20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (2897)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Magnús Guðmundsson:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefir tekið nokkurri breyt. síðan það fór úr þessari hv. d. Það þótti ekki fagurt álitum þá, en nú er komin aftan við það spáný rófa, sem er víst nokkurskonar gullrófa, því hún er metin á 250 þús. kr. yfir árið. Það má því ekki minna vera en maður strjúki þessa dýru rófu svolítið. Það er nú svo um þetta frv., að það er orðið þrílitt. Fyrst er hátekjuskattur, svo verðtollur og síðast benzínskattur. Það á sjálfsagt að vera eins með þetta frv. og þrílitu kýrnar, að það á að mjólka stj. vel, því það er talsvert á aðra millj., sem hún hyggst að hafa upp úr frv. En það er svo með okkur sjálfstæðismenn, að okkur finnst, að með þessu sé gengið of langt í því að leggja skatta á landsmenn. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort hann áliti, að hægt sé að halda áfram með þessa sífelldu hækkun á tekjuskatti og flytja milli manna meir og meir eftir því, sem kreppan harðnar. Ég vil spyrja hann að því, hvort hann sé nú kominn að takmarkinu, eða hvort hann hugsar sér á næsta ári að herða enn á, og koma með nýjar álögur á landsmenn. Ég er ekki að spyrja að því, hvort hann álíti, að þetta frv. lífi lengur eða eitt ár, heldur hvort hann álíti, að yfirleitt sé unnt að hækka skattana á næsta ári eða auka gjöld ríkissjóðs meira en orðið er, að óbreyttu árferði. Ég veit auðvitað, að hæstv. fjmrh. er mér ekki sammála í þessu, því hann álítur að það verði að herða á álögunum, eftir því sem kreppan er meiri.

Viðvíkjandi þessari vitbót frv., sem er um benzínskattinn, þá get ég sagt fyrir mig, að ef ekki væru aðrar nýjar skattaálögur á döfinni, þá geri ég ráð fyrir, að ég væri ekki andstæðingur þessa skatts. Mér finnst það ekki óeðlilegt, að það sé lagður skattur á benzín til þess að gera vegi fyrir. Það út af fyrir sig er alls ekki óskynsamleg hugsun, enda hefir þetta verið gert í fjöldamörgum löndum. En þegar það er sett aftan við aðrar tekjuaflanir, sem sjálfstæðismenn eru mótfallnir, þá er ekki hægt að taka það út úr eða samþ. frv. í heild, þó að þetta sé tekið með. Ég geri ráð fyrir, að ég hefði verið til viðtals um þetta, ef dregið hefði verið úr öðrum tekjuöflunarleiðum, sem sumir í stj.flokkunum hafa lýst yfir, að þeir væru ósamþykkir, en hafa orðið að ganga inn á vegna þess, að það var sett sem skilyrði fyrir því, að sættir tækjust milli stj.flokkanna.

Ég skal taka það fram, að ég hefi gengið út frá því sem gefnu, að það væri haldið fast við það, að þessum skatti væri varið til þeirra vegagerða, sem tiltekið er í frv. Það hefir áður verið ákveðið að leggja á benzínskatt og verja honum í ákveðnu augnamiði, en það hefir ekki alltaf verið farið eftir því. Þess vegna er ástæða til þess, að gengið sé fast eftir því, að skattinum sé varið eins og fyrir er mælt í frv., og að ef eitthvað sé afgangs, þá sé það lagt í sjóð.

Það er ekki til neins að ræða núna um hina tvo aðra liði frv., enda hefir það verið gert áður, og ætla ég ekki að taka upp aftur umr. um þá. Og þó að lítilfjörleg breyt. hafi orðið á ákvæðunum um verðtollinn, þá ætla ég ekki að fara út í það.

Ég vil að síðustu taka það fram, að ég sé mér ekki fært að greiða atkv. með frv., því ég lít svo á, að það sé þegar búið að leggja á svo mikið af sköttum, að það sé ekki fært að bæta eins miklu við og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það væri fróðlegt að taka það saman, hvað landsmenn yrðu að borga mikið í skatta alls á árinu 1936, ekki einungis til ríkissjóðs, heldur og til bæjar- og sveitarsjóða. Sú upphæð hlýtur að vera geysihá, sjálfsagt ekki undir 27 millj. kr., og þegar það er athugað, að það er ekki víst, að það verði flutt út fyrir meira en 40-45 millj., þá sést, hversu óskapleg upphæð þetta er. Landsmenn verða að greiða meira en helming af andvirði útfluttra vara í skatta. Og þetta er sérstaklega gífurlegur skattur, þegar það er athugað, að við Íslendingar flytjum hlutfallslega miklu meira út en nokkur önnur þjóð, sem ég þekki.