30.10.1935
Efri deild: 56. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (2924)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Frsm. minni hl. (Jón A. Jónsson) [óyfirl.]:

Þetta mál hefir verið nokkuð rætt í þessari hv. d. áður, og get ég því orðið fáorðari um það heldur en ég ella hefði orðið.

Það, sem meiri hl. byggir á, er, að talstöðvar séu ekki eins gagnlegar til öryggis á sjó eins og loft skeytastöðvar. Og það, sem þeir í þessu máli halda alveg sérstaklega fram uni mismuninn á öryggi þessara tækja, er það, að eins og nú sé, sé ekki hlustað eftir talstöðvum, af því að ekki sé hlustvörður, sem heyri alltaf, þó talstöðvar kölluðu. Nú eru talstöðvar almennt í skipum og einnig í fjölda fiskibáta kringum allt landið, svo að það er mjög mikil nauðsyn á því, að einhver vörður sé í landi, til þess að taka á móti skeytum frá talstöðvum þessara skipa, því að það eru áreiðanlega miklu, miklu fleiri mannslíf í veði á fiskiflota okkar heldur en á þessum fáu döllum, sem annast flutninga hjá okkur og ekki enn hafa loftskeyti. Á fiskiskipaflotanum eru hundruð manna á móti tugum manna á þeim skipum, sem hér á að lögbjóða loftskeytastöðvar á. Þess vegna, ef hv. flm. Þessa frv. ætla að vinna sjómannastéttinni íslenzku gagn og öryggi, þá ættu þeir að krefjast þess, að komið verði upp varðstöð, sem hlustaði alltaf á kall frá fiskibátum á hinum ýmsu stöðum kringum landið. Og á fiskibátum okkar er sannarlega sá fjöldi manna, og þeir venjulega í miklu meiri hættu staddir heldur en þessir menn, sem eru á milliferðaskipunum, að það ætti að byrja á þeim enda að auka frekar öryggi sjómanna við strendur landsins. En það er ekki hægt að koma fram neinum skynsamlegum till. í þessu máli. Hv. flm. vilja nú ekki sjá annað en þetta, þessi fáu skip, sem þeir villa setja loftskeytastöðvar í, og stöðvar allar aðrar framkvæmdir í þessa átt á meðan þetta mál, sem frv. þetta er um, er ekki komið fram, samanber það, að þeir stöðvuðu á þinginu í fyrra frv. áþekkt þessu frv. - Ég tel réttast að fela Slysavarnafélagi Íslands að hafa slíka varðstöð á hendi, sem ég hefi minnzt á, til að taka á móti talskeytum frá hinum ýmsu fiskimiðum. Og ég er sannfærður um, að á þann hátt væri öryggi sjómanna miklu betur borgið heldur en með því að geta þvingað fram lögboð um, að hafa skuli loftskeytastöðvar í örfáum flutningaskipum, sem fara á milli landa.

Hv. meiri hl. og flm. frv. hélt því fram, að lítið öryggi væri í því fólgið fyrir skip að hafa hljóðdýptarmæli. En nú sýna einmitt skýrslurnar, sem lagðar eru fram í grg. frv., að ef hljóðdýptarmælir hefði verið í þeim skipum, sem þar eru talin og hlekktist á, þá er sýnilegt, að hann mundi hafa bjargað, þannig að ekkert strand hefði orðið. Hv. meiri hl. hélt því fram, að hljóðdýptarmælar væru ófullkomnir, en slíkt er mesti misskilningur. Þeir mæla jú kannske einum metra dýpra eða grynnra, eftir því, hvort skipið er á öldutoppi eða á öldulægð, eða ef þeirri er stefnt skáhallt í sjóinn. En þetta tæki er svo fullkomið, að t. d. togarar toga alveg eftir þessu tæki á þeim slóðum, þar sem dýpi er ákaflega mismunandi, kannske svo mismunandi, á á 100 m. breytist það úr 70 m. og er orðið 120 m. Þetta sýnir, að þessi mælir er nákvæmt tæki. - Ég hefi ekkert sagt um það í mínu nál., hvað hljóðdýptarmælir kosti. Það, sem hv. frsm. minni hl. talaði um það, er á misskilningi byggt. Ég veit, að hann kostar 8000-9000 kr. En það þarf engan sérfróðan mann til þess að lesa á þessa mæla, eða með neina sérkunnáttu. Það getur hver, sem er á vakt í það og það skiptið, skipstjóri eða stýrimaður. Þess vegna er enginn starfrækslukostnaður í sambandi við hljóðdýptarmælana. Svo að hér er ekki svo lítill munur á, þar sem starfræksla loftskeytastöðvar kostar árlega mörg þús. krónur. Hv. frsm. meiri hl. heldur því fram, að hugsanlegt væri að fela yfirmönnum skipa, svo sem stýrimönnum, starfrækslu loftskeytastöðva þessara, sem hann vili hafa í flutningaskipunum. En svo er hinsvegar í 1. gr. frv. hans talað um fullkomna starfrækslu á þessum stöðvum. Til slíkrar fullkominnar starfrækslu held ég, að þurfi á hverju skipi að vera sérstakur maður. Ég hygg, að engum blandist hugur um, að hér er miðað að því, að svo skuli vera.

