17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Þeir hæstv. atvmrh. og hv. 2. þm. Reykv. reyndu að gera ofurlitla en gagnslausa tilraun til þess að losna úr þeirri gildru, sem þeir eru komnir í, en það fór að vonum þannig, að allir þeir, sem á hlýddu, sín, að þetta var einungis tilraun til kattarþvottar, sem auðvitað mislukkaðist algerlega. Rök þeirra frá árinn 1930 í þessu máli, sem ég las upp í minni fyrri ræðu, standa alveg óbreytt, og frá þeim rökum komast þeir ekki. Núv. hæstv. atvmrh. sagði þá líka sjálfur, að það, sem hann þá hafði sagt, væri allt rétt, eða m. ö. o., að þessi skattur, sem hann nú berst fyrir, væri þess eðlis, að fyrir hann væri enga frambærilega ástæðu hægt fram að færa aðra en þá, að nú væri „skriðið upp í til íhaldsins“, eins og hann orðaði það 1930, þ. e. a. s. hann er sjálfur farinn að berjast fyrir þeirri stefnu í skattamálum, sem hann taldi algerlega andvíga öllu réttlæti, þegar hann ræddi um þetta mál 1930. Ef orð hæstv. atvmrh. standa óhögguð, þá er hitt víst, að gerðir hans hafa breytzt, þar sem hann barðist kröftuglega gegn 5 aura gjaldi á lítra, en berst nú jafngunnreifur fyrir 8 aura gjaldi. Hæstv. ráðh. reyndi að færa fram þau rök fyrir sinni afstöðu, að þá hefði ekki verið neinn vandi að afla fjár, en nú væri engin leið að ná peningum í ríkissjóð nema með því að leggja þennan þungbæra skatt á almenning. Ég segi það sama og hv. 7. landsk. sagði í sinni ræðu, að þetta eru óframbærileg rök hjá hæstv. atvmrh. Áður en þessi skattur verður lagður á, á að taka í ríkissjóð á 16. millj. króna. Hvaða boðorð er fyrir því, að þessar framkvæmdir, sem inna á af hendi með því fé, sem fæst fyrir benzínskattinn, megi ekki framkvæma með þessum 15-16 millj. króna, svo framarlega sem allir skattstofnar ríkissjóðs bregðast ekki? Slík rök eru alls ekki frambærileg af hálfu hæstv. stj. og fylgismanna hennar, og það er eftirtektarvert að hlusta á þessi rök, sem færð eru fram fyrir þessum nýja, þungbæra skatti. Þegar lagður var á kaffi- og sykurtollur, þá var sagt: Þið getið ekki fengið alþýðutryggingar og nýbýli, nema með auknum kaffi- og sykurtolli. Þegar talað var um veg yfir Hellisheiði, var sagt: Þið getið ekki fengið þennan veg nema með nýjum benzíntolli. Ég veit ekki, eftir hvaða vísindaaðferðum farið er í þessu efni. Mér er það óskiljanlegt. Annars eru þessi rök hæstv. ráðh. þau sömu og alltaf eru tilfærð í þessu efni. Á Alþingi áið 1930, þegar þáv. hæstv. fjmrh. var að mæla bót 5 aura benzínskatti, og núv. hæstv. atvmrh. og hv. 2. þm. Reykv. börðust jafnkröftuglega á móti því og þeir berjast nú fyrir 8 aura skatti, þá voru fram færð alveg sömu rök fyrir þessum 5 aura skatti og nú eru færð fram fyrir þessum 8 aura tolli. Þá sagði þáv. ráðh., Einar Árnason, með leyfi hæstv. forseta: „Hér hefir nýlega verið samþ. að bæta allmiklu við það vegakerfi, sem ákveðið er í vegal., að hvíli á öllu á ríkissjóði. Sú viðbót mun óhjákvæmilega kosta allmikið aukið fé til viðhalds vegum ...“

Þannig voru rökin þá, og þannig eru þau nú. En reyndin er sú, eins og ég hefi oft tekið fram áður, að fyrst er þessi skattur lagður á í þessu augnamiði, og svo er hann látinn haldast, en framkvæmdirnar, sem lofað var, eru látnar falla niður. Hæstv. atvmrh. var að grínast í sinni ræðu og talaði um, að forsetinn hefði skánað frá því, sem hann var 1930, og að stj. væri ekki eins ámælisverð eins og hún hefði verið þá. Ég vil minna hv. þdm. á þau ádeiluorð sem hæstv. núv. atvmrh. lét sér þá um munn fara. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta: „Það lítur út fyrir, að hæstv. stj. standi í þeirri meiningu, á það sé eiginlega hún, sem eigi að ráða því, hvaða mál ljúkast á þinginu. Hæstv. stj. ætti að vera nóg að vera hæstráðandi milli þinga, þótt mín fari ekki að taka fram fyrir hendur þingsins á síðustu dögum þess. En það lítur út fyrir, að hún ætli sér það, þegar hún dembir inn í þinglok mjög vanhugsuðu frv., sem hún ætlast svo til, að verði lokið í báðum deildum, og öðrum gagnlegri og betur undirbúnum málum verði hægt frá afgreiðslu.“ Það er að vísu ekki mitt hlutskipti að taka upp hanzkann fyrir þá stj., sem þá sat við völd, en þó vil ég taka það fram, að ég hygg, að sú stj. hafi ekki átt nein ámæli skilið í þessu efni, samanborið við núv. hæstv. stj. En það situr ekki á þeim manni, sem árið 1930 deildi á þáv. stj. fyrir lélega framkomu í þessu efni, að hegða sér eins og hann gerir nú.

