20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1974 í B-deild Alþingistíðinda. (2901)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég mun ekki svara orði til orðs þeim hv. 2. þm. Rang. og hv. 1. þm. Reykv., því að flest, sem þeir sögðu, fjallar um almenn atriði, sem ég er búinn að margsvara við 1. umr. En ég ætla að svara þeim nokkru að því er snertir benzínskattinn. Þeir tóku það fram báðir, að ástæða væri til, að benzínskattur væri lægri hér á landi en í öðrum löndum, þar sem vegirnir væru svo miklu verri hér heima. Ég verð nú að segja, að þetta eru rök fyrir því, að benzínskattinn beri að hækka hér. Því lakari vegir, því meiri vegabótaþörf, og því meira fé kosta umbæturnar. Þegar á þetta er litið, verður að teljast óeðlilegt, að við höfum margfalt lægri benzínskatt en önnur lönd.

Hv. 2. þm. Rang. hélt því fram, að í öðrum löndum væri benzínskattur oftast nær einskonar verndartollur fyrir járnbrautirnar. Ég held, að þetta sé ekki rétt. Hann mun oftast fara til vegabóta.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að undarlegt væri að leggja þennan skatt á vörubílaeigendur, þar sem vörubílar færu yfirleitt ekki um þá vegi, sem gerðir verða fyrir þetta fé. Þetta er ekkert annað en blekking. Frv. leggur til, að nokkru af skattinum verði varið til að bæta vegi, sem þeir nota mikið, t. d. veginn héðan inn að Elliðaánum, en þaðan er ekið miklu efni til bygginga o. fl.

Þá sagði hv. þm., að í öðrum löndum væri ekki eins og hér, að bifreiðarstjórar þyrftu að kaupa okurverði bifreiðar, gúmmí og aðra varahluti. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að forstöðumaður þeirrar stofnunar, sem hér á hlut að máli, hefir upplýst, að verð á vörum þessum hér er sambærilegt við það, sem er í öðrum löndum.

T. d. hefir bílagúmmí frá Ítalíu verið haldið í sama verði og var, áður en einkasalan tók til starfa. Tölur þær, sem lagðar voru fram í eldhússumr. af nokkrum hv. þm. viðvíkjandi verði á bifreiðum, eru miðaðar við verð, sem átti sér stað fyrir löngu, en ekki rétt áður en einkasalan tók til starfa, en þá hafði verðið hækkað í millitíðinni. Annars kemur það ekki þessu máli við. Þó get ég tekið fram, að fjármálaráðuneytinu hafa ekki borizt umkvartanir um þessi efni, en það væri réttur vettvangur fyrir slíkar kvartanir. Myndi ekki standa á okkur að láta rannsaka málið, ef almennar umkvartanir kæmu fram.

Þá sagði hv. þm., að til stæði að gera verkfall hér í bæ út af þessum skatti. Ég var hissa á ummælum hans um það efni. Ég veit ekki betur en að sjálfstæðismenn hafi haldið því fram, að alltaf væri rangt að beita verkfalli, bæði í kaupdeilum og út af öðrum málum. Nú gengur hv. þm. svo langt, að hann vill ekki aðeins nota sér verkfallsréttinn í kaupdeilum, heldur líka í mótmælaskyni við gerðir Alþingis. Annars þykir mér undarlegt, ef bifreiðastjórar sjá ekki gegnum blekkingar Sjálfstfl. þegar þeir þurfa ekki lengra að fara en til Sogsdeilunnar frægu til að sjá, hvernig Sjálfstfl. lék þá, er þeir áttu í deilu við erlendan atvinnurekanda. Þá voru það blöð Sjálfstfl., sem affluttu málstað bifreiðastjóra, þeim til óþurftar. Ég hygg, að eftir þá frammistöðu verði erfið aðstaða fyrir Sjálfstfl. að telja verkamönnunum trú um, að sjálfstæðismennirnir vilji breiða sig út yfir þeirra hag, og að sjálfsagt sé að nota verkfallsréttinn í deilu við Alþingi.

