20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (2903)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Mig vantar í raun og veru alveg svar við þeim spurningum, sem ég beindi til hæstv. stj. í lok minnar fyrri ræðu út af því bréfi, sem hér hefir verið borið fram frá bifreiðastjórum og bifreiðaeigendum. Mér þykir leiðinlegt að verða að standa upp aftur án þess að hafa fengið þetta svar. (Fjmrh.: Hefir hv. þm. verið falið að ganga eftir því?). Ég var að reyna að fá hæstv. ráðh. til að svara því, hvort stj. ætlaði að láta slíkt verkfall sem hér er í vændum dynja yfir bæinn. En í staðinn fyrir að svara þessu fór hæstv. ráðh. að þylja upp sínar gömlu röksemdir úr eldhúsdagsumr. Það er sýnilega ekki til nokkurs hlutar að deila við hann í þessu efni; hann er sýnilega alveg steinblindur maður. Að deila við hann um þessa hluti er eins og að sannfæra karlinn um það, að jörðin færi með geysihraða í gegnum himingeiminn. Hann sagði: Ef ég raða þremur rjólbitum hverjum ofan á annan, þá mundu þeir detta, ef jörðin færi svona hart.“ Hæstv. ráðh. kemur hér enn með þessar sömu röksemdir um fjárhag Rvíkurbæjar, sem er ýmist ágætur, þegar á að leggja þar á skatta, eða þá afleitur, þegar á að réttlæta fjármálastefnu núv. stj. En það er þessi stórkostlegi munur á stjórn fjármála ríkisins og bæjarfélagsins, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa öll tök á að ráða fjármálum ríkisins, en bæjarstj. ræður ekki fjármálum Rvíkurbæjar nema að litlu leyti. Þing og stj. ráða fjárhag bæjarins í raun og veru miklu meira en bæjarstj. Og það, hvað erfiðlega hefir gengið að halda útgjöldunum niðri í Rvík, það er að mestu leyti vegna þess, hvernig þessir núv. stjórnarflokkar hafa stjórnað fjármálum Rvíkur í sambandi við sína stjórn á landsmálum. Þetta hlýtur hæstv. ráðh. að vita, því að hér er á hverju þingi verið að leggja nýjar og nýjar kvaðir á Rvík. Það er ekki Rvík, sem ræður því, hvað miklu er eytt í þetta eða hitt. Það er þingið, sem er alltaf að skipta sér af því og ræður því.

Það er líka eins og hver önnur fjarstæða, þegar hæstv. ráðh. vill taka það sem einhverja sönnun, þó að útsvörin hækki í krónutali. Við skulum t. d. segja, að ætti að miða við tímann frá 1929 og þangað til nú, eða 6 ár. Þá verður vitanlega að taka tillit til þeirrar fólksfjölgunar, sem hefir orðið í bænum á þeim tíma. Það er eðlilegt, að bær, sem hefir 35000 íbúa, velti meiri fjárhæð en bær, sem hefir 25000 íbúa. Nei, það er kunnara en svo, að þurfi að rifja það upp, hvað þingið hefir mikil afskipti af Rvík. Annarsvegar klingir það, að fjárhagur Rvíkur sé svo slæmur, að ekki þurfi annað en að líta þangað, þá sýnist allt snjóhvítt og ágætt hjá hæstv. stj„ en svo er löggjöfinni hagað svo eins og þarna megi alltaf hlaða byrðum á byrðar ofan. Það sér maður á sköttunum, sem lenda mest á Rvík, t. d. tekjuskatturinn. Það eru gerðar ráðstafanir til þess að Reykvíkingar þurfi að kaupa sem hæst sínar afurðir og samtímis er þeim bannað að bjarga sér með því að fá þar keyptar ódýrara. En það er dálítið sláandi í sambandi við allt þetta tal um, að Rvík sé að fara á höfuðið í samanburði við sveitirnar, að þegar gerðar eru ráðstafanir um kreppulánasjóð, þá á sú kreppuhjálp að ná til allra sveita, allra kauptúna og bæja og kaupstaða á landinu, bókstaflega til allra nema Rvíkur einnar. Þetta er ákaflega sláandi. M. ö. o., allur sá skakki, sem kann að verða á viðskiptum milli héraða, milli bæjar- og sveitarfélaga, á eingöngu að lenda á Rvík. Hún ein á að gefa eftir öllum og allt, en sjálf á hún ekki kost á að fá gefið eftir eða fá sínum skuldum betur komið fyrir. Hún mundi ekki heldur óska eftir því, svo að að því leyti er þetta rétt stefna.

Þá vil ég benda á fátækraframfærið. Það vita allir, að hingað til Rvíkur hópast styrkþegar víðsvegar af landinu, og svo er það ákveðið, að Rvík skuli hafa sérstöðu að því leyti, hvað lítinn styrk hún skuli fá frá ríkissjóði í þessu sambandi. Þetta er ef til vill eina ráðið, en það er ekki sönnun þess, sem hæstv. ráðh. var að bera fram, að fjárhagur Rvíkur væri miklu verri en alstaðar annarstaðar.

