10.12.1935
Sameinað þing: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

1. mál, fjárlög 1936

Frsm. 3. kafla (Þorbergur Þorleifsson):

Ég vil geta nokkurra brtt., sem tilheyra þeim kafla fjárlfrv., sem ég hefi framsögu að og fjvn. hefir tekið afstöðu til.

Það er þá fyrst 18. brtt. á þskj. 727, við 16. gr., um að veita 150 þús. kr. samkv. l. nr. 25 23. júní 1932 til Hellisheiðarvegar, og að sú vegagerð skuli byrjuð austan frá, við Suðurlandsbraut í Ölfusi. Um þessa brtt. hefir n. óbundnar hendur, en óskar þess, að hún verði tekin aftur til 3. umr.

Þá er 19. brtt. á sama þskj., frá þm. N.-Ísf., að bæta tveim nýjum liðum við 17. gr., 300 kr. styrk til sjúkra- og styrktarsjóðsins Líknar í Ögurhreppi og 300 kr. til sjúkra- og styrktarsjóðsins Hjálpar í viðlögum í Reykjarfjarðarhreppi. Fjvn. leggur á móti þessari brtt., og ég vil geta þess, að þar sem miklar líkur eru til, að tryggingarlöggjöf sú, sem fyrir þinginu liggur, verði að l., þá er líka þýðingarlaust að samþ. till. þessa, því að hún myndi þá verða felld niður aftur, ef tryggingarnar verða að lögum.

Þá er 20. brtt. á þskj. 727, frá þm. Ak., um að fella niður skáldalaun skáldsins Halldórs Kiljan Laxness. Hvað þessa brtt. snertir hefir fjvn. óbundin atkv. Sama er að segja um aðra till. þess efnis, frá hv. þm. N.-Ísf.

Að því er snertir 22. brtt. á þessu sama þskj., frá þm. V.-Sk., að heimila stj. að kaupa jarðirnar Keldudal, Álftagröf og Holt í Mýrdal, vill n. taka það fram, að hún óskar helzt, að till. verði tekin aftur til 3. umr. — Sama máli gegnir og um 23. brtt. á þessu þskj., frá þingmönnum Eyfirðinga, um ábyrgð fyrir tunnuverksmiðju Siglufjarðar. N. óskar, að hún verði tekin aftur til 3. umr.

Þá þarf ég ekki að gera grein fyrir fleiri brtt. f. h. fjvn., og ætla því að snúa mér að því að svara hv. þm. Ak. út af ummælum hans í gær í sambandi við 20. brtt. á þskj. 727, sem hann sjálfur er flm. að. Jafnframt skal ég taka það fram, að allt, sem ég segi í þessu svari mínu, er sagt á mína eigin ábyrgð, en ekki fjvn.Hv. þm. fylgdi þessari till. sinni úr hlaði á þann hátt, að telja verður með endemum, svo ég viðhafi hin sömu orð, sem hann viðhafði sjálfur um ræðu Halldórs Laxness hinn 1. des. síðastl. Að ég ekki svaraði hv. þm. þegar í gær, var sakir þess, að hann var fjarstaddur, en ég vildi ekki svara honum nema hann hefði aðstöðu til þess að hlýða á mál mitt. En nú er hann hér viðstaddur, og get ég því snúið mér að ræðu hans, og mun ég sýna fram á, hve óviðeigandi hún var og ósanngjörn í alla staði. Ég verð að segja það, að það er allóviðfelldið, þegar þinghelgin er notuð til þess, að ráðast með alveg órökstuddum sleggjudómum á fjarstadda menn, sem hafa enga möguleika til þess að bera hönd fyrir höfuð sér á þeim vettvangi. En um þetta gerði hv. þm. Ak. sig sekan í gær, með þeim ummælum, sem hann viðhafði um hið góðkunna skáld.