Þá voru þeir hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Rang. að tala almennt um málið. En því miður var ég bundinn í hv. Nd. og gat því ekki hlustað á ræður þeirra. En mér hefir verið bent á, af manni, sem ræðurnar heyrði, að þeir hafi sagt, að tekjuskatturinn hafi tvöfaldazt í vissum tilfellum. En þetta er rangt. Raunverulega fer hækkunin hvergi fram úr 35%. Því til sönnunar gæti ég lesið mörg dæmi um, hvaða áhrif hækkunin hefir og hvernig skatturinn verkar. En ég skal aðeins benda á, að öll ósköpin, sem um er að ræða, eru þau, að maður, sem hefir 25 þús. kr. í laun eða atvinnutekjur, borgar samtals í útsvar og skatt 7 þús. kr. miðað við núgildandi útsvarsstiga hér í Reykjavík.

Þá voru þessir sömu hv. þm. mikið að tala um, að þessi skatthækkun kæmi illa niður á atvinnuvegunum. En þeir miðuðu öll sín ummæli við það, að þeir peningar, sem ekki væru teknir með sköttum, yrðu látnir ganga til atvinnufyrirtækja, t. d. togaraútgerðar o. fl., en það fé, sem tekið væri með sköttum, rynni til óarðbærra hluta, svo sem vegagerða o. fl. En þetta er að mestu leyti ekki annað en blekking. Þegar þetta er athugað, eru langflestir af þeim, sem skatturinn hittir, launamenn og kaupmenn, sem ekki leggja peningana fram til atvinnufyrirtækja, heldur nota þá til meiri heimiliseyðslu. Hér er því ekki um það að ræða, hvort peningunum skuli varið til framleiðslu eða óarðgæfra framkvæmda, heldur hvort fremur eigi að nota þá til hóflausrar heimiliseyðslu eða taka þá til þess að auka atvinnuna í landinu og til annara þarfa ríkissjóðs.

Þá var hv. 1. þm. Reykv. að tala um, að það væri óviðkunnanleg meðferð á málum, sem viðhöfð hefði verið um benzínskattinn í Nd., að hnýta honum aftan í annað mál með brtt. við 3. umr. En ég vil alveg mótmæla, að þetta sé óþinglegt eða einsdæmi. Ég man eftir, að á þinginu 1933 kom fram skattatill., er nam 650 þús. kr. við 3. umr. og fékk því ekki nema eina umr. í hvorri d. Veit ég ekki til, að nokkur þm. hafi hreyft andmælum til þess að finna að því. En hér er þó ekki nema um 250 þús. að ræða. Sama er að segja um framlenging á gengisviðaukanum, 40% tekju- og eignarskattshækkunina, 25% hækkun á kaffi- og sykurtollinum o. s. frv.

Þá fór hv. 1. þm. Reykv. mörgum orðum um það, að þar framkvæmdir, sem ríkissjóður hefði ráðizt í, væru einskis virði fyrir framleiðsluna, því þar væru allar óarðgæfar - dauðar. Þessu vil ég alveg ákveðið mótmæla. Ég vil aðeins benda hv. þm. á, hvernig umhorfs mundi vera. ef t. d. engir vegir hefðu verið lagðir. Hvernig væri aðstaðan fyrir bændurna, ef útlendi markaðurinn lokast, að koma vörunum á innlenda markaðinn, ef engir vegir væru? Ég ætla þess vegna að segja, að það séu fyrst og fremst vegirnir, sem hafa gert bændunum mögulegt að koma vörum sínum á sæmilega markaði, og á þann hátt beinlínis haldið landbúnaðinum við þetta eru því svo mikil öfugmæli, að vegirnir eru undirstaðan undir framleiðslu bandanna eins og nú er. Ég er ekki heldur í vafa um, að þetta sjá allir menn með heilbrigðri skynsemi. Ef ekki væri hægt að láta jafnmikið af afurðunum ganga til kaupstaðanna og nú er gert, væru engir möguleikar fyrir aukinni framleiðslu í sveitunum. Það eru vegirnir, sem hafa forðað landbúnaðinum frá gersamlegu hruni í þeim erfiðleikum, sem hann hefir átt við að stríða upp á síðkastið.

