04.03.1935
Efri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2004 í B-deild Alþingistíðinda. (2921)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Út af ræðu hv. þm. N.-Ísf. vil ég taka það fram, að ég mun verða mjög þakklátur honum, ef hann gengur með okkur flm. í þessu nauðsynlega máli. Hitt held ég, að sé til í loftið hjá honum, sem hann var að spá, að farið verði að flytja út ísfisk á mjög litlum skipum, eins og t. d. mótorbátum. Minnstu skipin, sem ísfiskur hefir verið fluttur til á, eru stærstu línuveiðararnir, eins og Ólafur Bjarnason og álíka skip. Þá vil ég og benda hv. þm. á, að enginn togari siglir á milli landa með færri en 12 menn. Það munu aðeins dæmi þess, að siglt hafi verið að sumarlagi með 11 menn. Og nú er þetta allt samningsbundið, svo ekki getur komið til greina að siglt verði með færri menn en þessa tölu. (JAJ: Hvernig er það á línuveiðurunum?). Á þeim er þessi mannatala. Þó skal ég ekki fullyrða, að það séu 12 menn á Eldborginni frá Borgarnesi; sé það ekki, þá er það eina skipið, sem er fyrir neðan þetta lágmark.