14.12.1935
Neðri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2016 í B-deild Alþingistíðinda. (2939)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Frsm. 1. minni hl. (Páll Þorbjörnsson) [óyfirl.]:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er komið frá hv. Ed. Hefir sjútvn. haft það til meðferðar, en meðmn. mínir hafa ekki orðið á eitt sáttir um, hvernig eigi að afgr. það. Hinsvegar er n. sammála um, að auka þurfi öryggið á sjónum. Við 2 nm., hv. þm. Ísaf. og ég, leggjum til, að frv. verði samþ., en 2 nm., hv. þm). Vestm. og hv. 6. þm. Reykv., vilja gera á frv. ýmsar breyt., og sé ég, að komið er fram frá þeim nál., sem þeir munu gera grein fyrir. 5. nm., hv. þm. N.-Þ., hefir ekki tekið afstöðu til málsins. Ég hygg, að ekki þurfi að eyða mörgum orðum að því, hve mikil nauðsyn er til þess, að skip, jafnvel þó þau flytji ekki farþega, hafi loftskeytatæki til þess að bjarga sér. Frv. gerir ráð fyrir, að hvert flutningaskip, sem fer á milli landa og hefir 12 manna áhöfn eða meira, og farþegaskip meira en 200 smálestir, skuli hafa loftskeytatæki. Það er svo, að mýmörg dæmi fyrr og síðar sanna, að eitthvert öruggasta björgunartæki eru loftskeyta- og miðunartæki. Ég mun ekki fara langt út í þetta nú, en benda á nærtækt dæmi, þegar nú fyrir nokkrum dögum, að enskur togari, sem staddur var austur af Vestmannaeyjum, missti skrúfuna, en gat samstundis sent út neyðarmerki, sem heyrðist til Vestmannaeyja, er sendi strax mótorbát til hjálpar. Einnig höfðu tveir botnvörpungar heyrt skeytin og komu á vettvang og drógu togarann til hafnar. Eru miklar líkur til, að hann hefði annars orðið að hrekjast lengi, og mjög óvíst um afdrif hans, ef hann hefði ekki haft loftskeytatæki.

Vænti ég, að hv. þd. tefji ekki framgang þessa máls og að því verði tekið vel hér í hv. d., eins og í hv. Ed., og endalok þess verði á sama veg.