14.12.1935
Neðri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (2940)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Frsm. 2. minni hl. (Sigurður Kristjánsson) [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. 1. minni hl. sjútvn. hefir skýrt frá, er n. í raun og veru þrískipt, þó hún sé sammála um að setja reglur um aukið öryggi við utan- og innanlandssiglingar, en það skilur, hverjar leiðir skuli fara.

Ég vil taka það fram, að hvergi í heimi mun vera til löggjöf, sem fyrirskipar skipum af þessari stærð að hafa loft skeytastöðvar. Það var ákaflega mikið vandamál fyrir okkur í n. að ráða fram úr, hvernig hægt er að auka öryggið á skipunum jafnframt því að koma ekki í veg fyrir, að Íslendingar geti tekið þátt í siglingum. Það er vitanlegt, að við Íslendingar siglum mikið dýrara en aðrir menn, t. d. Norðmenn þó nokkrir framtakssamir menn hafi reynt að halda þeim uppi. Okkur þótti því viðurhlutamikið að leggja stein í götu þeirra manna, sem eru að leitast við að ná siglingunum undir landsmenn sjálfa.

Við hv. þm. Vestm. teljum, að við höfum fundið leið til þess að auka öryggið eftir því, sem til er ætlazt, án þess að kostnaður geri ókleift að halda uppi siglingum. Það verður ekki um deilt, að sé tilgangurinn sá einn að auka öryggi sjómannanna, verður það eins vel gert með leigustöðvum. Þá geta heldur ekki verið skiptar skoðanir um, að stöðina er eins gott að rækja með manni, sem hefir stýrimannspróf, eins og ef hann hefði það ekki. Ég hika ekki við að segja, að þeir menn, sem ekki vilja fallast á þessa úrlausn málsins, hafa ekki þann tilgang með frv. að auka öryggi skipanna, heldur þann að koma í veg fyrir, að þessi atvinnuvegur geti átt sér stað.

Ég hygg, að geti skipin fengið stöðvarnar leigðar með bærilegum kjörum, eins og gert er ráð fyrir samkvæmt viðtali við landssímastjóra, að kostnaðurinn verði ekki meiri en svo, að útgerðin muni ekki setja harm fyrir sig. Hinsvegar eru nokkur vandkvæði á því að fá starfsmann á skipunum til að annast loftskeytin. Víða annarsstaðar tíðkast við stýrimannaskóla aukakennsla í loftskeytafræði. Mér hefir verið tjáð af manni, sem kennt hefir hér við stýrimannaskólann, að þó tekin væri aukakennsla í þessum fræðum, þyrfti það ekki að lengja námstímann, því það mætti taka jafnhliða sjómennskunámi. Erlendis leggja margir þetta á sig, til þess að tryggja sér betri atvinnu á eftir. Hefir reynzt svo annarsstaðar, að ekki er vandkvæðum bundið að fá menn með stýrimannsprófi til þess að taka þetta að sér útgerðinni að kostnaðarlausu.

Ég býst við, að mörgum þyki hæpið að leggja smáflóabáta þann kostnað að hafa ritskeytastöðvar. En loftskeyti þjóðir hvort sent er riteða talskeyti, og getur ráðh. því heimilað hvora tegundina, sem betur hentar.

Ég vil taka fram til skýringar, að brtt. okkar hv. þm. Vestm. er átt við skip með 12 manna áhöfn í millilandaferðum og farþegaskip, sem sigla með ströndum fram og eru yfir 200 smálestir. Minni bátar, sem sigla með ströndum fram, eru ekki skyldaðir til að taka talstöðvar um borð.

Ég þarf svo ekki fleiri orð um fyrri brtt. - Seinni brtt. fer fram á að nema úr frv. síðasta málslið 3. gr., um að hlíta ákvæðum reglugerðar frá 27. nóv. 1933. Svo stendur á, að reglugerðin er sett samkv. l. frá 1917 um starfrækslu loftskeytastöðva hér á landi, en nær ekki til þessara stöðva.

Ég geri ráð fyrir, að skoðanir verði skiptar um leiðirnar, en mér sýnist, að við hv. þm. Vestm. höfum fundið millileið, sem tryggi öryggi skipanna, en verði ekki þröskuldur á vegi útgerðarinnar eða þurfi að draga hana niður í samkeppninni við útlendinga.

Ég hefi heyrt talað um, að það væri ekki meira fyrir flutningaskipin að hafa loftskeytamann um borð en togarana. En þetta hlýtur að koma af ókunnugleika, því hér er ólíku saman að jafna. Flutningaskipin hafa ekki þörf fyrir loftskeytatækin, nema sérstaklega standi á, svo sem að slys beri að höndum, og eru því mjög sjaldan notuð. En togararnir nota þau einnig vegna atvinnurekstrarins, bæði til þess að fregna um fiskigöngur og hafa samband við útgerðarstjórnina í landi um, hvert þeir eigi að fara, hvenær að losa o. s. frv. Vitanlega eru þau einnig höfð þar til öryggis, en það ætti ekki að vera minna, þó tækin væru leigð, en þó þau væru keypt eða þó loftskeytamaður hefði einnig stýrimannspróf.

Ég vil vænta, að hv. flm. sýni, að frv. hafi verið flutt af einlægni og gangi inn á þá millileið, sem við hv. þm. Vestm. höfum bent á, því ég er hæddur um, að frv. muni falla að öðrum kosti.