þeir vegir, sem benzínskatturinn á að renna til, hafa enga sérstöðu um að vera ekki í fjárl., og að nefna þennan veg er því engin sönnun fyrir því, að vegur í Vestmannaeyjum megi ekki njóta sömu fríðinda.

Ræktunarvegurinn í Vestmannaeyjum gleymdist í fjvn., en hefir nú að nýju verið tekinn þar upp, en ef hann hefði nú átt að falla út úr fjárl., þar sem hann hefir verið síðan 1926, og láta hann aðeins verða aðnjótandi benzínskattsins, þá hefði hann átt að fylgja þar með í upptalningunni á því þskj., en þar er hann alls ekki nefndur.

Hv. þm. Mýr. hefir séð sinn kost vænstan að hlusta ekki á þau rök, sem ég færði fram til þess að sýna fram á, að hann er að brjála rétt mál og halda fram því, sem rangt er, þegar hann vill bendla ræktunarveginn í Vestmannaeyjum við þennan nýja benzínskatt. Ef þeir, sem standa að benzínskattinum, ætlazt til, að Vestmannaeyingar verji benzínskattinum til ræktunarvegarins, þá hefðu þeir talið hann upp í sambandi við þá 6-7 mismunandi liði til vegagerðar, en þar er hann alls ekki nefndur. Það er náttúrlega ákaflega hægt fyrir hæstv. stj.meirihl. á þingi að beita misrétti í þessu máli og láta bílaeigendur í Vestmannaeyjum borga sínar 6000 kr. í aukalegan skatt án þess að sýna þeim neina tilslökun á móti á nokkurn hátt, og það er vitanlega ekki nema lítið brot af öðrum hermdarverkum, sem þetta þing fremur. En þeir, sem að þessu standa og mæla slíku óréttlæti bót, geta ekki vænzt þess, að fulltrúi þess kjördæmis, sem hér á hlut að máli, taki þegjandi við slíkri meðferð. Ef hv. þm. Mýr. verður lengi frammi ennþá, þá getur þessi ræða dregizt, því að ég ætla að halda áfram að tala þangað til hv. þm. kemur aftur, eða að öðrum kosti fram að fundarhléi. Sá siður er orðinn algengur hér á þingi, að ef deilt er á suma hv. stj.liða, þá hlaupa þeir út og loka hurðum sem fastast á eftir sér, til þess að heyra ekki ræður andstæðinganna. (GG: Hv. þm. Mýr. var kallaður í landssímann).

Ég hefi ekki farið út í þær deilur, sem átt hafa sér stað í þessu máli, út af skattinum sjálfum og réttmæti hans. Mér finnst hv. þm. G.-K. hafa gert hv. 2. þm. Reykv. og hæstv. atvmrh. svo glögg og góð skil með því að sýna þeim og öllum þingheimi þeirra fyrri afstöðu til þessarar skattaálagningar, sem var þó áður aðeins lítið brot af því, sem nú er farið fram á, að við það geti ég engu bætt. En ég vil bara segja það, að mér þykir það merkilegt, ef þeir menn, sem styðja núv. hæstv. stj., eru allir svo afarblindir, að þeir geti ekki séð, hversu óskaplega langt hv. stj.flokkur, og þá sérstaklega jafnaðarmenn, eru komnir frá sínum fyrri fullyrðingum í skattamálum. Þeir hafa frá upphafi vega haldið því fram, að þeirra stefna í þessum málum væri alls ekki sú, að leggja á beina skatta, og þennan benzínskatt hafa þeir talið afskaplegan þyrni í augum sínum; en nú ganga þessir menn fram fyrir skjöldu beinlínis til þess að hlaða ofan á neyzluskatta þjóðarinnar. En það er ekki nóg með það, að þeir stuðli að því að auka neyzluskattana, heldur hafa þeir nú tvöfaldað benzínskattinn. Þessir menn segjast svo sem vera á móti beinum sköttum! Ég held, að það sé ómögulegt að fara þvert ofan í sjálfan sig í opinberum málum, ef jafnaðarmenn hafa ekki gert það greinilega á þessu þingi.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. Mýr. er svo nálægt að hann megi heyra mál mitt; hann kom með dálítið nýmæli í sinni ræðu, sem mér finnst rétt að athuga lítið eitt. Eins og allir vita, sem fylgzt hafa með blaðaskrifum um þennan nýja verðtoll, þá var hann fyrst, þegar hann leit ljós þessa heims, skírður viðskiptagjald af jafnaðarmönnum og framsóknarmönnum í sameiningu. Það mátti ekki kalla hann skatt eða toll, heldur var hann nefndur miklu mýkra nafni, viðskiptagjald, og hefir það verið gert af ásettu ráði, til þess að almenningur geti síður áttað sig á, að hér er ekki um neitt annað að ræða en beina verðtollsaukningu eða raunverulega nýjan verðtoll. Og á þennan hátt hafa jafnaðarmenn og tímamenn hér í Reykjavík huggað suma flokksmenn sína.

En nú kemur hv. þm. Mýr. og spyr, hver hafi kallað þetta viðskiptagjald, vegna þess að í brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. 2. þm. Reykv., er vitnað í þetta skakka heiti á frv., og hv. þm. Mýr. gerir svo þessum samherja sínum þann grikk að lýsa yfir því hér í hv. deild, að hér sé alls ekki um viðskiptagjald að ræða, heldur hækkun á verðtolli, eins og hann orðaði það. Og þetta er rétt.