Það mun vera fágætt, eða jafnvel ekkert fordæmi fyrir, að rithöfundur, sem tekinn hefir verið upp í 18. gr. fjárl., hafi verið tekinn þaðan aftur meðan honum entist aldur til. Vitanlega banna lög þetta ekki, en það hefir ekki verið gert, og svo mikil helgi hefir alltaf verið yfir þessari grein, að það hefir ekki þótt við eiga að fella þá niður, sem einu sinni hafa verið teknir upp í hana. Hinir hatursfyllstu pólitísku andstæðingar hafa jafnvel ekki vegið hver að öðrum á þeim vettvangi.

Í fyrra var það samþ. af mönnum úr þremur stærstu flokkum þingsins að taka Halldór Laxness upp í 18. gr. fjárl.; að vísu voru fáir úr Sjálfstfl., sem greiddu því atkv., en flokkurinn sem slíkur gekk þó alls ekki á móti því. Maður skyldi því ætla, að eitthvað mikið hefði komið fyrir síðan í fyrra, sem réttlætti það að fella skáldið niður af 18. gr. nú, að ári liðnu. En hvað hefir svo gerzt? Það hefir vitanlega ýmislegt gerzt, því alltaf er nú eitthvað að gerast. Það helzta, sem gerzt hefir, er það, að skáldið hefir lesið upp eina smásögu eftir sig, skrifað eina blaðagrein, skrifað stóra bók, og haldið eina ræðu. Smásöguna eða blaðagreinina minntist hv. þm. Ak. ekki á, honum hefir því víst fundizt, að skáldið hafi fengið makleg málagjöld fyrir söguna að minnsta kosti. Það duldist nú ekki, að hitt tvennt, sagan og ræðan, sem skáldið hafði gert sig sekan um, var svo stórvægilegt, að það var í augum þm. hrein dauðasök fyrir skáldið. Hið fyrsta, sem hv. þm. Ak. sagðist hafa lesið eftir Laxness, var grein eða smásaga í dönsku blaði, og eftir þann lestur taldi hv. þm. sig ekki hafa verið vonlausan um, að eitthvað kynni að rætast úr þessum unga manni. Þessu næst sagðist hv. þm. hafa lesið bók skáldsins „Undir Helgahnúk“. Sú bók þótti honum nokkuð losaraleg, skrifuð „milli þankastrika“, en eigi að siður sagðist þm. ekki hafa verið alveg vonlaus um skáldið. En þegar hér var konsið, taldi hv. þm., að straumhvörf hefðu orðið í stefnu skáldsins og lífsskoðun. og ritmennska hans farið að hneigjast inn á verri brautir, og það svo lágar brautir, að ekki væru lesandi upp í þingsalnum kaflar í ritum hans, því að það væri hreint og beint ekki þinghæft. Slíkur er dómur hv. þm. Ak. á verkum H. K. Laxness. — En svo kom aðalkjarninn í ræðu hv. þm., en það var það, sem hann kallaði „síðasta afrek skáldsins“. Og þetta „síðasta afrek“ var ekkert annað en sá óskaplegi atburður, sem gerðist 1. des., að Halldór Laxness, sem ekkert er annað en alþýðumaður, aðeins menntaðri og upplýstari en almennt gerist, og dálítið meira skáld en almennt gerist, hann, þessi maður, leyfir sér að halda ræðu af svolum alþingishússins, og meira að segja, hann leyfir sér að skálma þvert í gegnum sali Alþingis. Jú, hvílíkt reginhneyksli, og á ræðuna hlustar öll þjóðin, og meira en það, hún stendur á öndinni ýmist af hrifningu eða viðbjóði, eftir því hvort hlustandinn er öfgalaus áheyrandi, sem kann skil á því, hvað er vel sagt og hvað er bull, eða þá að hann er með sama smekk og sömu dómgreind og hv. þm. ak., sem fyrirfram telur allt einskis nýtt og einskis vert, sem alþýðumaður segir og rítar. En þá fyrst er hneykslið fullkomið í augum þessa hv. þm., að allt skuli duna af lófaklappi, þegar skáldið lýkur máli sínu. Það er því ekkert undarlegt, þó að hv. þm. hefði þau orð um skáldið, að framkoma þess þennan dag hefði verið á þann hátt, að með „endemum“ mætti teljast, og klingdi út með því, að hann teldi það viðeigandi svar við þessari hneykslanlegu ræðu 1. des. og makleg laun fyrir ýms skrif hans, að hann væri sviptur öllum ritstyrk af opinberu fé. Þá sagði hv. þm. ennfremur, að þetta ætti einnig að vera tilraun til þess að vita, hvort skáldið gæti ekki áttað sig og hætt að velta sér í saurnum, eins og það hefði gert hingað til. Það væri nú synd að segja, að hv. þm. sé mjög myrkur í máli, eða að orðbragð hans sé sérlega fínt og fágað. Ég vil nú spyrja: Hvað er það, sem hér er að gerast? Hvaða andi er það, sem svífur yfir vötnunum? Er það ekki andi pólitísks ofstækis og haturs? Laxness hefir haldið ræðu, sem íhaldsmönnum líkar ekki. Þess vegna á að fella hann út af fjárl. (GSv: Hvað segir hv. þm. um þá ræðu?). Ég ætla ekki að dæma um þá ræðu, því hún kemur málinu ekki við, enda mun ég koma að því síðar. En mér finnst ekki mega minna vera en að hv. þm. Ak., sem ráðizt hefir n þessa ræðu, hann útskýri, á hvern hátt hún er dauðasök, svo að fella beri styrk til skáldsins niður á fjárl. Ræða Laxness 1. des. þótti ýmsum snjöll, en aðrir voru hneykslaðir, eins og oft vill verða, þegar mikill ræðumaður talar. En jafnvel þótt það væri rétt, að ræðan hafi verið eitthvað athugaverð, eða jafnvel léleg, sem ég ætla engan dóm á að leggja hér, hvorki til né frá, þá kemur það málinu ekkert við. Það getur ekki haft nein áhrif, hvernig ræðan var eða hvernig hún var flutt, hvort skáldið Halldór Kiljan Laxness á að fá skáldastyrk eða ekki. Eða skyldi nokkrum hafa dottið í hug að fella niður skáldastyrk Matthíasar Jochumssonar á sínum tíma fyrir það, þó einhverjir álitu, að hann flytti stundum lélegar ræður eða pólitískt litaðar? Ætli nokkrum hafi fyrir það dottið í hug að kippa af honum þeim skáldalaunum, sem Alþingi sæmdi hann með? Eða ætti eftir sömu reglu að fella niður skáldalaun Guðmundar Friðjónssonar fyrir það, þó hann haldi stundum pólitískt litaðar íhaldsræður? Ég veit ekki, hvað aðrir segja, en ég er ekki með því að fella hann fyrir slíkt, og ég held, að við nánari athugun hljóti hv. þm. Ak. að sjá, að hann fer hér villur vegar, og ef hann sér það ekki, þá vona eg, að hv. Alþingi sjái það.

