16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (2980)

133. mál, framfærslulög

Frsm. (Bergur Jónsson) [frh.] [óyfirl.]:

laugardaginn, þegar ljósin biluðu og fundi var slitið, hafði ég rætt um brtt. á þskj. 748, sömuleiðis brtt. frá fjmrh. á þskj. 771, og allar brtt. á þskj. 740, nema þrjár eða fjórar þær síðustu. Ég vil þá láta þess getið, að ég er samþykkur 23. brtt. þar, að í stað 1. júní komi 1. júlí, en aftur er ég á móti 24. brtt., því að ég álít, að hún sé óþörf, þar sem komið er frv. um skuldaskil sveitar- og bæjarfélaga. 25. brtt. er þörf leiðrétting, en 26. brtt. legg ég á móti, þar sem sýslunefndir og bæjarstjórnir hafa heimild til að neita um byggðarleyfi.

Þá hefi ég ekki minnzt á brtt. á þskj. 790 frá hv. l. landsk. þm. og hv. 2. þm. Reykv. Fyrri till., við 56. gr., læt ég liggja milli hluta, n. hefir ekki tekið afstöðu til hennar, en ég best ekki við, að hún sé til bóta. Seinni brtt. vil ég algerlega leggja á móti, þar sem gildistaka þessara laga er miðuð við önnur lög, sem ekki eru gengin í gildi. Það er engin lagasetningaraðferð, að einhver lög, sem enginn veit, hver verða, ráði því, hvenær lög gangi í gildi. Það veit enginn um lögin um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, hvernig þau verða, eða hvað lengi það dregst, að þau ganga í gildi, eða hvað ánægðir menn verða með þau. Ég skil því ekki í þessari brtt.

Ég held ég hafi ekki enn minnzt á brtt. á þskj. 789, sem flutt er af mér og hv. 1. landsk. og hv. 2. þm. Reykv. Sú fyrsta er aðeins útfylling á 22. gr. frv., þar sem valdsmönnum er falið að leita slits framfærslunefndar eða hreppsnefndar eða annara kunnugra þar, sem ekkjan á heima, um hagi hennar, áður en úrskurður er upp kveðinn um það, hver eigi að annast framfærsluna. Það geta aðrir verið kunnugri um hagi hennar en nefndarmennirnir, og er þessi brtt. sjáifsögð. - Brtt., að 61. og 26. gr. falli niður, eru báðar komnar fram af mannúðarástæðum. Það ákvæði 61. gr., að móðir barns, sem meðlag hefir tekið eftir látinn barnsföður, missi rétt sinn til meðlagsins, ef hún giftist aftur, þótti okkur ekki mannúðlegt. Það kemur vitanlega fyrir, þó að ekki sé það venja, að hún giftist aftur, og þá er það aukin ánægja fyrir hana að geta veitt hinum nýja manni sínum það meðlag, sem hún hefir fengið. Í öðru lagi er hér um nýmæli að ræða, því að áður var í lögum, að úrskurður réði, hvort meðlagið héldist. Það hefir líka verið talið hneykslanlegt, að búa saman án giftingar, og þó að þar skoðanir séu orðnar nokkuð breyttar, þá er ekki ástæða til fyrir löggjafarvaldið að vera að ýta undir, að fólk búi saman ógift. - Viðvíkjandi hinni brtt. við 26. gr. frv., þá er hún í samræmi við þetta, að gera ekki rétt hinna giftu minni en hinni ógiftu.

Þá er ég búinn að fara í gegnum flestar brtt., nema brtt. hv. þm. V.-Húnv. á þskj. 715 viðvíkjandi jöfnunarflokkunum. Ég tel það ekki rétt að fara út í það að rugla með þetta, heldur reyna það fyrirkomulag, sem í frv. segir. Sama er um brtt. hans við brtt. hæstv. fjmrh. á þskj. 771.

Að öðru leyti hefi ég rætt um frv. almennt áður við 2. umr., og sé því ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, en ég mun svara því, sem fram kann að koma viðvíkjandi frv.