Ég er sannfærður um það að svo mikil eru afskipti Alþingis af hag Rvíkur, að ef maður lítur á það fjárhagslega, þá mundi margborga sig fyrir Rvík að taka að sér allar ríkisskuldirnar, alla þá óreiðu, sem stjórnarflokkarnir hafa steypt þjóðinni í, og standa straum af því öllu saman, ef bærinn mætti svo eiga það víst, að hann fengi að vera laus við öll afskipti Alþingis. Ég er ekki að segja, að þetta yrði þægilegt í framkvæmd, en það mundi margborga sig fyrir Rvík. Það mætti greiða vexti og afborganir af ekki svo lítilli upphæð með öllum þeim milljónum, sem teknar eru af Rvík og settar í framkvæmdir úti um allt land. Ég þykist vita, að með þessu móti gæti Rvík borgað á tiltölulega stuttum tíma allar ríkisskuldirnar, svo að við stæðum skuldlausir eftir. Svona er samanburðurinn milli landsins og Rvíkur, ef maður vill segja eins og er. Svo heldur hæstv. ráðh., að hann geti alltaf svarað með því að segja: „Hvað viljið þið gera?“ Hann gengur sí og æ eftir því, hvað við mundum gera. Þetta er alveg eins og ef tveir menn væru að deila um það, hvaða aðferð ætti að hafa til þess að stjórna einhverju fyrirtæki, svo réði annar fyrirtækinu árum saman og steypti því alltaf í meiri og meiri skuldir og heimtaði alltaf um leið, að hinn kæmi með ráð til að leysa vandræðin.

Ég vil svara hæstv. ráðh. með því að benda á, hvernig farið var að, þegar sá flokkur, sem þessi gagnrýni kemur hjá, var hér við völd. Hann tók við fjárhag landsins í mikilli óreiðu. Hann setti í gang þörf mál í viðskiptum og framkvæmdum. Skuldir lækkuðu um 1/3. Skattar voru færðir niður, og það var hægt m. a. af því, að vaxtabyrði vegna skulda við útlönd hafði lækkað um 1/2 millj. Ég vil svara hæstv. ráðh. með því að segja: Hvernig væri fjárhagur landsins út á við nú, ef þessari stefnu hefði verið haldið áfram fram á þennan dag? Ég get hugsað, að kreppuráðstafanirnar, sem gerðar voru eftir 1930, hefðu orðið fullt svo gagnlegar, ef þá hefðu verið fullir sjóðir til þess að setja í slíkar ráðstafanir, eins og að þurfa ýmist að byggja á lántökum úr ríkissjóði eða þá að verða að sjúga meira og meira fé úr atvinnurekstrinum. Það er bara gamla og einfalda sagan, að safna í góðu árunum til vondu áranna. Það er eina ráðið til þess að komast vel yfir vondu árin.

Ég skal ekki deila um nauðsyn veganna. Þeir eru auðvitað nauðsynlegir, en þeir svara þó ekki þeim, sem leggja fé í þá, aftur með fé, eins og t. d. útgerðin gerir, svo að að því leyti er þar tvennu ólíku saman að jafna. Hæstv. ráðh. svaraði út í hött, þegar hann spurði, hvernig landbúnaðurinn færi að koma afurðum sínum á markaðinn, ef ekki væru vegir. Það er rétt, þetta er gott fyrir landbúnaðinn. En það kemur ekkert til góða þeim, sem aðallega hafa lagt féð fram til veganna. Það fé rennur ekki í vasa bifreiðastjóranna, þannig að þeir geti dregið fram lífið á því.

Ég vil endurtaka þá spurningu mína til hæstv. stj., hvað hún ætli að gera til þess að afstýra þeirri ógæfu, sem nú vofir yfir. Það er fullkomlega rangt, sem hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði verið að æsa til verkfalls, en ég get sagt hæstv. ráðh. það, að ég hefi frétt um þetta verkfall eins og hann. Ég orðaði það svo í eftirmiðdaginn, að maður hefði sagt við mig, að verkfall vofði yfir, ef skatturinn væri samþ. Mér þykir ekki undarlegt, þó að megi sauma að mönnum, þangað til þeir láta til sín heyra. Ég vil segja hæstv. ráðh. það, að nú er búið að herða svo á skrúfunni, ekki eingöngu hér í Rvík, heldur einnig utan bæjarins, að ef skriða fer af stað, þá er ekki að vita, hvað hún kann að aukast. Ég segi þetta ekki sem hótun, heldur sem viðvörun. Við vitum það úr sögunni, að skattaálögur hafa á öllum tímum orðið undirrót stórra byltinga. Það þurfti ekki nema tíundina til þess að stórir landshlutar gerðu uppreisn, og mannseðlið er ekki ólíkt því, sem það var áður, en það er bara hugsað meira um það nú en áður, að ná sínum rétti á lagalegan hátt. Og stj., sem situr í jafnvöltum sessi og er búin að hlaða jafnmiklu tundri undir sig eins og þessi stj., hún ætti sannarlega að fara varlega með eld. Þótt hér sé ekki að ræða um nema eina stétt manna, sem sendir mótmæli til þingsins gegn þessum sérstaka skatti, þá er það svo, ef ekkert er um það skeytt, þá veit enginn hvað af þeirri neitun kann að hljótast í öllu því tundri, sem nú hefir safnazt saman.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um það á eldhúsdaginn út af varalögreglunni, að við ætluðum að mæta mönnum með kylfum, ef menn létu á sér heyra óánægju. Kannske hæstv. ráðh. eða ríkisstj. Ef ætli að mæta bifreiðastjórunum með kylfum? Ég vil enn spyrja, hvort stj. ætli hiklaust að leiða þá ógæfu yfir bæinn og umhverfi hans að mæta mönnum með kylfum, ef þeir eru óánægðir með gerðir hennar. Mér líkar það ekki vel, ef stj. ætlar að hafa þá aðferð, en þá finnst mér, að hún gæti farið að með meiri lempni í skattálögum sínum en hún hefir gert hingað til.

Ég vil svo að síðustu endurtaka þá spurningu mína til stj., þegar er hótað verkfalli næsta morgun, þá er hún ekki of góð til að svara því, hvað hún hugsi sér að gera til þess að afstýra slíkri ógæfu.