20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Guðrún Lárusdóttir:

Þegar þetta frv. var hér á ferðinni um daginn, bar ég fram brtt. um að undanskilja nokkrar nauðsynlegar vörutegundir tollinum, þar á meðal ávexti, nýja og þurrkaða, og grænmeti. D. sá ekki ástæðu til að sinna þessari till. og gerð út af við hana fljótt og rækilega. Þó komst inn í frv. í Nd. heimild fyrir fjmrh. til þess að undanskilja þennan nauðsynlega varning 25% tollinum, sem ráðgert var að leggja á hann. Ég vildi nú ávarpa hæstv. fjmrh. í heyranda hljóði til þess að brýna fyrir honum að nota þessa heimild. (Fjmrh.: Ég er búinn að lýsa yfir, að ég muni ekki nota hana). Maður heyrir það dregið í efa, að sá ungi og óreyndi ráðh., sem þetta heyrir undir, hafi sett sig inn í það eins og vera þyrfti, hvað hollt og nauðsynlegt það er ungum og gömlum, og ekki þó sízt sjúklingum, að hafa þessar vörutegundir á borðum sínum. Ég held því, að hæstv. fjmrh. ætti ekki að gaspra mikið um, að hann ætli ekki að nota þessa heimild, heldur ætti hann að sjá sig um hönd og nota hana.

Svo var það hæstv. forsrh., er sá ástæðu til að blanda hér dálitlu af mjólk saman við benzínið, sem verið var að ræða um. Hann var að tæpa á því, að nokkrar konur hér í Rvík hefðu verið látnar hefja mjólkurverkfall í fyrra vetur. Manni getur ekki dulizt, að í þessu átti að felast sú aðdróttun til þeirra kvenna, sem létu óánægju sína í ljós með því að koma sér saman um að takmarka mjólkurkaup sín meðan hið ógurlega ólag var á mjólkursölunni, að þar hefðu eigi gert það af eigin hvötum. Þessi aðdróttun hæstv. forsrh. er með öllu tilhæfulaus. Það voru konurnar sjálfar, og þær einar, sem af eigin vilja og áhuga fyrir sínum málum gengust fyrir því hver með annari að takmarka mjólkurkaup sín, enda var fyrirkomulag sölunnar þannig, að mjólkurnotkunin takmarkaðist af sjálfu sér. Annars var ekkert óvenjulegt að heyra þetta í fyrra vetur, að pólitískur undirróður stæði á bak við samtök kvennanna, þar sem blöð hæstv. ráðh. voru alltaf með hálfgerðar svívirðingar um þær konur, sem voru svo sjálfstæðar í skoðunum, að þær létu ekki bjóða sér önnur eins þrælatök sem þar voru beittar.

Undir þessum umr. gall við rödd utan úr horni - ég hygg það hafi verið hv. þm. S.-Þ., hann sést sjaldan í sæti sínu, en er oft einhversstaðar í hornunum - og spurði, hvað húsmæðurnar hefðu haft upp úr þessu. Ég get nefnt það til dæmis, að kaldhreinsaða mjólkin kom á markaðinn, einmitt sú mjólkin, sem mörg heimili vildu helzt fá. Mjólkurreseptin frægu frá Kleppi hurfu úr sögunni og meira frjálsræði fékkst yfirleitt í þessum viðskiptum. Þetta var það, sem konurnar óskuðu eftir. Sjálfur man hæstv. ráðh. vafalaust eftir því, þegar konurnar heimsóttu hann í stjórnarráðið. Ég get sagt honum það til hróss, að hann tók þeim vel og kurteislega, þótt lengi þætti þeim standa á framkvæmdunum. - Þessu vildi ég koma hér að, úr því hæstv. ráðh. fór að hreyfa við mjólkurmálinu að fyrra bragði; annars hefði mér vitanlega ekki dottið í hug að minnast á það.