10.12.1935
Sameinað þing: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

1. mál, fjárlög 1936

Frsm. 1. kafla (Jónas Guðmundsson):

Ég vona, að mér fyrirgefist, að aths. mín verður ef til vill eitthvað lengri en menn bjuggust við. En mér finnst ég ekki geta látið ómótmælt ýmsu því, sem fram hefir komið í ræðum manna hér, sérstaklega í ræðu hv. 6. þm. Reykv. En áður en sný mér að því, vil ég mælast til þess við hv. þm. G.-K., að hann taki aftur til 3. umr. till. sína um sjómerki, því að enn hefir fjvn. ekki getað ráðstafað fullkomlegu því fé, sem í 13. gr. C. er ætlað til vitamála og hafnargerða. Þegar fjvn. tekur þennan hlutu fjárl. til athugunar, verður þessi till. e. t. v. athuguð líka.

Við hv. þm. A.-Húnv. get ég sagt það, að skiptingin á vegafé fer hjá n. eftir því, hve mikið er búið að gera af vegum í hlutaðeigandi sýslum og hve mikið er komið í vegasamband.

Hv. þm. V.-Sk. hefir tekið aftur tvær af brtt. sínum. En að því er þriðju till. hans snertir. þá um læknisvitjunarstyrkinn, er það að segja, að ég býst ekki við, að n. leggi á móti henni, og, ég fyrir mitt leyti mun greiða atkv. með henni.

Þá er það hv. 6. þm. Reykv., sem réðst á fjvn. fyrir aðgerðir hennar í málum símamanna. Mér þykir undarlegt, að hann skuli vera svo ofróður um þetta mál. Hann sagði t. d., að uppbætur við símann væru aðallega greiddar fyrir aukastörf. Þetta er ekki rétt. Fyrir aukastörf er greitt sem fyrir hverja aðra aukavinnu. Launin hjá starfsfólki símans eru yfirleitt lág, en þar eru greiddar fernskonar uppbætur. Aðeins ein af þessum uppbótum er símtalauppbótin, sem hann veik að. Hann taldi það óviðurkvæmilegt að vega að krukka í einn starfsmannaflokk ríkisins, Þetta er rétt og gæti staðizt, ef n. hefði gert þetta. En starfsmannaskráin ber það með sér, að breytt hefir verið um laun að meira eða minna leyti hjá svo að segja öllum stofnunum ríkisins, allt frá stjórnarráðinu og niður úr. Þó hefir ein stofnun verið undantekin: það hefir ekki verið hreyft við póstmönnum. Til leiðbeiningar hv. þm. skal ég skýra símtalauppbótina. Hún var upphaflega sett með samþykki fjvn. og stjórnarráðsins. Af hverju símtali í landinu voru teknir 5 aurar, og var þessu skipt milli starfsmanna við 1. flokks stöðvar eftir reglum, sem samdar voru af n. og Tryggvi Þórhallsson lagði á blessun sína. Þessi uppbót var sett til þess að hvetja starfsfólkið til að gegna sem bezt starfi sínu. Það hafði viljað brenna við, að símtöl voru skakkt talin, en eftir að þessi breyt. komst á, batnaði þetta til muna, og bæði síminn og starfsfólkið hagnaðist á hinu nýja fyrirkomulagi. Nú er þessi uppbót orðin allmikil og nemur um 40 þús. kr. N. lagði nú til, að uppbótin væri lækkuð úr 5% af heildartekjunum yfir allt landið niður í 31/2%, sem rynni til starfsfólksins, en eftir öðrum reglum en áður. Það, sem hefir undir 3000 kr. árstekjur, fær eina mikið af þessari upphæð eins og ef uppbótin hefði áfram verið 5% en þeir, sem hærra kaup hafa, fá lægri uppbót. Áður rann hún öll til þeirra bezt launuðu. Að fjvn. hefir ekki tilhneigingu til að hafa afskipti af þessari uppbót fremur en öðrum stafar af því, að hún var upphaflega sett með samþykki fjvn., en ekki þingsins. Hér liggur fyrir brtt. frá einhverjum hv. þm. þess, efnis, að ráðh. skuli setja sérstök ákvæði um þessa launauppbót, og get ég fyrir mitt leyti vel fallizt á það.