Hv. frsm. hefir kannske komið það illa, að ég benti á, að ekki einu sinni er það skylda í Noregi hjá þeirri þjóð, sem við þurfum að keppa við í þessu efni, að hafa loftskeytastöðvar á farþegaskipum. Nei. En það á að fara að skylda flutningadallana okkar til að hafa fullkomlega starfræktar loftskeytastöðvar á meðan okkar keppinautar kosta engu slíku til. Það sést á þessu, hvaða mismun á aðstöðu þetta kemur til leiðar hjá okkur og Norðmönnum. Það hefir verið á það bent, að samkv. tölum, sem teknar hafa verið upp úr skipsbókum 2 skipa, var mismunurinn á rekstrarkostnaði íslenzks og norsks flutningaskips í fyrra nálega 2 þús. kr., sem íslenzkt skip var dýrara í rekstri. Þessa menn eigum við svo að skipta við.

Hv. frsm. meiri hl. efast um, að starfrækslukostnaður loftskeytastöðvar í flutningaskipi verði 5 þús. kr. Hér er ekki nóg að taka kaup loftskeytamannsins aðeins til greina. Stöðin þarf líka viðhald og afl. Ég ætti að vera dálítið kunnugur því, hvað þetta kostar, því að á skipi, sem ég gerði út í 8 ár, var loftskeytastöð og loftskeytamaður. Þegar ég hafði afburðagóða loftskeytamenn, sem fóru alveg sérstaklega vel með allt, sem stöðinni tilheyrði, þá var meðalkostnaðurinn við loftskeytastöðina, þegar allt var í bezta lagi, 4200-4300 kr. árlega. En þegar í meðallagi góður loftskeytamaður var við stöðina, þá fór kostnaðurinn við hana á ári allt upp í 5 þús. kr. - Fyrir nokkrum árum kostuðu slíkar loftskeytastöðvar 10 þús. kr., en nú mun mega fá þær fyrir 6-7 þús. kr. Það er ekki hægt fyrir hv. frsm. meiri hl. að hrekja þær tölur, sem ég kem hér með, þær eru þannig undirbúnar.

Hv. frsm. meiri hl. benti á strand „Skúla fógeta“. En hefði þetta skip strandað, hefði það haft hljóðdýptarmæli? Ég veit, að við hv. frsm. sem vanir sjómenn, segjum: Nei. Það væri óhugsandi, að það hefði strandað þá. Yfirleitt má segja hið sama um öll þau skip, sem talin eru í grg. frv. Báturinn frá Vestmannaeyjum bjargaðist ekki af því, að í honum væri loftskeytastöð, heldur af því, að loftskeytastöð var í landi, sem gat sent skeyti til skips, þegar þess varð vart, að bátinn vantaði. Svo var leit hafin að honum. Slíkt á sér oft stað.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl., að vöknuð væri hreyfing meðal annara þjóða um að lögbjóða að hafa loftskeytastöðvar og sömu tegundar og skip þau, sem hér um ræðir. Ég hefi sagt það, að jafnskjótt og keppinautar okkar, Norðmenn, taka upp þá reglu að hafa loftskeytastöðvar í flutningaskipum sínum, þá sé sjálfsagt fyrir okkur að gera hið sama undir eins. En við verðum á þessum erfiðleikatímum að taka tillit til þess, hvað við getum. Það er ekki nóg að fyrirskipa, að svona skuli það vera, ef ekki er hægt að framkvæma það viðvíkjandi flutningaskipaútgerð okkar er það að segja, að 2. útgerðarfélögin af 3. hafa tapað á þeirri útgerð á síðasta ári, og það stórfé. Hvar lendir það nú, ef á svo að fara að auka útgerðarkostnaðinn. Það lendir við það, að það verður að selja skipin, sem þessi félög hafa tapað á að hafa í förum. Menn hljóta að neyðast til þess. Það var í undirbúningi sala á tveimur af þessum skipum í sumar, sem leið, sem þó hefir ekki orðið af enn, vegna yfirfærsluvandræða í þeim löndum, sem skipin ættu að seljast til. Menn hafa neyðzt til þessa vegna taps á útgerðinni.

