20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

þykir verra, að hv. andstæðingar eru ekki allir við, en ég sé, að hv. 2. þm. Rang. er kominn inn í d., en hann er annar þeirra, sem ég þarf helzt að svara. Það kom fram í ræðu hans, og jafnframt hjá hv. 1. þm. Reykv., að það væri hægt að svíkja bifreiðastjórana í þessu máli. Ég neita því ekki, að það er hægt. En reynslan verður að skera úr um það, hvort það verður gert. Ég held því fram, að það verði ekki gert, og að það sé farið inn á nýja braut, þar sem jafnframt því, að skatturinn er lögleiddur, er ákveðið, í hvaða vegagerðir hann á að fara. Þessi nýbreytni er tekin upp, og liggja tillögur vegamálastjóra til grundvallar fyrir þeirri skiptingu, sem þar er gerð. Það er gert ráð fyrir að taka upp svipaða aðferð og tíðkast erlendis. Svíar hafa t. d. búið. sér til einskonar 5 ára áætlun með bensínskattinum, og er þar ákveðið, í hvað hann á að fara næstu 5 ár. Svipað fyrirkomulag er í Danmörku, eins og ég benti á í fyrri ræðu minni. En við treystum okkur ekki til þess að ákveða þetta hér fyrir meira en eitt ár í einu. Eins og ég sagði áður, þá fannst okkur ekki vera hægt að réttlæta það að leggja þennan skatt á, nema gera jafnframt grein fyrir því, til hvers hann ætti að fara, og þá er fyrst ástæða fyrir bifreiðastjórana að kvarta, ef það er svikið.

Hv. þm. talaði um, að það væru við framsóknarmenn, sem hefðum svikið viðvíkjandi benzínskattinum, og það myndi því geta farið svo, að við gengum það aftur. En ég vil í þessu sambandi benda á það, að frá árinu 1927, á því tímabili, sem framsóknarmenn hafa farið með völdin, hefir meira verið unnið að vegagerðum en nokkurntíma áður á jafnlöngum tíma. Voru þetta svik frá framsóknarmönnum? Nei, þeir hafa ekki svikið neitt, því það hefir sennilega aldrei verið gert jafnmikið að vegabótum á svona stuttum tíma í nokkru nágrannalandi okkar. En hvernig fór eftir að sambræðslustj. tók við völdum? Þá var malbikunin ekki framkvæmd. Og ég hafði ekki tekið eftir því, fyrr en fyrir nokkrum dögum, að eftir landsreikningunum að dæma, þá hefir ekki verið notuð nærri öll sú fjárhæð, sem verja átti til vegabóta árið 1932, eins og t. d. til Holtavörðuheiðar, sem er slæmur farartálmi á leiðinni norður. Þar hefir ekki verið notað það, sem lagt var fram í fjárl. Alþ. lagði þá líka á benzínskatt, sem var notaður í annað. Og þó að það hafi verið gert, þá var það unnið upp með stórfelldum vegagerðum, sem voru framkvæmdar á tímabilinu á undan.

Hv. þm. minntist á það enn á ný, að vegirnir hér á landi væru slæmir. Því er auðvitað ekki hægt að neita. En vegirnir eru slæmir m. a. vegna þess, að við höfum ekki fyrr tekið upp það fyrirkomulag að gera þessa áætlun um vegagerð í sambandi við benzínskattinn, sem nú er verið að reyna að koma á og er í fullu samræmi við það, sem gert hefir verið annarsstaðar.

