17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég skal reyna að lengja ekki umr. mikið, en af því að nokkuð hefir verið vikið að því, sem ég sagði hér í dag, vil ég segja nokkur orð. Viðvíkjandi útreikningum hv. þm. Mýr. vil ég taka það fram, að það er eins ástatt fyrir mér og honum, að ég hefi ekki fyrir framan mig útreikninga um það, hvernig skatturinn kemur niður á framleiðendunum, en ég held, að ég geti látið mér nægja að vísa til ummæla hv. 2. þm. Reykv., sem lesin voru hér upp í dag. Hann er, eins og kunnugt er, benzínsali, og hann staðhæfir, að þessi skattur komi ekki aðeins niður á framleiðendum, heldur muni benzínsalar og bílaeigendur einnig leggja ofan á, svo að skatturinn tvöfaldist. Þetta er skýrt tekið fram, og ég best við, að hann hafi haft nokkuð rétt fyrir sér í þessu efni. Við vitum vel, að það fylgir margt misjafnt í kjölfar nýrra tolla og skatta, t. d. nota verzlanir sér oft tækifærið til þess að leggja meira á vöruna en sem svarar tollinum. Ég hygg því, að ég hafi ekki farið með neina fjarstæðu í þessu efni.

Þá vil ég drepa á eitt atriði, sem mikið hefir verið vikið að í sambandi við þetta mál, og það er það, að þetta gjald sé alveg óumflýjanleg nauðsyn vegna vegaviðhaldsins. Þetta er áreiðanlega herfilegasta blekking. Það er ekkert annað en blekking að halda því fram, að af 14-15 millj. kr., sem innheimtar eru í ríkissjóð, sé ekkert fé fyrir hendi til þess að verja 600-650 þús. kr. af því til veganna. Þetta er aðeins blekking, því að af jafnháum tekjum og hér er um að ræða eru engin vandkvæði á því að fá nægilegt fé til viðhalds og nýbygginga vega á svipaða lund og verið hefir, ef aðeins er hyggilega farið að, og þessum 14-15 millj. kr. tekjum ríkissjóðs er ekki varið til margvíslegra hluta, sem eiga ekkert skylt við að styðja að framleiðslunni í landinu. En því miður er högum svo háttað hér hjá okkur í þessu efni, að þessu mikla fé er oft fyrst og fremst fleygt í óarðbæra hluti, og er illt til þess að vita á þessum erfiðu tímum. - Skal ég svo ekki hafa þessi orð fleiri.