20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (2951)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal viðurkenna, að breyt. á frv. í Nd. hafa fært það nær því, sem hægt er að ganga að. En samt eru enn á því þeir agnúar, sem ég og fleiri höfðu aðallega á móti því, sem sé kostnaðaratriðið fyrir þau skip, sem eiga hlut að máli. Ég man ekki með vissu, hvort það var komið í frv., þegar málið fór héðan, að landssíminn skyldi leigja stöðvar, og það léttir dálítið stofnkostnaðinn. En það, sem er náttúrlega aðalatriðið og aðalkostnaðinn, er starfræksla stöðvanna. Og það er ekki nema blekking til að afla fylgis við þetta frv., að í stað þess að upprunalega frv. gerði ráð fyrir fullkomlega starfræktri loft skeytastöð, skuli aðeins hafa á skipinu mann með loftskeytaprófi. Vitanlega geta samtök loftskeytamanna krafizt, að reglulegur loftskeytamaður sé á skipunum, og því verður ekki á móti staðið. Á þessum skipum eru yfirleitt þeir menn í förum, sem ekki hafa lært loftskeytafræði og hafa engan tíma til þess að fara á skóla og læra „morse“ og annað, sem þarf til. Í öðru lagi eru þeir í þeim aldri yfirleitt, að talið er útilokað, að menn geti lært slíkt. Síðast en ekki sízt er sá mikli kostnaður, sem myndi koma á þessi skip, sem eru í íslenzkum höndum. Hinn upphaflegi kostnaður er auðvitað mikill, en þó hefi hvorki ég né aðrir andmælendur lagt höfuðáherzlu á það, heldur er það starfrækslan, sem mundi gleypa þann litla hugsanlega ágóða, en sem reikningarnir sýna, að enginn er. Þessi skip eru rekin nú með þeirri afkomu, að ég hygg, að allir eigendur óski að geta losað sig við þau.

Hv. flm. brýnir mig á því, að ég skrifi fagurlega um tryggingu og öryggi sjómanna, en við annan tón kveði í ræðu minni. Ég hefi ekki sagt eitt einasta orð í þessu máli um það, að ekki beri að tryggja líf sjómanna sem bezt. En ég veit og þm. veit það eins vel og ég, að það er ekkert til, sem heitir að tryggja virkilega öryggi sjómanna. Þetta má tryggja að vissu marki, en aldrei meira. Eina tryggingin, sem dugar, er, að menn fari ekki á sjó. Og það er tryggt með þessu frv., því að þessi skip verða sennilega að lenda, ef þessi l.samþ., íslenzkir sjómenn hætta að sigla þessum skipum sínum til annara landa. Er þá öryggi sjómannanna tryggt gagnvart þeim skipum. Veit ég ekki, hvort menn óska eftir því. Það eru ekki fáar fjölskyldur, sem framfærslu hafa af siglingum á þessum skipum. Þau eru sæmilega útbúin og allstór. Er sennilega miklu minni hætta að sigla á þeim skipum, sem eru tiltölulega mikið af tímanum úti í rúmsjó, heldur en að vera í ýmsum skipum og bátum, sem að mestu hafast við nálægt landi, En einmitt nálægt landi, þar sem mest er hættan, er alveg eins hægt að tryggja öryggi þessara skipa miklu ódýrar með talstöðvum, sem hver matur getur starfrækt. Þetta benti ég á vita 2. umr.

En hvernig stendur á því, að þeir, sent ekki vilja hugsa neitt um annat en öryggi, hvað sem lítur því, hvort nokkur maður hefir nokkurt fjárhagslegt öryggi með því að leggja út í slíkan kostnað, heimta ekki eitthvert geysimikið hámark um stærð skipa, t. d. að enginn megi stíga í skip, sem er minna en 10 þús. smálestir?

Það er vitaskuld, að hv. flm. og ég erum sammála um það, að tryggja beri öryggi manna á sjó eins langt og mögulegt er á þann hátt, að hlutaðeigandi fyrirtæki geti staðizt kostnaðinn. Það er svo, að í mörgu er ekki hægt að fá allar óskir uppfylltar. Við getum ekki malbikað alla vegi, gert alstaðar stórar hafnir og radiovita og brúað hverja stóra og smáa á. Við viljum mikið framkvæma, en framkvæmdir okkar hljóta að mótast af hinni raunverulegu getu. Ég hefi ekki sett markið hærra en það, að séð sé fyrir eins miklu öryggi eins og yfirleitt er hægt í okkar landi að veita sjómönnum, þannig að kostnaðarinn sligi ekki starfræksluna, svo að það öryggi fáist, að hún haldi áfram. Eingöngu í þessu greinir okkur á. Umr. um þetta mál og svipuð eiga að fara fram á sómasamlegum grundvelli og lausar við þær skríldylgjur, sem menn of mikið temja sér, svo sem það, að við viljum sjómenn feiga og gera allt til að drepa þá. Það er ósæmilegur málaflutningur.

Ég hefi sannfært mig um það, að þessi skip, sent hér eiga að máli, mega engu við sína miklu rekstrarörðugleika bæta, heldur verða að gera allt, sem hægt er, til að draga úr rekstrarkostnaðinum, til þess að geta verið í íslenzkum höndum áfram, en í því er mikil nauðsyn. Þó að þetta frv. hafi tekið nokkrum breyt. í Nd., til að létta kostnaðinn, þá er stærsta atriðið því miður aðeins þýðingarlaus orðabreyting, og get ég því ekki greitt frv. atkv. í þessari mynd.