23.10.1935
Neðri deild: 55. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (2963)

133. mál, framfærslulög

Pétur Ottesen:

Enda þótt ég reyndi að leggja við hlustirnar áðan, þegar hv. 1. fim. frv. hélt ræðu sína, tókst mér ekki, sökum þess hve mikill kliður var í d., að heyra mál hans til hlítar. Er illt til þess að vita, að slíkt skuli geta komið fyrir, þegar um jafnmikilsvert mál er að ræða og mál það, sem hér liggur fyrir.

Þetta frv. felur í sér allverulegar breyt. á því fyrirkomulagi, sem verið hefir hér á landi lengst af í þessu efni, en stærsta breyt. í þessu frv. er breyt. um fátækraframfærsluréttindin. Mér virðist breyt. sú, sem hér kemur fram, eðlileg afleiðing af þeim miklu breyt., sem orðið hafa á háttum manna hér á landi upp á síðkastið, nefnilega, að menn flytja nú miklu örar milli hreppa og héraða en áður tíðkaðist, og nú er eiginlega til stór hópur manna í landinu, sem á í rauninni hvergi heima, miðað við það, sem áður var, þegar menn voru yfirleitt nokkuð staðbundnir á heimilum sínum.

Við þá breyt., sem orðið hefir á háttum fólksins í þessu efni, hafa svo breyt. þær, sem gerðar hafa verið að undanförnu á þessum lögum, miðazt. Það er t. d. ekki langt síðan framfærsluréttartímanum, sem áður var miðaður við 10 ára óslitna dvöl, var breytt í 5 ár og síðan 2 ár fyrir nokkru síðan, og nú hefir þessu samkv. frv. verið breytt úr 2 árum í það, að menn skuli hafa þar framfærslurétt, sem þeir eiga lögheimili. Ég álít, að sú breyt., sem hér er um að ræða, sé eins og nú er komið á réttum grundvelli reist, því að við verðum að beygja okkur fyrir þeim breyttu kringumstæðum, sem átt hafa sér stað í þessu efni. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að þetta getur vel leitt af sér aðrar breyt. í löggjöfinni, sem sé þær, að þau bæjar- og sveitarfélög, sem hér eiga hlut að máli, aðallega kaupstaðir og kauptún, en þangað liggur fólksstraumurinn, teldu nauðsyn bera til, að tekin yrði upp í lögin nokkur íhlutun um aðstreymi í þessa kaupstaði og þessi kauptún, þannig að sú hugmynd, sem skaut upp kollinum hér á þingi í frv. um byggingaleyfi, að hreppar og kaupstaðir fengju heimild til íhlutunar um aðflutning fólks, yrði lögfest. Mér finnst hv. þing alls ekki geta daufheyrzt við slíkum kröfum.

Það hefir verið minnzt á ákvæði 4. kafla þessa frv., sem fjallar um yfirstjórn framfærslumála og gerir ráð fyrir, að stj. sé veitt heimild til þess að taka þessi störf úr höndum atvmrn. og skipa sérstakan forstöðumann þessara mála með sérstöku skrifstofuhaldi. Mun ég ekki fjölyrða um það atriði að þessu sinni, en get tekið undir það, að með þessu er verið að stofna til óþarfa kostnaðar, án þess að nokkru sé bætt um yfirstjórn þessara mála. Sú breyt. á fátækralöggjöfinni, sem gerir dvalarstað manns, sem styrk þiggur, að framfærslusveit hans, er kostur, því að hún fækkar ágreiningsatriðum, sem oft hafa átt sér stað út af sveitfestistímanum og kostað bæði sýslumenn og stjórnarráð og aðra hlutaðeigendur mikla fyrirhöfn og skriffinnsku. Hinsvegar virðist mér ekki heppilegt, að ágreiningi, sem kann að rísa upp milli hreppa, og hann er alls ekki útilokaður samkv. þessu frv., megi ekki skjóta til úrskurðar sýslumanna, eins og gert er ráð fyrir í frv. í æði mörgum tilfellum hefir þessu verði þannig hagað að undanförnu, að sýslumenn hafa fellt fullnaðarúrskurð í þessum málum, sem aðiljar hafa getað sætt sig við. En samkvæmt ákvæðum frv. um þetta efni, skilst mér, að þegar slík deila rís upp, þá eigi að skjóta málinu beint til stjórnarráðsins eða fátækraframfærslustjóra, ef hann á að verða æðsta úrskurðarvald í þessu máli. Ég álít, að með slíku fyrirkomulagi séu hreppunum gerðir alltof miklir óþarfa erfiðleikar. Ef þetta er réttur skilningur hjá mér á þessu atriði við fljótan yfirlestur, þá vil ég skjóta þessu til hv. d. og vona, að hún taki þetta til athugunar.

Að lokum vil ég svo minnast á eitt atriði, sem mér finnst vanta í þetta frv., miðað við það ástand, sem nú er í viðskiptum hreppa á milli í fátækramálum, sem sé það, að það er gengið alveg fram hjá því, hvernig fara eigi með uppgerð á gömlum viðskiptum þeirra á milli. Mig minnir, að hv. frsm. hafi minnzt á þetta atriði áðan. Um leið og gagngerð breyting er gerð á þessari löggjöf, virðist mér óhjákvæmilegt, að sett sé ákvæði í frv. um það, hvernig fara á með gömul viðskipti hreppanna, og þannig gengið frá því, að þeim viðskiptum gæti lokið á skaplegan hátt, því að við vitum það vel, að það hefir verið svo að undanförnu, að kaupstaðirnir, sérstaklega Reykjavík, hafa orðið að framfæra fjölda manna eða leggja þeim til styrk, enda þótt þeir hafi átt sveitfestu úti um land, og stofnað þannig til mikilla skulda, sem hreppunum hefir verið algerlega um megn að greiða, þrátt fyrir bezta vilja til þess að standa í skilum. Ég skal ekki fara út í það að tala um leið í þessu efni, en samkv. viðtali við hv. 1. flm. frv., þá býst ég við, að hann hafi gert till. í þessa átt, enda þótt hún hafi ekki komið fram í frv., en það er mín skoðun, að ákvæði um þetta atriði verði að fylgja í kjölfar þeirra breyt., sem frv. gerir ráð fyrir.