Ég efa ekki, að hv. þm. hefir talað af sannfæringu, er hann var að lasta skaldið Laxness fyrir hans verk. Þess vegna verður að fyrirgefa hv. þm. Það vita allir, að hann talaði af pólitísku ofstæki þess flokks, sem, ef hann næði völdum í landinu, mundi ofsækja alla frjálslynda menn og hrekja þá úr stöðum sínum fyrir engar sakir. (GSv: Er hv. þm. að tala fyrir hönd fjvn.?). Nei, ég tala fyrir mína eigin hönd. Ef hv. þm. hefir ekki verið í d. þegar ég hóf ræðu mína, þá skal ég segja honum það, að ég skýrði frá því, að fjvn. hefði óbundnar hendur gagnvart Halldóri Kiljan Laxness. Það, sem ég segi um hann, segi ég frá eigin brjósti, því ég finn hjá mér hvöt til að verja skáldið, sem orðið hefir landi og þjóð til sóma bæði utan lands og innan, verja það gegn ómaklegum, óréttlátum og ég vil segja svívirðilegum dómum hv. þm. Ak. í gær. (Forseti hringir). Það, sem hv. þm. bar á hann síðast, að hann hefði flutt ómögulega ræðu af svölum alþingishússins, hefi ég sýnt fram á, að kemur því ekkert við, hvort hann fær skáldalaun eða ekki, jafnvel hvernig sem ræðan hefði verið. Það kemur verðleikum skáldsins ekkert við. Ég skal þá koma að því, hvort skáldið hafi unnið sér til óhelgi með síðustu bók sinni, „Sjálfstætt fólk“, sem nýlega er komin út og ég býst við, að flestir hv. þm. hafi lesið. alþingi sæmdi skáldið í fyrra verðlaunum fyrir fyrra hefti bókar þessarar, og þó hr. þm. Ak. geti kannske fundið einhverjar smekkleysur í þessum bókum, þá kemur það málinu ekkert við, því þær eru einskis virði móti snilldinni, sem er svo mikil, jafnvel þó nokkrar smekkleysur finnist á víð og dreif. Og vilji hv. þm. Ak. leiða bókina sem vitni, þá er hún hér til staðar, og getur hann fengið hana lánaða, en ég vil geta þess, að meðal mestu bókfræðinga þjóðarinnar þykir þessi síðasta bók skáldsins heilsteypt listaverk, og þykir mér því engin ástæða að fjölyrða um bókina, en ef hv. þm. Ak. ætlar sér að gerast siðameistari um rithátt, þá vil ég benda honum á að líta sér nær og svipast um í eigin herbúðum, vita hvort hann getur ekki haft siðbætandi áhrif þar, — a. m. k. álít ég, að mörg af blöðum Sjálfstfl. standi ekki það hátt hvað velsæmi í rithætti snertir, að þm. farist að gera sig stóran og vera með siðapredikanir á bv. Alþingi um það, hvernig skáld eiga að skrifa bækur sínar.