Þar sem ég hefi aðeins leyfi til þess að gera aths., þá mun ég láta niður falla að svara frekar hæstv. ráðh., enda gaf hann lítið tilefni til þess, því að ræða hans var vissulega næsta veigalítil.

Hv. 2. þm. Reykv. fann, að hann þurfti að bera í bætifláka fyrir sína fyrri framkomu í þessu máli. En svör hans voru veigalítil, eins og von var til. Hv. þm. reyndi að færa fram þær afsakanir, að þótt benzínskatturinn hækkaði, þá þyrftu flutningsgjöldin ekki að hækka. Hinsvegar sagði hann, að benzínið myndi hækka, ef skatturinn hækkaði, og ekki aðeins um það, sem skatturinn hækkaði, heldur einnig meira. En svo getur hv. þm. ekki skilið, að bílaeigendur, sem kaupa benzín, þurfi að hækka flutningsgjöldin, ef benzínið hækkar í verði. Hv. þm. verzlar með benzín, þegar skatturinn hækkar; þess vegna þarf hann að hækka verðið á þeirri verzlunarvöru sinni, en aftur á móti á hann ómögulegt með að koma því í höfuðið, að þeir, sem lifa á fólks- og vöruflutningum með bílum, þurfi að hækka fólksflutninga og vöruflutningagjöldin, ef benzínskatturinn hækkar. Þetta eru undarleg rök. Ef hv. þm. vill rökstyðja þetta með því, að hann sjálfur og aðrir þeir, sem ráða í þessum málum, hafi áður ákveðið, aðflutningsgjaldið væri, samkv. þessu valdi, sem þeir fengu með skipulagningu á fólksflutningum frá síðasta þingi, of hátt, þá er það engin afsökun, vegna þess að af því leiðir, að flutningsgjöldin hefðu þá átt að vera lægri og því að hækka núna.

Hv. 2. þm. Reykv. vildi hallmæla mér fyrir það, að ég hefði sleppt úr ræðu sinni, er ég las upp úr henni. Það var satt, að ég las hana ekki alla, heldur aðeins perlurnar, og króaði þannig hv. þm. alveg inni í hans eigin fortíð. En það, sem hann sjálfur las upp, sannaði ekki síður, hve hann hefir gersnúizt í málinu. Ein af þeim ásökunum, sem hann reyndi að færa fyrir snúningi sínum, var sú, að nú ætti að verja skattinum til að malbika vegi, en til þess hefði ekki verið ætlazt áður. En sú afsökun er fremur haldlítil, því að langmestum hluta á að verja fénu á þann hátt, sem hv. þm. gat enga afsökun fundið fyrir áður, þegar hann kallaði þennan skatt „blóðpeninga“. Þó að verja eigi einum 50 þús. krónum af skattinum til malbikunar á Elliðaárveginum, getur það enginn skjólgarður orðið fyrir hann í þessu máli.

Þá fór hv. þm. að afsaka snúning sinn með því, að nú ætti á byggja nothæfa vegi fyrir þetta fé. En 1930 sagði hann, að nothæfir vegir væru ekki lagðir hér og yrðu ekki lagðir, meðan núv. vegamálastjóri væri við stýrið Eftir þessu að dæma gat hv. þm. ekki hugsað sér þá, að nothæfir vegir yrðu lagðir hér, í náinni framtíð a. m. k.

Allt, sem ég las upp úr fyrri ummælum hv. þm. um þetta mál, sýnir það, að hann er nú í slíkri aðstöðu, að honum er bezt að vera ekki að reyna að verja sig. Þegar ég flutti frv. um þá breyt. á bifreiðaskattinum, að hann yrði lagður á benzíneyðslu, en ekki hestöfl, olli það aðeins 25 þús. kr. hækkun. Þegar þáv. fjmrh. hækkaði skattinn 1930, hækkaði hann úr 70 þús. kr. upp í 200 þús. Þá komst hv. 2. þm. Reykv. svo að orði, að með minni hækkun hefði landslýðnum verið refsað með svipum, en með hinni miklu hækkun fjmrh. væri honum refsað með gaddasvipum. Hann gæti því sagt nú: Afi minn, Ólafur Thors, refsaði yður með svipum, faðir minn, Einar Árnason, með gaddasvipum, en ég mun refsa með stólfótum. (GSv: Er ekki búið að slíta þeim upp?). Ætli það sé ekki eitthvað eftir frá 9. nóv.?