20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (2902)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Fjmrh. gerði ekki nokkra tilraun til þess að svara þeirri gagnrýni, sem ég beindi til hans út af skattafrv., einkum benzínskattinum.

Ég verð að segja, að ég hefi enga trú á, að hæstv. fjmrh. sjái ekki betur en hann þykist sjá, eða að það sé af grunnhyggni, að aðalvörnin, sem hann ber fram móti okkar gagnrýni, er sú, að eftir því, sem vegirnir eru verri, eigi skatturinn að vera hærri. (Fjmrh.: Þetta er útúrsnúningur). Þetta er orðrétt haft eftir. Og samkv. því ætti hesturinn að vera seldur því hærra verði, sem hann er verri. (Fjmrh.: Það er ekki til að bæta hestinn). Með sama útreikningi gæti maður komizt að þeirri niðurstöðu, að því verri sem fjármálaráðherrann væri, því hærri laun ætti að greiða honum. (Fjmrh.: Ef það gengi til þess að bæta hann). Hvað sem þessu líður, meðan vegirnir eru ekki komnir, er ekki sanngjarnt, að 2-3-falda skattinn, sem bílstjórarnir greiða. Fyrst verða vegirnir að koma, og þá er hægt að taka benzínskattinn sem leigu eftir vegina. En eftir því, sem vegirnir eru verri, þarf meira benzín, svo það getur ekki verið réttlátur grundvöllur fyrir því að leggja á jafnháan skatt og hér er farið fram á. Það má líka minna á, að þetta er ekki eina viðleitni stj., sem kemur fram um að ná fé af samgöngutækjunum. Og sem þm. Rang. vil ég benda á, að á þann hátt er verið að kúga fé af atvinnurekendum, sem búa við erfiðar samgöngur.

Þá býst ég ekki við, að neinn verði til þess að neita því, að stj. noti bílaeinkasöluna til þess að draga fé í ríkissjóð. Þess vegna þýðir ekki að mótmæla því, að öll bílanotkun hlýtur að stórhækka. Þetta vita allir menn þessa bæjar, og þess vegna þýðir ekki fyrir hæstv. ráðh. að brýna raustina, því þeir menn, sem hlutina kaupa, vita, hvað þeir þurfa að borga fyrir þá. Slík vörn sem þessi dugir því hæstv. ráðh. ekki. Eigi að skattleggja samgöngutækin til þess að gera vegina, sjá allir, að það verður að taka skattinn eftir á. Þá sagði hæstv. ráðh., að benzínskatturinn í nágrannalöndunum væri enginn verndartollur, heldur þvert á móti væri hann notaður til þess að bæta vegina til kaupstaðanna. En ég er hræddur um, að hér viti hæstv. ráðh. betur. Þar, sem ríkin reka járnbrautirnar, hefir verið gripið til þess að leggja skatt á benzínið, svo að þær þyldu samkeppnina við bílana og hægt væri að reka þær hallalaust. Hæstv. ráðh. veit, að bílarnir hafa allt aðra þýðingu hér en í nágrannalöndunum, þar sem þeir eru hér einu samgöngutækin, sem um er að ræða til þess að flytja vörur og fólk að og frá heimilunum, nema þar, sem enn verður að notast við hestvagna. Þá mætti alveg eins skattleggja annarsstaðar járnbrautirnar, sem þar eru aðalsamgöngutækin, a. m. k. til flutninga á allri þungavöru. Bílar eru þar aðeins notaðir til mannflutninga á stuttum leiðum. En hér koma bílarnir í stað járnbrautanna. Hvernig sem á þetta er litið í samanburði við önnur lönd, hefir það við engin rök að styðjast.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að svara hæstv. ráðh. frekar, því rök þau, sem hann færði fram í þessu efni, voru næsta veigalítil, og mun ég því ekki eyða löngum tíma í að ræða þau atriði, sem þegar hefir verið hnekkt.

Þá minntist hæstv. ráðh. á eitt atriði í ræðu minni, sem hann vildi reka ofan í mig, þar sem ég sagði, að tekjuskatturinn hefði nálega tvöfaldazt. Það getur verið, að þetta sé ekki mjög nákvæmt. En ég hefi nú gert stikkprufu meðan ráðh. var að tala. Af 20 þús. kr. tekjum greiðist eftir h frá 1935 2920 kr., en eftir þessu frv. 5140 kr., og er það eftir þeim reikningi, sem ég kann, sem næst 75% hækkun. (Fjmrh.: Hv. þm. gleymir 10%). Já, bráðabirgðaskattaukanum. Ég tek þetta eins og það liggur fyrir í l. Ég gæti trúað, að hækkunin væri meiri þegar komið er yfir 28 þús. kr., þó ég hafi ekki athugað það. Af 10 þús. kr. skattskyldum er skattur eftir frv. 1530 kr., en eftir 1. 800 kr., og vantar því ekki mikið á, að hann sé hér tvöfaldaður. (Fjmrh.: Skatthækkunin er hvergi yfir 70%, ef miðað er við skattinn eins og hann var +10%). Það kann að vera, en ég tek skattinn eins og hann er.

Hæstv. ráðh. vildi nú eins og áður ekki telja þessa skatthækkun sérlega hættulega. En ef við lítum á þá breyt., sem orðið hefir á skattgreiðslu til ríkissjóðs í hlutfalli við útflutningsmagn síðan 1915, verður samræmið ekki gott. 1915 nemur útflutningurinn 39 millj., en þá innheimtir ríkissjóður ekki nema 2,1 millj., eða sem svarar 5% af útflutningnum. Nú er útflutningurinn nálega sá sami að verðgildi og 1915, en gjöldin til ríkissjóðs eru nálega 8-falt hærri upphæð nú en þá var tekin. Hvernig getur svo hæstv. ráðh. haldið því fram í alvöru, að þetta komi ekki niður á atvinnuvegum landsmanna? Vitanlega koma skattarnir hvergi annarsstaðar niður en á atvinnuvegunum og hafa þeir reynzt ábyrgir fyrir þeim eins nú og 1915. En nú verður öll skattahækkun tilfinnanlegri en áður, meðan allt lék í lyndi. Í þessu sambandi má benda á árangurinn af þeirri stefnu, sem tekin var 1924, þegar keppt var að því að ofbjóða ekki atvinnuvegunum með sköttum. En síðan sú óheillastefna var upp tekin að hlaða á síhækkandi sköttum hafa sannar framfarir minnkað með hverju ári. Og sú hlýtur að verða afleiðingin af þeirri skattastefnu, sem stjflokkarnir hafa fylgt síðustu árin.