Hv. Alþingi stendur nú í svipuðum sporum og það hefir oft staðið áður (GSv: Hvaða sporum?) Í svipuðum sporum og áður, er það hefir verið að ræða um andans menn þjóðarinnar. En ég held, að gifta hverrar þjóðar sé í því fólgin, að hún kunni að meta sína andans menn og snillinga, og það verð ég að segja, að íslenzka þjóðin hefir kunnað það á síðustu tímum, og síðan hefir gifta fylgt þjóðinni og hróður hennar aukizt út á við og inn á við. Ég minntist á það áðan, að hv. AIþingi hefði áður stuðið í svipuðum sporum og svipuð átök átt sér stað um ýmsa andans snillinga þjóðarinnar. Ég skal geta um eitt atriði, sem er mér í barnsminni. Það var fyrir 30 árum, að átök urðu á Alþingi um skáldið Þorstein Erlingsson. Það var þegar þingið viðurkenndi snilli hans, þó sumir álitu hann róttækan byltingamann og þess vegna hættulegan yfirstéttinni, eins og Halldór Kiljan Laxness nú er talinn. Þorsteinn hafði þá nýlega ort kvæðið Örlög guðanna, sem hneykslaði ekki minna þá en Laxness gerir nú. Þá var þm. A.-Sk., Jón prófastur Jónsson á Stafafelli, mikill menningarfrömuður og bókfræðingur. Ég man eitt sinn, er hann kom af Alþingi, þá hlustaði ég á samtal hans við gáfaðan bónda þar austur í Hornafirði. Þeir voru báðir heitir trúmenn og voru ákaflega reiðir við skáldið fyrir að hafa ort þetta kvæði, Örlög guðanna, og ég minnist þess, að bóndinn spurði séra Jón, hvort hann hefði ekki verið á báðum áttum með að greiða atkv. með skáldastyrk handa þessum manni, en séra Jón svaraði hiklaust: Nei. Maður verður að setja snilldina ofar öllu öðru, sagði hann. — Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en ég vænti þess, að hv. Alþingi enn í dag meti snilldina eins mikils og fyrir 30 árum.