17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (2888)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég neita því ekki, að hækkun á benzínskattinum komi að jafnaði niður í hærra verði, eins og lesið hefir verið upp úr ræðu eftir mig, en í þessu tilfelli geri ég ráð fyrir, að þetta muni ekki þurfa að koma fyrir, nema að nokkru leyti, og eru ástæðurnar þessar: Önnur er sú, að þau lög, sem samþ. voru á síðasta þingi um fólksflutninga og áætlunarferðir, leiða það af sér, að þar er hagt að krefjast þess um sumar flutningaleiðirnar, að svo verði hagað til, að gjöldin þurfi ekki að hækka, þar sem það hefir sýnt sig, að þau eru nægilega há; hin ástæðan er sú, að nýlega átti sér stað lækkun á benzíni, og hún ætti að geta vegið upp á móti þessari hækkun.

Annars ætla ég að nota þennan stutta tíma, sem mér er ætlaður til aths., til þess að geta þess, að hv. þm. G.-K. sannaði einmitt með upplestri sínum, að sú skoðun, sem ég hefi á þessu máli, er sú sama og ég áður hafði. En hv. þm. sleppti nokkrum köflum úr ræðunni, til þess að villa hv. þm. sýnir í þessu efni. á bls. 998 í C-deild þingtíðindanna frá 1930 tala ég um mismuninn á benzínskattinum eins og hann var þá borinn fram og eins og hann var í útlöndum, ég tek fram tvær ástæður fyrir því, að ekki er hægt að bera þennan skatt saman við samsvarandi skatt erlendis. Önnur er sú, að vegirnir erlendis eru malbikaðir, en það er kunnugt, að sú vegagerð er mjög dýr, og þess vegna er frekar ástæða til þess að skattleggja bíla í þessu skyni í þeim löndum. Ég sé, að í brtt. sem felur í sér skattaukninguna, er gert ráð fyrir, að nokkrum hluta upphæðarinnar, 50 þús. kr., sé varið í byrjun Suðurlandsbrautar inn að Elliðaám. Í því tilfelli er sama ástaða fyrir hendi hér hjá okkur eins og erlendis. Hin ástæðan fyrir því, að þessi skattur er ósambærilegur við svipaða skatta erlendis, er sú, að hér er það ekki lagt á vald ríkisstj., hvort þessum aukna benzínskatti skuli verða varið til þeirra hluta, sem upphaflega var ætlazt til, heldur er alveg fast ákveðið, í hvaða vegi honum verður varið, en erlendis er allt öðru máli að gegna í þessu sambandi, eins og kunnugt er. Eins og kunnugt er, gengur mestur hluti þessa nýja benzínskatts til þeirra landshluta, sem mest umferð er um; það er því tekið tillit til þess sama hér og erlendis, þegar benzínskattur er lagður á þar. Allar upplýsingar hv. þm. G-K. sýna því einmitt, að ég hefi það sama fyrir augum og ég áður hafði, þegar þessi skattur var borin fram, enda mun standa nánar um það annarsstaðar í þingtíðindunum, í umr. um tekjuskatt.