Hv. 2. þm. Rang. lagði sérstaklega mikið upp úr því í ræðu sinni, að fyrst ætti að leggja vegina, og síðan ætti að leggja á benzínskattinn. Og hann tók í því sambandi áður þá samlíkingu, að hafnargjöldin væru ekki lögð á áður en hafnirnar væru gerðar. Hann sagði, að það væri ekki þannig, að hafnargjöldin væru lögð á fyrst, og hafnirnar byggðar á eftir. Í þessu sambandi vil ég benda honum á þá rökskekkju, sem þarna kemur fram, því eins og ég hefi bent honum á áður, þá hefir á stuttum tíma verið lagt meira í vegagerðir hér en í nokkru nágrannalandi okkar. En það er eitt af því, sem andstæðingarnir hafa ráðizt á framsóknarstj. fyrir, að hún hafi lagt mikið fé í vegi og brýr. Viðvíkjandi hinu atriðinu, um bryggjurnar og hafnirnar, þá er að ýmsu leyti viðhöfð sama aðferðin. Ég veit ekki betur en að Rvíkurhöfn sé enn ekki nema að nokkru leyti byggð, og þó er fyrir löngu farið að taka hafnargjöld. Rvíkurhöfn hefir áreiðanlega ekki verið lengra komin að sínu leyti, þegar farið var að taka hafnargjöld, heldur en vegakaflarnir eru komnir nú þegar. En þar sem hafnargjöldin eru, þá er innheimt fjárupphæð til þess að byggja og endurbæta höfnina á hverjum tíma. En það er sama aðferðin og við leggjum nú til, að sé viðhöfð með vegina. Fyrir hvaða fé hefir hinn svokallaði „Sprengisandur“ við Rvíkurhöfn verið byggður, eða hafnarvirkið í Vestmannaeyjum, sem kostaði stórfé? Þetta hvort tveggja hefir verið byggt fyrir skatt þann, sem innheimtur hefir verið í hafnargjöldum. Þetta er ein og sama aðferðin og sú, sem á að viðhafa viðvíkjandi vegunum, þar sem benzínskatturinn er lagður á til þess að byggja þá og endurbæta þá. Ég vék að því í fyrri ræðu minni, og ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka margt af því, sem ég þá sagði, og því síður þar sem hv. 2. þm. Rang. minntist ekki á það, hvernig útreikningurinn verður, ef tekið er tillit til þess, hvað hinir vondu vegir kosta bílaeigendur í benzíneyðslu og sliti á gúmmíi. Þetta er eitt af höfuðatriðunum í þessu máli, og lagði ég sérstaka áherzlu á það í fyrri ræðu minni.

Hv. 1. þm. Reykv. þarf ekki mörgu að svara. Það, sem fram kom í ræðu hans, voru að miklu leyti sömu atriðin og fram komu í ræðu hv. 2. þm. Rang., en þeim hefi ég verið að svara. Hann var ákaflega orðvar, eins og hann er vanalega, þessi hv. guðfræðiprófessor, sem við höfum þá ánægju að hafa hér í þessari hv. d. Hann kallaði fjmrh. gjammara, og viðhafði önnur slík orð. Hann talaði einnig um svik og pretti. Ég sé ekki ástæðu til þess að svara þessu, því að það er vanalega ekki gert. Hann spurði að því, á hverjum benzínskatturinn myndi lenda. Ég hefi bent á það áður, að þó að ég hafi ekki mikla reynslu í bifreiðaakstri, þá hefi ég séð, hvernig bílarnir fara á hinum vondu vegum, t. d. hér í nágrenni Rvíkur, en vegirnir eru þar sérstaklega öldóttir. Á slíkum vegum liðast bifreiðarnar smátt og smátt í sundur, og sérstaklega er eyðslan mikil á gúmmíi. Það má því gera ráð fyrir, að með betri meðferð á bifreiðunum, minni eyðslu á benzíni og gúmmíi, muni skatturinn ekki verða til þess að íþyngja þeim mikið, sem bílana eiga, ef allt er reiknað. Og það er þetta, sem er það stóra atriði í málinu. Hinsvegar verða bílstjórar að leitast fyrir um það, hvort þeir geti ekki að einhverju leyti velt af sér þessari litlu hækkun með auknum fargjöldum. Hinu held ég hiklaust fram - og það er fróðlegt að gera þann útreikning, sem ég talaði um áðan -, að jafnvel þótt ekki sé hækkaður taxti, þá munu bifreiðarstjórar ekki tapa. Það er vegna þess, hve bifreiðar fara illa á þessum lélegu vegum. Þetta er reynsla alstaðar annarsstaðar, að slíkur skattur til vega margborgar sig fyrir þá, sem um vegina aka. Þetta verðum við að taka með í þessu máli, ef við viljum hugsa það niður í kjölinn.

Það var minnzt hér á mjólkurmálið. Ekki skal ég lengja umr. með því að tala um það mál. Það var sagt, að ég hefði komið með ósannindi út af því, sérstaklega að ég sagði það hafa verið pólitískt. Því var þannig svarað, að þau ummæli voru viðlíka sönn og það, sem ég sagði, að bak við bifreiðarstjórana væru pólitísk öfl. Ég ætla að una við, að það sé kallað viðlíka satt, að þessi tvö mál séu af pólitískum toga spunnin.