04.03.1935
Efri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (2913)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta frv., sem hv. þm. S.-Múl. og ég höfum borið hér fram, er að nokkru leyti gamall kunningi frá síðasta þingi, þó það sé í nokkuð annari mynd nú, en efnismunur er þó lítill. Er hann aðallega sá, að í fyrra frv. var eingöngu miðað við flutningaskip, en í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gengið út frá, að loftskeytatæki séu sett í hvert íslenzkt skip, sem er yfir 200 rúmlestir og siglir til útlanda. Er frv. borið fram samkvæmt eindregnum tilmælum þeirra manna, sem þar standa næstir, en það eru félög íslenzkra loftskeytamanna og sjómannafélögin hér og í Hafnarfirði, auk þeirra reikna ég með skipstjórum og stýrimönnum og verkstjórum sem þessu máli fylgjandi. Allar þessar stéttir má gera ráð fyrir, að standi mjög einhuga að þessu máli.

Ég skal játa, að nú munu ákvæði um þetta í alþjóðareglum ekki ná nema til farþegaskipa. En öll slík skip, hvort sem þau eru stór eða smá og sigla milli landa eða með ströndum fram, skulu hafa loftskeytatæki. En þetta hefir ekki verið framkvæmt hér, t. d. eru þau ekki í skipunum, sem sigla milli Borgarness, Akraness og Reykjavíkur, og mun svo vera um flesta eða alla flóabáta hér við land, sem flytja fólk og varning hafna á milli. Það þykir ekki nauðsynlegt eða fært að skylda minni báta, sem eru í stuttum ferðum, til þess að hafa loftskeytatæki. En um almenna nauðsyn þess, að skip séu útbúin slíkum tækjum, skal ég vísa til þess, sem ég sagði í umr. um þetta mál á síðasta þingi. Auk þess er nú prentað upp í grg. frv. sem fylgiskj. umsögn sérfróðra loftskeytamanna, sem rökstyðja svo nauðsyn þessa máls, að ekki verður véfengt. Er þar sýnt fram á, að reynslan hefir þegar sannað, að loftskeytastöðvar eru hið mesta og bezta öryggi, sem hægt er að veita lífi sjómannanna undir flestum kringumstæðum. Þá er í fskj. II gerður samanburður á nothæfi loftskeyta og talstöðva með tilliti til öryggis fyrir sjófarendur. Er þessi samanburður gerður af hinum bezt menntu mönnum í þessum efnum meðal loftskeytamanna, og verður því að taka fullt tillit til þeirra. Sýna þeir fram á, svo ekki verður um deilt, að talstöðvar geti aldrei orðið svipað því eins öruggar og loft skeytastöðvar. Taldi ég sérstaka ástæðu til þess að taka þessi ummæli upp í grg., þar sem um það var deilt í síðasta þingi, hvort heppilegra væri að nota loftskeyti eta talstöðvar.

Ég skal svo aðeins bæta því við, að hreyfing í þessa átt fer vaxandi meðal erlendra þjóða. Ég hefi t. d. set í nýkomnum fréttum, að Kanada hafi sett sér það takmark að verða brautryðjandi í því að koma loftskeytatækjum í öll sín skip. Þannig mætti nefna fleiri þjóðir, og jafnvel Norðmenn, sem eru mikil siglingaþjóð og eiga mikinn flota á heimshöfunum, styðja málið í blaðaskrifum. Það lítur því út fyrir, að ekki verði langt að bíða alþjóðasamþ. í þessum málum. Ég tel, að við ættum að gera það að metnaðarmáli, þó við séum „fátækir, og smáir“, sem sumir menn hampa svo oft fram, að sýna öðrum þjóðum, hvað við viljum gera fyrir okkar sjómannastétt og verða á undan til framkvæmda, þó þær síðar kunni að gera slíkt hið sama. - Ég tel svo nægilegt að vísa til grg. frv. og mælist til, að hv. þdm. leyfi málinu til n. En þar sem frv. lá fyrir sjútvn. á síðasta þingi og tveir úr n. eru flm. frv., hefir mér dottið í hug, að betur færi á því að það færi nú til allshn.

Ég vil svo aðeins benda í eina prentvillu í grg., þar sem sagt er, að 28 menn hafi bjargazt af Skúla fógeta; þeir voru því miður ekki nema 24.