Þá gerði hv. þm. samanburð á launakjörum starfsmanna Landssímans og annara ríkisstofnana. Ég hefi nú sjaldan heyrt menn fara svo ódrengilega með tölur sem hv. þm. gerði þarna. Hann vitnaði til aðalbókarans í skrifstofu landssímans og taldi hann hafa 4 þús. kr. laun. Laun hans voru þessi síðastliðið ár: Föst laun 4152 kr., föst aukalaun 1200 kr., uppbætur 1566 kr. og í aukavinnu 269 kr. Samtals 7187 kr. Þegar þess er gætt, að laun sumra þessara manna eru komin yfir 7000 kr. og tekið tillit til þess, að laun ráðh. og hæstaréttardómara eru þetta 8 til 10 þús. kr., þá er ekki hægt að segja, að þeir séu illa launaðir.

Laun aðalgjaldkera landssímans eru nákvæmlega þau sömu, nema að því leyti, að í aukavinnu hafði hann á árinu 188 kr., eða samtals 7106 kr. En hann hefir auk þess 900 kr. í mistalningarfé.

Að vísu skal ég viðurkenna, að einstaka menn hafa hærrri laun en ráðherra. en ég ætla, að þeir séu þó ekki nema tveir, og ég geri ráð fyrir, að þessu verði breytt fljótlega og laun þeirra lækkuð til samræmis við þá, sem verr eru launaðir, en hafa þó sæmilega há laun hjá ríkinu. Þessir tveir menn eru síma- og póstmálastjóri og forstöðumaður tóbakseinkasölunnar; aðrir starfsmenn ríkisins hafa ekki hærri laun svo nokkru nemi. Í till. n. er gert ráð fyrir, að þessi laun lækki.

T. d. hefir aðalgjaldkeri landssímans 6 þús. og 300 kr., en hjá gjaldkera áfengisverzlunarinnar eru launin áætluð 6 þús. kr. og þar í mistalningarfé. Þessir tveir menn eru vel sambærilegir. því mikið fé fer um hendur þeirra beggja, en auk hinna föstu 6300 kr. árslauna hefir aðalgjaldkeri landssímans einnig mistalningarfé, svo hann er h. u. b. 1000 kr. betur launaður heldur en gjaldkeri áfengisverzlunarinnar, sem ég tók til samanburðar.

Þá talaði hann um, að óviðkunnanlegt væri að lækka tímakaup um leið og starfstími væri lengdur; en um starfstíma við landssímann er það að segja, að á honum verður engin breyt. Bæði er það þessar breyt. eru ekki fullkomnaðar nú, og hjá þessari stofnun er nú enga breyt. hægt að gera á starfstíma, enda er engin till. um það. Hitt skil ég ekki, að honum skuli finnast óviðkunnanlegt, að samræmt sé það kaupgjald, sem greitt er hjá ríkisstofnunum, og er ég satt að segja hissa á, að nokkur skuli halda slíku fram.

Hv. þm. bar saman það kaup, sem hér er ætlazt til, að greitt sé fyrir eftirvinnu, og það kaup sem venjulegir daglaunamenn fá fyrir eftirvinnu og helgidagvinnu; en það er ákaflega mikill munur á því að vera daglaunamaður og eiga allt sitt líf undir því að fá vinnu, eða því, að vera fastur starfsmaður hjá einhverri stofnun, og allt annað, þótt sá maður inni af hendi einhver aukastörf, þegar sú stofnun, sem hann er fastur starfsmaður hjá, þarf þess með. Mér er kunnugt um margar einkastofnanir hér í Reykjavík, sem borga starfsmönnum sínum gott kaup, en greiða þeim ekkert fyrir aukavinnu, þó mikið þurfi að vinna fram yfir venjulegan tíma, til dæmis um áramót, en hver maður, sem hjá ríkisstofnun vinnur, fær borgun fyrir aukavinnu sína. Hér er ekki farið svo langt að skylda þá til að inna þessi aukastörf kauplaust af hendi, þótt það sé gert hjá ýmsum einkafyrirtækjum.

Hvað viðvíkur lækkun símtalagjaldsins og þeirri niðurfærslu á launum starfsmanna landssímans, sem af henni leiðir, þá vil ég taka það fram, að sú niðurfærsla er eingöngu hjá þeim, sem hæstu launin hafa. Þar er farið fram á að hækka lítillega hin föstu aukalaun.