Sjálfstæðismenn tala ákaflega mikið um þessa skattahækkun. En ég hefi áður bent á, að þrátt fyrir það, þó stj.flokkarnir hafi flutt nokkur skattafrv., er ekki meira en áður innheimt í ríkissjóðinn. Ég get líka bent á, að jafnframt því, sem íhaldið þykist mjög hneykslað yfir því, hvað ríkisstj. vilji nota mikið fé, eru þess eigin menn hér í bæjarstj. Reykjavíkur að ganga frá fjárhagsáætlun fyrir bæinn með 100% hækkun miðað við árið 1929. Ef við ættum að reka sömu fjármálapólitík hér á Alþ., ættu fjárlögin að koma upp á 30 millj. í stað 151/2 millj. (MJ: Ég hefi rekið þetta ofan í hæstv. ráðh. í eldhúsumr.). Hv. þm. hefir ekki sagt annað en blekkingar. Hann hefir haldið því fram, að ríkið hafi lagt skatta á bæina, en þetta er alrangt. Ríkið hefir létt af bæjunum t. d. atvinnubótavinnunni, en útgjaldahækkunin stafar mikið frá fátækraframfærslunni. Það er því sama, hvernig sjálfstæðismenn sprikla, framkvæmdirnar úr stjórn Reykjavíkur æpa á móti þeim hvenær sem við gagnrýnum störf þeirra. (PM: Reykjavík er þó treyst til að bera mest). Ég veit, að Reykjavík er ætlað að bera meira en öðrum sveitarfélögum, vegna þess að hér eru tekjur og eignir mestar, og við það er miðað. En hitt er staðreynd, sem ekki verður hrakin, að útsvörin hafa hækkað, ekki einungis um 100%, heldur raunverulega meira, vegna þess að tekjurnar hafa rýrnað, og er því lagt á minna en áður, svo hækkunin er sennilega í mörgum tilfellum 150%.

Mér er þetta vel kunnugt, þar sem ég hefi verið form. niðurjöfnunarnefndar Reykjavíkur í nokkur ár. Það situr því ekki ólaglega á þessum mönnum að bera fram fullyrðingar um, að aldrei hafi þekkzt önnur eins skattapólitík eins og nú sé rekin hér á Alþ., þar sem þeir eru einmitt sjálfir þeir mestu skattræningjar í landinu.

Ég ætla að hafa upp nokkrar tölur, sem ég hef áður gert í hv. Nd., því ég held, að andstæðingar stj. hér í þessari hv. d. hafi gott af að fá þær til að bisa við.

Sjálfstæðismenn hafa hvað eftir annað lýst því yfir, að þeir hafi verið á móti 2 millj. kr. tekjuauka 1931, einnig 1 millj. 250 þús. kr. hækkun nú, en aftur á móti viljað lækka tolla á sjávarútveginum um 750 þús. kr. Þetta þýðir það, að ef allar þessar till. hefðu verið teknar til greina, þá hefði áætlun fjárl. ekki orðið 151/2 millj., heldur 111/2. Það er því æskilegt, að þeir geri grein fyrir, hvernig þeir ætla að standa við að lækka útgjöldin um 4 millj. kr. Þó frestað hefði verið framkvæmd nýbýlamálsins og alþýðutrygginganna, eru samt eftir 31/2 millj. Það blandast því engum hugur um, að afstaða Sjálfstfl. er þar ekki byggð á neinni heilbrigðri skynsemi, heldur er því treyst, að þetta láti vel í eyrum fólksins, en að ekki sé athugað, hvað fæst í aðra hönd til þess að halda uppi atvinnuvegunum. Það vita allir, sem nokkuð fylgjast með, að ætti að færa fjárl. niður um 31/2 millj., yrði það sú blóðtaka fyrir atvinnuvegina, einkum landbúnaðinn, að það væri alveg óhætt að strika út allar framkvæmdir og framlög til atvinnuveganna, því tekjurnar gerðu ekki betur en hrökkva fyrir beinum rekstrarkostnaði, vöxtum og afborgunum lána, og annara óhjákvæmilegra útgjalda.

Það væri því æskilegt, að sjálfstæðismenn vildu gera þjóðinni ljóst, hvernig þeir ætla að fara að, ef þeir fengju stj. í sínar hendur.

Það eina, sem nokkurt gildi hefir, er, að þeir leggi glöggt fyrir, hvað þeir myndu gera, ef þeir hefðu völdin. Hér dugir ekki tóm neikvæð gagnrýni, heldur verður að sýna svart á hvítu, hvað á að koma í staðinn.