16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2061 í B-deild Alþingistíðinda. (2995)

133. mál, framfærslulög

Jónas Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég skal taka það fram, að ég gleymdi í fyrri ræðu minni að minnast á eina brtt. á þskj. 740, sem ég hefði gjarnan viljað víkja að. Þessi brtt. er um það, sem hér er mikið um rætt, hvort framfærsluþurfi, sem kemur frá útlöndum, megi kjósa sér, á hvaða sveit hann á að fara eða hvort hann á að fara í þann hrepp, sem hann átti heima í, áður en hann fór af landi burt. Mér finnst það miklu meira í samræmi við anda þessa frv., að þessi maður, sem kemur frá útlöndum og er e. t. v. búinn að vera þar lengi, fari þegar í stað í þá sveit, sem hann sjálfur vill setjast að í. Mér virðist því algerlega rangt að samþ. þessa brtt. og miklu réttara að þessir menn segi sjálfir til um það, hvar þeir vilja setjast að í eitt skipti fyrir öll. - Um 7. brtt. á þskj. 740 vil ég segja það, að ég tel ekki til bóta, að hún verði samþ.

Þá vil ég víkja nokkuð að hv. þm. V.-Húnv. Það er verst, að hv. þm. er nú ekki hér viðstaddur, en það er nú kannske óþarfi að fara að sækja hann til að hlusta á mig; en ég hafði ekki hugsað mér að víkja að öðru en því, sem hér hefir verið sagt. Hér hefir komið fram skrifleg brtt. um það, að framfærslun. verði skipaðar 3 mönnum í stað 5. - Þetta er nú náttúrlega ekkert aðalatriði, en þetta ákvæði um stjórn framfærslul. er sniðið eftir samskonar kafla í dönsku framfærslulögunum. Þessi regla er einmitt þaðan tekin að hafa nefndirnar frekar fjölmennar til þess að koma í veg fyrir að menn séu í hreppsn. og bæjarstjórnum og í þessum nefndum, því að ekki þarf að efa, að fjölda margir hæfir menn í þetta eru utan bæjarstj. og hreppsn. - Ég sé nú, að hv. þm. V.- Húnv. er kominn, og það var aðallega til að svara honum, að ég stóð upp. Það voru einkum tvö atriði í ræðu hans, sem ég vildi taka til athugunar. Fyrra atriðið var það, að hann sagði, að þrátt fyrir upplýsingar mínar um það, hvað Reykjavík væri betur sett en aðrir kaupstaðir og sveitarfélög, þá væri búið að taka tillit til þessa mismunar með útreikningum, sem jöfnuðu gjaldið. Eftir þessu er það rétt, að þessi mismunur á sér stað. En það er ekki þetta, sem er aðalatriðið hér, heldur hitt, að ekki er búið að taka tillit til, hvað mikið af þessu er fyrir tilverknað bæjarfélagsins sjálfs og hvað mikið fyrir tilverknað hins opinbera í heild. Hin önnur sveitar- og bæjarfél. í landinu geta ekki vænzt þess, þó að fjölgað sé starfsmönnum við Landsbankann hér, að fá álagningarmöguleika fyrir það. Og þegar sett er á stofn eftir fisksölul. heildsala á fiski alls landsins í Reykjavík, sem náttúrlega á, eins og hvert annað fyrirtæki, að vera skattskylt hér, þá er þar með tekinn sá réttur, sem verið hefir til í öðrum sveitarfélögum, til þess að hafa þar heildsölu og þar með álagningarmöguleikar. Allt slíkt, sem hið opinbera gerir, er Reykjavík til hagsbóta, en ekkert af því felst í þeirri reglu, sem reiknað er eftir. Það er þetta, sem ég vildi sérstaklega undirstrika. - Þá kem ég að hinu atriðinu, sem er í beinu áframhaldi af þessu. Hv. þm. sagði, að það væri nákvæmlega sama með því að samþ. brtt. hans við brtt., sem fjmrh. ber fram, eins og að samþ. brtt. hans við 72. gr. Þetta er líka rétt, en bara ekki að öllu leyti. Það er rétt að því leyti til, að ef fátækrajöfnunarféð hrekkur ekki til að greiða framfærslukostnað landsins, þá er það 10% ívilnunin, sem sveitarfélögin eiga að fá, sem verður upphafin. Það er rétt, að ég tel það réttara, að ef fátækrajöfnunarféð hrekkur ekki til, þá eigi ívilnunin fyrst að hverfa hjá þeim, sem minnst eiga að fá, en síður hjá hinum, sem meira eiga að fá. En verði brtt. hæstv. fjmrh. samþ. eins og hún liggur fyrir, verkar hún bara þannig, að það sveitarfélag, sem á að fá mikið, fær hlutfallslega jafnt og það, sem á að fá lítið. Eftir till. hv. þm. V.-Húnv. þá er upphafningin 10% fyrst og síðan koma til endurgreiðslu 2/3 hlutar. Ég veit ekki, hvort menn skilja þetta, en ég veit, að hv. þm. V.-Húnv. skilur þetta vel, að einmitt þetta verkar ekki fyrr en fátækrajöfnuðurinn er orðinn of lítill. Þegar hv. þm. athugar þetta, vænti ég að hann sjái, að sama er, hvort þetta er tekið eða hans brtt. Það veit ég, að hv. þm. V.-Húnv. getur ekki hrakið.