Hv. flm. sagði, að við skyldum ekki tala um þær reglur, sem ríktu hjá öðrum þjóðum. Jú. Það eru einmitt þær, sem við verðum að taka tillit til, þegar við ákveðum um þessi mál. Við þurfum að setja okkar mönnum sem næst sambærileg skilyrði við það, sem gerist með öðrum þjóðum, þegar við ætlum að reka atvinnuveg í samkeppni við aðrar þjóðir. Við getum ekki tekið okkur úr og sagt: Okkar útgerðarkostnaður er meiri en Norðmanna, svo að við verðum að fá hærri flutningsgjöld.“ Slíkur kjánaskapur yrði ekki heyrður. - Í öðru orðinu vildi þessi hv. þm. þó taka eitthvað útlendar raddir til greina. Það eru uppi meðal amerísku þjóðarinnar, eins og hv. þm. orðaði það, kröfur um að setja loftskeytastöðvar í þeirra skip. Við höfum nú haft loftskeytastöðvar í togurum í mörg ár. En þeir virðast ekki hafa gert það enn þar vestur frá, en virðast vera á eftir okkur í þessu. Við skulum láta þá ná okkur á þessu sviði áður en við tökum þá til fyrirmyndar á þessu sama sviði.

Það er mjög eðlilegt, að loft skeytamenn vilji gjarnan, að slíkt frv. sem þetta nái fram að ganga, því að þeir munu nú þegar orðnir fleiri en svo, að þeir geti fengið atvinnu við sina starfsgrein. Skipunum, sem hafa loftskeytamenn, hefir ekki fjölgað, en þeim mönnum hefir fjölgað, sem lært hafa þetta starf. Þá vantar því atvinnu. En það er alveg ómögulegt að ætla sér að skapa fólki atvinnu á þennan hátt. Það mætti æra óstöðugan, ef við ætluðum t. d. að fara að skapa öllum þeim, sem læra lögfræði, lögfræðileg embætti. Og svo öðrum stéttum, eftir því, sem menn lærðu ýmsar sérmenntir.

Ég held því fram, að talskeytastöðvar yrðu sjómönnum okkar, og þá fyrst og fremst hinni fjölmennustu stétt okkar sjómanna, fiskimönnunum, til miklu meira öryggis heldur en það, sem frv. þetta fer fram á, loftskeytastöðvar í nokkrum tilteknum skipum. Það, sem við eigum að keppa að til öryggis okkar sjómannastétt, er að hafa talstöð í landi, sem geti tekið á móti skeytum frá fjölda báts, sem hafa og munu hafa talstöðvar. Slíkt mundi áreiðanlega verða til mikils öryggis fyrir hina mörgu menn, sem stunda fiskiveiðar á mótorbátum og smærri bátum. Ég hefi ekki treyst mér til að koma fram með brtt. í þessa átt, vegna þess að hv. flm. sýndu það á þinginn 1934, að þeir vildu ekki hlíta neinum slíkum breyt. Ég er tilbúinn, hvenær sem er, ef ég get náð samkomulagi við þá, að bera fram slíka brtt. og að vinna að því, sem væri mjög nauðsynlegt, að fastir kallverðir væru hafðir í landi, svo hægt væri á öllum tímum sólarhringsins að taka á móti talskeytum frá fiskiskipum og bátum.